Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 478 . mál.


1263. Nefndarálitum frv. til l. um búnaðargjald.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess að einfalda fyrirkomulag á innheimtu sjóðagjalda frá því sem nú er. Í stað búnaðarmála-, neytenda-, jöfnunar- og framleiðsluráðsgjalds er ætlunin að innheimta eitt gjald, búnaðargjald, af búvöruframleiðendum og á það að nema 2,65% af veltu búvöru og tengdrar þjónustu. Frumvarpið tengist öðru frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi, um Lánasjóð landbúnaðarins, þar sem 1,1% af þeim 2,65% sem innheimt eru er ætlað að renna í þann sjóð. Að öðru leyti er ætlunin sú, eins og fram kemur í 6. gr. frumvarpsins, að 1,275% renni til Búnaðarsjóðs og 0,275% renni til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Búnaðargjald er því sérstakar álögur á bændur til að standa undir því félagsmálakerfi sem stjórnvöld og bændur sjálfir hafa komið sér upp í tímans rás.
    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að gjaldtaka eins og sú sem hér er ætlað að koma á sé tímaskekkja, hér sé um að ræða einhvers konar aðstöðugjald eða veltuskatt sem leggst á bændur án tillits til afkomu þeirra. Minni hlutinn telur að slíkar álögur eigi að heyra sögunni til og getur ekki stutt frumvarpið, þrátt fyrir að þar sé að finna ákvæði um lækkun sjóðagjalda frá því sem nú er en samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er ætlunin að innheimta rúmlega 370 millj. kr. á ári með búnaðargjöldum. Minni hlutinn tekur undir athugasemdir sem fram koma hjá VSÍ um að þeir sem njóti þessarar gjaldtöku séu farnir að líta á þær sem fastar tekjur og að frumvarp til laga um búnaðargjald, sem er ætlað að gilda í framtíðinni, bindi greininni sömu bagga og hafa íþyngt fortíðinni. Því telur minni hlutinn að það frumvarp sem hér er til meðferðar sé aðeins tilraun til að staga í ónýtt millifærslu- og sjóðakerfi landbúnaðarins sem fyrir löngu er gengið sér til húðar. Því getur minni hlutinn ekki stutt frumvarpið í þeirri mynd sem það er.
    Í fyrsta lagi leggur minni hlutinn áherslu á að hann er algerlega andvígur álögum sem byggjast á veltu búvöruframleiðslunnar án tillits til afkomu hennar. Fyrir nokkrum árum var aðstöðugjald lagt af enda gjaldið í engu samræmi við hugmyndir manna um eðlilega skattheimtu og eftirtektarvert að gamla aðstöðugjaldshugmyndin skuli ganga aftur í þessu frumvarpi. Í ljósi erfiðrar afkomu bænda undanfarin ár hlýtur minni hlutinn að gagnrýna þá forgangsröðun, sem birtist í frumvarpinu, að skylda bændur til að greiða til félagsmála- og millifærslukerfa greinarinnar án tillits til afkomu. Í þessu frumvarpi birtist því skýr vilji ríkisstjórnarinnar til að viðhalda félagsmála- og millifærslukerfi landbúnaðarins óbreyttu.
    Í öðru lagi bendir minni hlutinn sérstaklega á að samkvæmt áætlun sem lögð var fyrir landbúnaðarnefnd um innheimtu og skiptingu búnaðargjalds er gert ráð fyrir því að tæpar 40 millj. kr. renni til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Í ársreikningi Framleiðsluráðsins fyrir verðlagsárið 1994–95 kemur fram að eigið fé ráðsins er tæpar 210 millj. kr. og umhugsunarefni hvort það eigi að vera hlutverk ráðsins að safna sjóðum á meðan afkoma bænda er ekki betri en raun ber vitni. Minni hlutinn telur að það hefði verið eðlilegra að skoða hvort ekki hefði mátt reyna að leita leiða til þess að hagræða og spara innan félagsmálakerfisins, t.d. með því að fela hlutverk ráðsins öðrum stofnunum sem fyrir eru í kerfinu, eins og Lánasjóði landbúnaðarins og Hagþjónustunni, og lækka um leið gjaldið um sem nemur hlut Framleiðsluráðs.
    Í þriðja lagi vekur minni hlutinn sérstaka eftirtekt á því gjaldi sem rennur til Búnaðarsjóðs. Það rennur til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinafélaga. Með þeirri innheimtu er löggjafinn að kveða á um innheimtu félagsgjalda í gegnum skatta. Minni hlutinn minnir á að þessi innheimtuaðferð fær vart samrýmst hugmyndum manna um félagafrelsi.
    Í fjórða lagi minnir minni hlutinn á eftirfarandi álit sjömannanefndar, en að því stóðu bændur ásamt fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, um þann hluta búnaðargjaldsins sem ætlað er að renni til Lánasjóðs landbúnaðarins. Taldi sjömannanefndin að „ forsendur væru brostnar fyrir niðurgreiðslu vaxta á lánsfé með álagningu gjalda á innlenda búvöruframleiðslu. Horfið hafi verið frá slíkum niðurstöðum í öðrum atvinnugreinum, enda ávallt hætta á því að þær ýti undir óarðbærar fjárfestingar.“ Að mati minni hlutans hafa forsendur ekkert breyst frá samþykkt ályktunarinnar.

Alþingi, 13. maí 1997.Lúðvík Bergvinsson,

Ágúst Einarsson.


frsm.