Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 530 . mál.


1265. Breytingartillögur



við frv. til l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Við 2. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um lífeyrissparnað eru eign rétthafa.
    Við 18. gr. Á eftir orðinu „sjóðfélaga” í fyrri málslið 2. mgr. komi: sem og hlutdeild hans í hreinni eign til greiðslu lífeyris.

Greinargerð.


    Ekki hefur verið ljóst hverjir eru eigendur lífeyrissjóða. Sjóðfélagar eiga réttindi hjá sjóðnum en hver fer með forræði fyrir eignunum sem standa á móti réttindunum? Ef farið væri eftir iðgjaldinu, sem yfirleitt skiptist í 4% iðgjald launþega og 6% iðgjald launagreiðanda, mætti draga þá ályktun að launþegar eigi 40% af eignum sjóðanna og launagreiðendur 60%. Þessi ályktun er líka í samræmi við upphafið að stofnun lífeyrissjóða almennt, en þeim var ætlað að taka við húsbóndaábyrgð vinnuveitenda. Þessi siðferðilega ábyrgð er ævarforn og felst í því að bónda bar að sjá hjúi sínu farborða eftir langa þjónustu ef vinnuþrek þess dvínaði sökum elli eða örorku. Uppbygging velferðarkerfis með almannatryggingar sem þungamiðju hefur flutt framfærsluábyrgðina frá atvinnurekanda til ríkis og sveitarfélaga. Skylduaðild launþega að lífeyrissjóði með lagaboðum 1974 og 1980, sem og fyrirliggjandi frumvarp, undirstrikar enn frekar þennan flutning á húsbóndaábyrgð til ríkisins. Þar sem engin húsbóndaábyrgð er á framfærslu launþegans lengur er ekki hægt að rökstyðja að atvinnurekendur eigi hlut í lífeyrissjóðunum.
    Skipting iðgjalds í 4% og 6% er hluti af kjarasamningum og í raun marklaus. Hækka mætti laun allra landsmanna um 6% iðgjaldshlut atvinnurekenda og launþegar greiddu 9,434% (=10%/1,06) af hækkuðu laununum og báðir aðilar stæðu eins.
    Þegar launþegi lýkur starfi hjá atvinnurekanda af einhverri ástæðu á hann einn kröfu á lífeyrissjóðinn en ekki atvinnurekandinn. Það undirstrikar e.t.v. best þá skoðun að sjóðfélagarnir eigi lífeyrissjóðinn en ekki aðrir, enda er talað um hreina eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris.
    Stjórnir lífeyrissjóða hafa yfirleitt verið skipaðar til helminga af samtökum atvinnurekenda og launþega, en sú skipan mála grundvallast á hinni gömlu hugmynd um húsbóndaábyrgð. Þá voru það hagsmunir atvinnurekenda að sjóðirnir væru vel reknir. Eftir að þessi hugmynd riðlaðist eru ekki forsendur fyrir aðild atvinnurekenda að stjórnum lífeyrissjóða. Því er hér lagt til að skýrt verið kveðið á um eignaraðildina í lagatextanum.
    Í síðari breytingartillögunni er lagt til að sérhverjum sjóðfélaga verði sendar upplýsingar um það hversu stóran hlut hann „á“ í hreinni eign sjóðsins til greiðslu lífeyris og skal þá miða við tryggingafræðilegt mat á verðmæti áunninna réttinda. Þannig verði sjóðfélaginn betur meðvitaður um þessa eign sína. Að meðaltali eiga sjóðfélagar réttindi hjá lífeyrissjóðum að verðmæti yfir 2 millj. kr.