Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 530 . mál.


1266. Breytingartillögur



við frv. til l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Á undan 29. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs. Heimild til að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra. Stjórn lífeyrissjóðs boðar til félagsfundar. Henni ber að boða félagsfund innan viku ef sjóðfélagar með 1 / 10 atkvæðavægis eða endurskoðendur sjóðsins krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Til félagsfundar skal boðað með dagskrá í auglýsingu í fjölmiðlum með minnst fjögurra vikna og mest sjö vikna fyrirvara.
                  Atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fer eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Sjóðfélagi getur veitt öðrum aðila skriflegt umboð til þess að fara með atkvæði sitt á félagsfundi. Slíkt umboð gildir aldrei lengur en tvö ár og það má afturkalla hvenær sem er.
                  Aðili sem ber beina ábyrgð á skuldbindingum lífeyrissjóðs eða ábyrgð á breytilegu iðgjaldi til hans skal þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. fara með meiri hluta atkvæða á félagsfundi sjóðsins og við stjórnarkjör skv. 5. mgr. samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.
                  Aðalfund skal halda árlega í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Í fundarboði skal auglýst eftir framboðum til stjórnar og gefa tveggja vikna framboðsfrest. Á aðalfundi skal taka fyrir skýrslu stjórnar, ársreikninga, tryggingafræðilega úttekt, fjárfestingarstefnu, laun stjórnar og tillögu stjórnar um breytingar á samþykktum sjóðsins.
                  Stjórn sjóðsins skal kjósa með beinum hætti á aðalfundi eða með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu fyrir aðalfund ef kosning á aðalfundi er óframkvæmanleg.
    Við 29. gr. (er verði 30. gr.). Eftirfarandi breytingar verði á 1. mgr.:
         
    
    1. og 2. málsl. falli brott.
         
    
    Í stað orðsins „Stjórnin” í 3. málsl. komi: Stjórn lífeyrissjóðs.
    30. gr. falli brott.

Greinargerð.


    Hér er lagt til að um félagsfundi lífeyrissjóða gildi svipaðar reglur og um hluthafafundi hlutafélaga. Reglur um atkvæðavægi eru þó vandmeðfarnar vegna þess hagsmunaáreksturs sem óhjákvæmilega verður milli eldri og yngri sjóðfélaga við val á forsendum sem notaðar eru við tryggingafræðilega úttekt, sérstaklega við mat á þeirri ávöxtun sem vænst er að sjóðurinn muni ná næstu áratugi. Staða sjóðsins batnar verulega ef reiknað er með hárri ávöxtun og þá er að öðru óbreyttu hægt að hækka lífeyri til þeirra sem nú taka lífeyri. Það verða því hagsmunir eldri sjóðfélaga að reikna með hárri ávöxtun. Hins vegar þarf að skerða lífeyri líðandi stundar ef reiknað er með lágri ávöxtun en við það verður sjóðurinn sterkari en ella í fjarlægri framtíð, þegar yngri sjóðfélagar hefja töku lífeyris.
    Atkvæðavægi eldri sjóðfélaga verður mjög mikið ef miðað er við áunnin réttindi eða inneign. Þeir hefðu því hugsanlega of sterk ítök með þeim hætti. Ef miðað er við höfðatölu fá þeir sem eiga mjög lítil réttindi, t.d. vegna hlutastarfs, of sterk ítök. Þeir geta auk þess átt atkvæðisrétt í tveimur eða þremur sjóðum samtímis. Þetta má hindra með því að miða við þann rétt sem sjóðfélaginn kemur til með að ávinna sér um starfsævina (framreiknaður réttur), en þá er hugsanlegt að yngri sjóðfélagar fái of mikil ítök miðað við hagsmuni þeirra. Lausnin gæti falist í því að miða við blöndu af áunnum og framreiknuðum réttindum.
    Þegar aðili, t.d. ríkissjóður, ber ábyrgð á lífeyrissjóði, beina eða óbeina, er eðlilegt að hann hafi öll tök á stjórn sjóðsins og breytingum á samþykktum því að hann á allt undir því að skynsamlega sé staðið að rekstri sjóðins.
    Nauðsynlegt getur verið að grípa til póstatkvæðagreiðslu ef aðstæður eru þannig að sjóðfélagar geta ekki kosið beinni kosningu á félagsfundi. Það getur átt við ef lífeyrissjóðurinn er mjög fjölmennur eða ef sjóðfélagar eru mjög dreifðir, t.d. sjómenn.
    Breytingartillögur í 2. og 3. lið leiðir af tillögu fyrsta liðar.