Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 475 . mál.


1276. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 18 11 maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, sbr. l. nr. 45 11. maí 1982, nr. 95 28. maí 1984 og nr. 28 9. maí 1989.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar hefur ýmislegt að athuga við fyrirliggjandi frumvarp. Fyrst ber að nefna þá staðreynd að aðalefni málsins, þ.e. stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, liggur ekki fyrir þinginu, heldur einungis spurningin um það hvort Íslendingar eiga að selja meiri hluta sinn í verksmiðjunni eða ekki. Það er í sjálfu sér mikið mál en er ekki eina málið og í raun fór minnstur tími nefndarinnar í að fjalla um það.

Raforkuverð.


    Að mati minni hlutans er raforkuverð viðunandi samkvæmt þeim samningi sem liggur fyrir vegna þriðja ofnsins. Samkvæmt norskum blöðum er verðið rétt innan við ellefu norskir aurar hver kílóvattstund. Þetta verð nær ekki aðeins til stækkunarinnar heldur líka til eldri hluta verksmiðjunnar. Í því felst ávinningur fyrir Landsvirkjun sem selur fyrirtækinu orku.
    Í Noregi hafa flestar verksmiðjur Elkem góða rafmagnssamninga að sögn forráðamanna fyrirtækisins. Þessir samningar renna út á árunum 2006–2010. Statkraft, norska orkusölufyrirtækið, vill nýta sér þessa staðreynd til þess að hækka orkuverðið. Þar er nú boðið til samninga um 20–22 norska aura á kílóvattstund eða um 30 mills. Norsku fyrirtækin munu ekki sætta sig við þetta verð; við munum beita pólitískum þrýstingi til að lækka verðið, sagði forstjóri Elkem á fundi nefndarinnar! En meðan verðið er svona hátt flyst þessi iðnaður frá Noregi og eitthvert annað. Hvert? Væntanlega til Íslands. Þetta skapar því um leið gullið tækifæri fyrir Íslendinga til að hækka raforkuverð til stóriðju hér á landi. Það virðist ráðamönnum landsins enn ekki ljóst. Þess vegna hafa þeir í raun fallist á fjórða og fimmta áfanga verksmiðjunnar og gera þar ráð fyrir of lágu orkuverði.

Áhyggjur starfsmanna.


    Starfsmenn verksmiðjunnar á Grundartanga hafa haft miklar áhyggjur af því að Elkem eignist meiri hluta í verksmiðjunni. Verður ekki sagt að viðtöl nefndarinnar við Guðmund Einarsson forstjóra hafi dregið úr áhyggjum af starfsmannamálum en Elkem er óvenjumikið í blöðum í Noregi vegna átaka við starfsmenn. Kom enda fram að það væri eitt aðalstefnumála fyrirtækisins og forráðamanna þess að fækka starfsmönnum; ekki að vísu með því að segja þeim upp sem fyrir eru heldur með því að ráða ekki nýja í stað þeirra sem hætta. Þó er bent á að í mörgum verksmiðjum Elkem í Noregi sjá verktakar um stóran hluta verkefnanna annarra en framleiðslunnar sjálfrar. Í því sambandi má nefna viðhaldsdeildir og mötuneyti. Þannig er augljóst að starfsmennirnir á Grundartanga standa frammi fyrir óvissu auk þess sem forstjóraskipti verða nú í fyrirtækinu og ekki ofmælt að starfsmenn sjái eftir núverandi forstjóra úr starfi.
    Þeir starfsmenn sem iðnaðarnefnd ræddi við tóku fram að þeir óttuðust að starfsmannastefnan yrði harðari en þeir ættu að venjast og að þeir kæmu síður að opnum dyrum en verið hefur á Grundartanga. Starfsmennirnir spurðu: Og hvað gerist ef upp kemur sama staðan og 1992? Verður fyrirtækinu ekki lokað? Þá var gripið til aðgerða í samráði við starfsmenn. Nú verða allar boðleiðir miklu lengri.
    Forráðamenn fyrirtækisins bentu á að framleiðslukostnaðarverð á járnblendi hafi lækkað mjög verulega. Árið 1979 hafi framleiðslan verið 200–250 tonn á hvern starfsmann og svo hafi verið allt fram til 1989. Þá hafi starfsmönnum verksmiðjunnar, þróunardeildinni, tekist að breyta fyrirtækinu þannig að framleiðsla á starfsmann jókst í um 325 tonn. Þegar kreppan reið yfir iðnaðinn, sú mesta á öldinni, tókst að auka framleiðsluna í 400–425 tonn á mann. Nú er framleiðslan 600 tonn á mann.
    Það er þróunardeild Járnblendiverksmiðjunnar sem hefur skilað þessum árangri. Forráðamenn verksmiðjunnar bentu á að með því að ríkið selur sinn hluta í járnblendiverksmiðjunni hverfa Íslendingar út úr vinnslu í stóriðju hér á landi. Það er slæmt, sögðu þeir. Það er mikilvægt að við höfum einhver yfirráð í úrvinnsluiðnaðinum en þurfum ekki að reiða okkur eingöngu á aðra. Enn fremur er ljóst, sögðu forsvarsmenn verksmiðjunnar, að með Elkem verða allar boðlínur miklu lengri. Við fengum um daginn þykkan doðrant með eyðublöðum til að sækja um mismunandi upphæðir til mismunandi verkefna, sögðu þeir. Það verður allt þyngra í vöfum.
    Elkemfyrirtækið varð ríkt á því að finna upp Söderberg-rafskaut; þau hefðu aldrei verið fundin upp eftir þessum doðröntum frá Elkem.

Þriðja besta í heimi.


    Eitt af því sem gagnrýnt var af stjórnarandstöðunni við meðferð málsins var matið á fyrirtækinu. Kom fram að það væri ákaflega erfitt að meta fyrirtækið í raun. Gert hefði verið ráð fyrir því í mati á fyrirtækinu að langtímameðalverð á afurðum þess væri um 4.160 norskar kr. tonnið. Í apríl í ár var verðið 4.560 norskar kr. tonnið, en fór hæst í 5.500 kr. og lægst í 3.550 kr. á einum ársfjórðungi þannig að sveiflurnar eru gífurlegar. Og lægsta verðið nú á síðustu árum er jafnframt lægsta verðið á öldinni. Er eðlilegt að taka það með í reikninginn þegar langtímameðalverð er ákveðið? Matsverðið á fyrirtækinu var eins og fyrr sagði miðað við 4.160 norskar kr. á tonnið. Það þýðir verð í kringum 225–250 millj. norskra kr. fyrir fyrirtækið. Ef meðalverðið í fyrra hefði hins vegar verið lagt til grundvallar hefði verðið á fyrirtækinu átt að vera um 1,5 milljarðar norskra kr. Við meðferð málsins í nefndinni kom þannig fram að verðið á fyrirtækinu var í rauninni allt of lágt þegar hlutur Íslands var seldur.
    Endurbyggingarverð verksmiðjunnar á Grundartanga er talið vera um 800 millj. norskra kr. og strípaður þriðji ofninn kostar, að talið er, a.m.k. 260–280 millj. norskra kr.
    Hagnaður fyrirtækisins var 280 millj. kr. árið 1994, 544 millj. kr. árið 1995, 660 millj. kr. 1996 og 600 millj. kr. 1997. Hér er því um að ræða gott fyrirtæki, að ekki sé meira sagt. Kom reyndar fram að verksmiðjan á Grundartanga er talin með þeim bestu í heimi í þessari grein. Sú þriðja besta í heiminum! Bendir allt til þess að vel hefði mátt reka fyrirtækið áfram með tveimur ofnum og að öryggi starfsfólks og þjóðarinnar hefði ekkert síður mátt tryggja með því að tryggja að fyrirtækið með óbreyttu eignarhaldi hefði bætt við þriðja ofninum.
    Við umfjöllun málsins heyrðist oft að Elkem hefði beitt járnblendiverksmiðjuna hörðu í ójöfnum leik og því hefðu menn gefist upp í miðju fljótinu. Elkem á 34 verksmiðjur. Virtist það vera skoðun samningamanna ríkisins að það væri ekkert annað að gera en að gefast upp af því að fyrirtækið væri markaðsráðandi. Flett var ofan af þeirrri bábilju í meðförum nefndarinnar; í heiminum eru á markaði um 2,4 milljónir tonna af kísiljárni. Elkem er með um 300 þúsund tonn þannig að hér er ekki um að ræða þann yfirburðarisa sem oft hefur verið talið.
    Í umræðu verður nánar fjallað um aðdraganda málsins og fleiri þætti þess.

Alþingi, 13. maí 1997.



Svavar Gestsson.




Fylgiskjal I.


Bréf trúnaðarmanna hjá Íslenska járnblendifélaginu til iðnaðarráðuneytis.


(3. febrúar 1997.)



    Á fundi trúnaðarmanna hjá Íslenska járnblendifélaginu þann 3. febrúar 1997 var fjallað um þær viðræður sem fram hafa farið um stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignarhaldi milli eigenda. Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið kemur fram hjá Jóni Sveinssyni, stjórnarformanni Íslenska járnblendifélagsins, að viðræður um stækkun tengist breytingum á eignarhaldi verksmiðjunnar og að ákvörðun um hvort tveggja verði tekin á líkum tíma. Þar kemur einnig fram sá möguleiki að Elkem eignist jafnstóran hlut og ríkið, eða jafnvel meiri hluta.
    Af þessu tilefni viljum við trúnaðarmenn starfsfólks koma því á framfæri við iðnaðarráðuneytið hver sé skoðun okkar á þessum málum.
    Þegar miklir erfiðleikar voru í rekstri járnblendisverksmiðjunnar hélt ríkið sínum hlut á meðan Elkem seldi af sínum. Við spyrjum okkur að því hvert verði viðhorf erlendra meirihlutaeigenda til starfseminnar þegar erfiðleikar steðja að. Við teljum að við breytingu á eignarhlut, þar sem erlendir aðilar ættu meiri hluta, væri stofnað í hættu þeim góðu og víðtæku tengslum sem verið hafa milli starfsfólks og forustumanna járnblendifélagsins. Sama á við bæði um 18 ára vinsamleg samskipti, þar sem við höfum sameiginlega leyst úr vandamálum fremur en að búa þau til, og tengsl framkvæmdastjóra við trúnaðarmenn sem hafa verið tryggð með fundum um öll málefni fyrirtækisins auk viðræðufunda um kjaramál þegar þau hafa verið efst á baugi.
    Því skorum við á iðnaðarráðuneytið að taka ákvörðun um stækkun verksmiðjunnar ótruflað af áformum um breytt eignarhald og að gæta í hvívetna hagsmuna starfsfólks og ríkisins.

Virðingarfyllst,


f.h. trúnaðarmanna



Þórður Björgvinsson,


aðaltrúnaðarmaður.

Fylgiskjal II.


Frásögn fulltrúa starfsmanna af fundi um


fyrirhugða stækkun járnblendiverksmiðjunnar.


    Mættir til fundar: Mánudaginn 24. febrúar boðaði Jón Sveinsson fulltrúa starfsmanna í samstarfsnefnd og trúnaðarmenn starfsmanna til fundar. Auk þeirra voru á fundinum: Halldór Kristjánsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðarráðuneyti, Jóhannes Nordal, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Sturla Böðvarsson alþingismaður, lögfræðingur iðnaðarráðuneytisins, Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri ÍJ og Stefán Reynir Kristinsson fjármálastjóri.

Inngangur.
    Halldór rakti stöðu mála og skipti erindi sínu í fjóra þætti:
    Meginsjónarmið varðandi stækkun.
    Þjóðhagsleg áhrif stækkunar.
    Staða viðræðna við Columbia Ventures um álver á Grundartanga.
    Staða viðræðna um stækkun ÍJ.

Hvers vegna stækkun nú?
    Markmiðið með stækkun er að bæta stöðu ÍJ til lengri tíma. Nú bjóðast hagstæðir raforkusamningar vegna mjög hagkvæmra virkjunarkosta. Hæpið er að slíkir samningar náist síðar. Hugmyndir um stækkun hafa lengi verið á borðinu af hálfu Íslendinga, en það var ekki fyrr en í október síðastliðinn að Elkem féllst á stækkun.

Afstaða Elkem.
    Elkem tengir stækkunina kröfu um að verða meirihlutaeigandi. Elkem mundi þá draga úr framleiðslu í Noregi og huga að áframhaldandi stækkun hér. Þeim hefur verið boðinn 45% eignarhluti við byggingu ofns 3 og 60% við byggingu ofns 4. Síðar kom fram að stefna ríkisins er að selja sinn hluta í fyrirtækinu og þá eiga Elkem og Sumitomo forkaupsrétt.

Möguleikar á breyttum eignarhlutföllum.
    Þröngar skorður eru settar við breytingum á eignaraðild í samningum um ÍJ. Halldór Kristjánsson taldi Elkem nauðsynlegan samstarfsaðila vegna þess hve sterkt fyrirtækið er á mörkuðum. Stefna ríkisins er hins vegar sú að meirihlutaeign Elkem tengist ekki stækkun verksmiðjunnar um einn ofn, heldur frekari stækkun eða skráningu félagsins á verðbréfaþingi. Þó kom fram að Elkem er boðið að auka hlut sinn í 51% þó að ekki verði af stækkun umfram ofn 3. Þarna eru því mótsagnir.
    Breytingar á samningum eru háðar samþykki allra aðila. Markaðssamningi verður ekki breytt nema með samþykki allra og hann gildir næstu sjö ár. Einnig verða allir að samþykkja breytingu á eignaraðild. Aukning hlutafjár og lántöku vegna ofns 3 er háð samþykki 2 / 3 hluta eigenda. Allt þetta er bundið í samningum um ÍJ.
    Ljóst er að Sumitomo staðfestir ekki stækkun nema gerður verði nýr markaðssamningur.
    Elkem tengir stækkun aukinni eignaraðild og nýjum markaðssamningi.
    Íslenska ríkið stefnir að því að skrá félagið á verðbréfamarkaði og losa sig út úr rekstri þess. Jafnframt að leggja grundvöll að langtímauppbyggingu.
    Nú er stefnt að því að næstu skref verði þau að á stjórnarfundi í byrjun mars verði tekin ákvörðun um ofn 3, raforkusamningur staðfestur og samkomulag um breytta eignaraðild. Nýr markaðssamningur verði þá einnig staðfestur. Frumvarp um þessar breytingar verði síðan lagt fyrir Alþingi í apríl. Hlutafjáraukning komi til á fyrri hluta þessa árs og málið að fullu frágengið í maí.

Framkvæmdir tengdar stóriðju á Grundartanga.
    Framkvæmdir sem tengjast aukinni stóriðju á Grundartanga eru um 36 milljarðar kr., þ.e. álver, ofn 3 og virkjanir: 22,2 milljarðar í virkjanir, 11,3 í álver og 2,7 í ofn 3. Þetta eykur erlenda fjárfestingu um 51%. Um 44% af þessu er innflutningur en 56% innlendur kostnaður. Framkvæmdirnar munu skapa 1.600 ársverk, þar af 560 árið 1997. Staðan árið 2000 mun verða sú að útflutningsverðmæti eykst um 8,5 milljarða, þar af eru 4,5 milljarðar innlend verðmætasköpun. Þessar framkvæmdir skapa 180 varanleg störf.

Viðræður um álver.
    Viðræður við Columbia Ventures eru á lokastigi. Frumvarp um álverið er til umfjöllunar hjá ríkisstjórn. Orkusamningur er tilbúinn. Allir aðrir samningar eru tilbúnir, svo sem fjárfestingarsamningur, lóðarsamningur, hafnarsamningur, samningur um hráefni og afurðir o.fl. Vinna við starfsleyfi er á lokastigi og fyrirtækið Norðurál ehf. hefur verið skráð.
    Búið er að bjóða út hluta rafbúnaðar. Tilboð í jarðvegsvinnu voru opnuð 21. febrúar og gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir um miðjan mars ef allt fer sem horfir. Landsvirkjun er í startholunum til að hefja virkjunarframkvæmdir á fjórum stöðum: Hágöngumiðlun, stækkun Búrfells, á Nesjavöllum og við Sultartanga. Framkvæmdir vegna Sultartanga þarf að bjóða út hið fyrsta til að virkjunin verði tilbúin til að afhenda orku 1999.

Viðræður við Elkem.
    Viðræður við Elkem snúast nú að mestu um verðmæti hlutafjár ÍJ. Gert er ráð fyrir að með hlutafjáraukningu fái Elkem aukinn hlut þannig að eignaskiptingin verði 45% í eigu íslenska ríkisins, 45% í eigu Elkem og 10% í eigu Sumitomo. Japanirnir munu halda einum stjórnarmanni. Greiðslum á hlutafé verði lokið á árinu 1997 og arður vegna ársins 1996 gangi upp í greiðslur. Ef tekin er ákvörðun um ofn 4 fyrir 1. júlí 1999 fær Elkem kauprétt á allt að 15% í viðbót. Ríkið seldi hluta eignar sinnar á markaði 1999.

Umræður og fyrirspurnir.
    Í umræðum að loknu þessu framsöguerindi kom fram að starfsmenn hafa áhyggjur af breytingum á eignaraðild, bæði hvað varðar stjórnun fyrirtækisins og samskipti. Einnig kom fram gagnrýni á hve sterka stöðu Elkem virðist hafa og að Íslendingar nýttu ekki það hve mikið þeir hafa að bjóða, bæði ódýra raforku í samkeppni við dýra ótrygga orku og að við erum ekki lengur tæknilega háðir Elkem. ÍJ hefur náð góðum árangri og þróað aðferðir í rekstri sem norsku verksmiðjurnar hafa síðan tekið upp. Ekki komu skýr svör við spurningum sem lagðar voru fram um samninga sem í gildi eru eða við gagnrýni á samninga. Svo virðist sem mikil áhersla sé lögð á raforkusölu, en hagsmunir ÍJ séu ekki aðalatriðið í þessum samningum.

Sigurður Guðni Sigurðsson.

Þórður Björgvinsson.