Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 410 . mál.


1279. Frumvarp til lögræðislaga.




     (Eftir 2. umr., 14. maí.)



I. KAFLI


Lögræði.


Lögræði.


1. gr.


    1. Lögráða verða menn 18 ára. Lögráða maður er sjálfráða og fjárráða.
    2. Nú stofnar maður, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, til hjúskapar, og er hann þá lögráða upp frá því.

Sjálfræði.


2. gr.


    Sjálfráða maður ræður einn öðru en fé sínu, nema lög mæli á annan veg.

Fjárræði.


3. gr.


    Fjárráða maður ræður einn fé sínu, nema lög mæli á annan veg.

II. KAFLI


Svipting lögræðis.


Skilyrði lögræðissviptingar o.fl.


4. gr.


     Svipta má mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur, sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja:
     b.     Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests.
     d.     Ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé.
     f.     Ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.
     h.     Ef nauðsyn ber til að vista hann án samþykkis hans í sjúkrahúsi sökum fyrirmæla í heilbrigðislöggjöfinni.

Takmörkuð lögræðissvipting.


5. gr.


    1. Svipta má mann lögræði sínu tímabundið ef ótímabundin svipting þykir ekki nauðsyn­leg. Tímabundin lögræðissvipting skal þó ekki ákveðin skemur en sex mánuði í senn. Tíma­bundin lögræðissvipting fellur sjálfkrafa niður að sviptingartímanum loknum, nema
áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um framlengingu hennar eða um ótímabundna sviptingu. Ef svo hagar til framlengist hin tímabundna svipting þar til úrskurður dómara liggur fyrir.
    2. Svipta má mann fjárræði varðandi tilteknar eignir hans hvort sem fjárræðissvipting er tímabundin eða ótímabundin. Þessi heimild er bundin við:
     b.     Fasteignir, loftför, skráningarskyld skip og skráningarskyld ökutæki.
     d.     Viðskiptabréf.
     f.     Fjármuni á innlánsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum, svo og inneignir í verðbréfasjóðum.
    3. Ákvæði laga þessara um sjálfræðissviptingu og réttaráhrif hennar eiga einnig við um tímabundna sjálfræðissviptingu skv. 1. mgr. Ákvæði laganna um fjárræðissviptingu og réttar­áhrif hennar eiga einnig við um tímabundna fjárræðissviptingu skv. 1. mgr. og enn fremur um fjárræðissviptingu skv. 2. mgr. að því er varðar þær eignir sem sviptingin tekur til, nema ann­að sé tekið fram.

Lögræðissvipting til bráðabirgða.


6. gr.


    1. Svipta má mann lögræði til bráðabirgða ef skilyrði 4. gr. þykja vera fyrir hendi og brýn þörf er á lögræðissviptingu þegar í stað, enda hafi þá verið borin fram krafa um lögræðissvipt­ingu fyrir sama dómstóli samkvæmt öðrum ákvæðum þessa kafla.
    2. Í málum til sviptingar lögræðis til bráðabirgða gilda ákvæði þessa kafla. Ákvæði 3. mgr. 10. gr. um skyldu dómara til að gefa varnaraðila kost á að bera fram ósk um hver verði skipað­ur verjandi hans, ákvæði 4. mgr. sömu greinar og ákvæði 1., 2. og 4. mgr. 11. gr. gilda þó ein­ungis að því leyti sem beiting þeirra kemur ekki í veg fyrir að lögræðissviptingu verði við komið þegar í stað.
    3. Ákvörðun um lögræðissviptingu til bráðabirgða skal tekin með úrskurði sem skjóta má til Hæstaréttar, sbr. 16. gr.
    4. Lögræðissvipting til bráðabirgða gildir þar til úrskurður dómara í lögræðissviptingarmáli öðlast gildi, málinu lýkur á annan hátt eða þar til úrskurður um bráðabirgðasviptingu er felldur úr gildi með nýjum úrskurði.
    5. Ákvæði laga þessara um réttaráhrif lögræðissviptingar eiga einnig við um lögræðissvipt­ingu til bráðabirgða.

Aðilar lögræðissviptingarmáls.


7. gr.


    1. Varnaraðili er sá sem krafist er að verði sviptur lögræði sínu.
    2. Sóknaraðili er sá sem ber fram kröfu um lögræðissviptingu manns. Sóknaraðili lögræðis­sviptingarmáls getur verið:
     b.     Maki varnaraðila, ættingjar hans í beinan legg og systkini.
     d.     Lögráðamaður eða ráðsmaður varnaraðila.
     f.     Sá sem næstur er erfingi varnaraðila að lögum eða samkvæmt erfðaskrá sem ekki er afturtæk.
     h.     Félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila þegar talið er réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna, læknis hans eða vina, eða vegna vitneskju um hag aðila er fengist hefur á annan hátt.
     j.     Dómsmálaráðherra þegar gæsla almannahags gerir þess þörf.
    3. Enn fremur getur maður sjálfur óskað eftir því að hann verði sviptur lögræði.

Form og efni kröfu um lögræðissviptingu.


8. gr.


    1. Krafa um lögræðissviptingu skal vera skrifleg. Þar skulu eftirfarandi atriði koma fram:
     b.     Nafn sóknaraðila, kennitala hans og lögheimili.
     d.     Nafn varnaraðila, kennitala hans og lögheimili, enn fremur dvalarstaður ef annar er en lögheimili.
     f.     Hvort krafist er sviptingar sjálfræðis, fjárræðis eða hvors tveggja.
     h.     Ef krafist er tímabundinnar lögræðissviptingar skal tilgreina til hve langs tíma sviptingar er krafist.
     j.     Ef krafist er sviptingar fjárræðis varðandi tilteknar eignir skal tilgreina nákvæmlega til hvaða eigna krafa tekur.
     l.     Nöfn og heimilisföng maka varnaraðila eða sambúðarmaka, lögráða barna hans og foreldra og upplýsingar um hvort þessum aðilum sé kunnugt um kröfuna.
     n.     Nöfn heimilislæknis varnaraðila og sérfræðinga þeirra er hann kann að hafa leitað til, ef um þá er vitað, nema vottorð þessara aðila fylgi kröfu um lögræðissviptingu.
     p.     Ástæður þær er krafa um lögræðissviptingu byggist á.
     r.     Á hvaða lagagrunni aðild sóknaraðila er byggð.
    2. Kröfu skal, ef unnt er, fylgja læknisvottorð eða önnur gögn sem hún styðst við.

Varnarþing.


9. gr.


    Krafa um sviptingu lögræðis og niðurfellingu lögræðissviptingar skal borin upp við héraðs­dómara í þinghá þar sem varnaraðili á lögheimili. Ef varnaraðili hefur fastan dvalarstað í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er skal þó bera fram kröfu í þeirri þinghá. Ef hvorki er kunnugt um lögheimili varnaraðila né fastan dvalarstað skal bera kröfu fram við héraðsdóm Reykjavíkur.

Málsmeðferð.


10. gr.


    1. Mál til sviptingar lögræðis sæta almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum.
    2. Dómari tekur kröfu um lögræðissviptingu fyrir svo fljótt sem unnt er.
    3. Dómari skipar varnaraðila verjanda samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála eftir að hafa gefið honum kost á að bera fram ósk um hver skipaður verði, nema slíkt sé augsýnilega tilgangslaust. Óskylt er þó að skipa verjanda ef varnaraðili hefur sjálfur ráðið sér lögmann til þess að gæta réttar síns. Dómari getur einnig skipað sóknaraðila talsmann, óski hann eftir því.
    4. Dómari skal eftir að rannsókn máls er lokið gefa aðilum kost á að flytja málið munnlega áður en það er tekið til úrskurðar.
    5. Þinghöld í máli til sviptingar lögræðis skulu fara fram fyrir luktum dyrum.
    6. Dómara ber að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur er.
    7. Sóknaraðili getur afturkallað kröfu sína á hvaða stigi máls sem er.

Rannsókn máls.


11. gr.


    1. Dómara ber að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis.
    2. Dómari getur sjálfur aflað sönnunargagna, svo sem læknisvottorðs ef slíkt vottorð hefur ekki fylgt kröfu um lögræðissviptingu, og annarra gagna sem hann telur þörf á. Dómari skal kalla varnaraðila fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana, nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé tilgangslaust. Dómari kveður sóknaraðila og vitni fyrir dóm, ef þess er þörf.
    3. Ef varnaraðili sinnir ekki kvaðningu dómara um að koma fyrir dóm getur dómari leitað liðsinnis lögreglu við að sækja hann. Lögreglu er skylt að verða við slíkum fyrirmælum dóm­ara.
    4. Ef ekki er unnt að kveðja varnaraðila fyrir dóm skal dómari fara á þann stað þar sem varnaraðili dvelst og kynna sér ástand hans af eigin raun. Ekki er þó þörf á þessu ef ótvírætt má telja af læknisvottorði eða öðrum gögnum að það sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins.
    5. Ef dómari telur þess þörf getur hann ákveðið að varnaraðila sé óheimilt að vera við­staddur skýrslugjöf sóknaraðila og vitnisburð vitna að nokkru eða öllu leyti. Áður en úrskurður um lögræðissviptingu er upp kveðinn skal varnaraðila þó ávallt kynnt hvað fram hefur komið við skýrslugjöfina eða vitnisburðinn sem máli skiptir, nema slíkt sé auðsjáanlega tilgangslaust eða stríði gegn þeim hagsmunum sem leiddu til ákvörðunar dómara samkvæmt þessari máls­grein.
    6. Skylt er öllum þeim, sem vegna starfa sinna geta veitt upplýsingar um varnaraðila sem dómari telur að skipt geti máli fyrir úrslit málsins, að veita honum þær og láta honum í té þau gögn um varnaraðila sem dómari krefst. Sama á við um aðra þá sem vegna tengsla sinna við varnaraðila geta veitt sambærilegar upplýsingar.

Úrlausn máls.


12. gr.


    1. Svipting lögræðis skal ekki ganga lengra en dómari telur þörf á hverju sinni.
    2. Áður en liðnir eru þrír sólarhringar frá því að mál var tekið til úrskurðar kveður dómari upp úrskurð í því.

Réttaráhrif úrskurðar um lögræðissviptingu.


13. gr.


    1. Réttaráhrif úrskurðar um sjálfræðissviptingu miðast við uppkvaðningu úrskurðar.
    2. Réttaráhrif úrskurðar um fjárræðissviptingu gagnvart hinum svipta sjálfum og þeim sem vissu eða máttu vita um sviptinguna miðast við uppkvaðningu úrskurðar.
    3. Um réttaráhrif úrskurðar um fjárræðissviptingu gagnvart grandlausum aðilum fer sam­kvæmt ákvæðum 2. og 3. mgr. 76. gr.

Birting úrskurðar, skráning o.fl.


14. gr.


    1. Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem fram hefur komið í máli til sviptingar lögræðis en úrskurðinn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
    2. Verjandi varnaraðila skal kynna honum niðurstöðu úrskurðar dómara í lögræðissvipting­armáli svo fljótt sem við verður komið. Þetta er þó ekki nauðsynlegt ef það er bersýnilega þýð­ingarlaust vegna ástands varnaraðila.
    3. Dómari skal svo fljótt sem við verður komið senda staðfest endurrit úrskurðar um svipt­ingu lögræðis með ábyrgðarbréfi, eða á annan jafntryggan hátt, til dómsmálaráðuneytisins. Jafnframt skal dómari senda staðfest endurrit úrskurðarins til yfirlögráðanda í því umdæmi þar sem hinn lögræðissvipti á lögheimili eða þar sem hann hefur fastan dvalarstað, ef dvalar­staður er annar en þar sem hann á lögheimili, með sama hætti ásamt þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að yfirlögráðandi geti sinnt skyldum sínum skv. 4. mgr. Ef hvorki er kunnugt um lögheimili né fastan dvalarstað hins lögræðissvipta skal senda staðfest endurrit úrskurðarins til yfirlögráðandans í Reykjavík. Dómari skal enn fremur sjá til þess að niður­staða úrskurðar um fjárræðissviptingu, sem ekki er bundin við tilteknar eignir, verði birt í Lögbirtingablaði. Skal sú birting fara fram svo fljótt sem við verður komið.
    4. Yfirlögráðandi skal þegar í stað, er honum hefur borist úrskurður dómara um fjárræðis­sviptingu, grípa til eftirfarandi ráðstafana:
     b.     Ef hinn fjárræðissvipti er skráður eigandi fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis skal úrskurðinum þinglýst á viðkomandi eign. Ekki skal greiða þinglýsingargjald vegna þessa.
     d.     Ef hinn fjárræðissvipti er eigandi viðskiptabréfs skal athugasemd um sviptingu fjárræðis rituð á bréfið. Það sama gildir um viðskiptabréf sem lögráðamaður kann að kaupa síðar fyrir skjólstæðing sinn.
     f.     Ef hinn fjárræðissvipti rekur atvinnu sem geta ber eða getið er á firmaskrá skal skrá þar athugasemd um úrskurðinn.
     h.     Ef hinn fjárræðissvipti á fjármuni á innlánsreikningum hjá bönkum eða sparisjóðum skal hlutaðeigandi innlánsstofnun tilkynnt um sviptingu fjárræðis með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Sama á við um inneignir í verðbréfasjóðum. Ef hinn fjárræðis­svipti á hlut í félagi skal tilkynna um sviptinguna til stjórnar félagsins með sama hætti.
    5. Ef fjárræðissvipting er einungis bundin við tilgreindar eignir nær skylda sú sem kveðið er á um í 4. mgr. einungis til þeirra eigna.
    6. Dómsmálaráðuneytið heldur skrá um lögræðissvipta menn.

Niðurfelling lögræðissviptingar.


15. gr.


    1. Nú telur sá sem átt getur aðild að lögræðissviptingarmáli skv. 7. gr. að ástæður svipting­ar séu ekki lengur fyrir hendi, og getur hann þá borið fram kröfu við héraðsdómara um að lög­ræðissvipting verði felld niður með úrskurði að nokkru eða öllu leyti.
    2. Komi krafa frá hinum lögræðissvipta sjálfum er dómara óskylt að taka hana til meðferð­ar nema sex mánuðir hið skemmsta séu liðnir frá sviptingu. Sé um tímabundna sviptingu að ræða sem ákveðin var í tólf mánuði eða skemur er dómara óskylt að taka kröfu til meðferðar nema helmingur tímans sé liðinn hið skemmsta.
    3. Krafa um niðurfellingu lögræðissviptingar skal vera skrifleg og rökstudd og studd gögn­um um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta ef unnt er.
    4. Um meðferð máls til niðurfellingar lögræðissviptingar gilda ákvæði 8. gr., eftir því sem við á, 9. gr., 1.–6. mgr. 10. gr., 11. gr., 12. gr., 1. og 2. mgr. 14. gr., 1., 3. og 4. mgr. 16. gr. og 17. gr.
    5. Ef úrskurður dómara í máli til niðurfellingar lögræðissviptingar breytir eða fellir úr gildi úrskurð um lögræðissviptingu fer um birtingu hans og skráningu eftir sömu reglum og fram koma í 3.–6. mgr. 14. gr.


Málskot.


16. gr.


    1. Úrskurðir samkvæmt lögum þessum sæta kæru til Hæstaréttar. Um málskotið fer sam­kvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum.
    2. Málskot frestar ekki réttaráhrifum úrskurða um lögræðissviptingu, nema dómari mæli svo fyrir í úrskurði.
    3. Hraða ber meðferð máls fyrir Hæstarétti svo sem kostur er.
    4. Staðfest endurrit af dómi Hæstaréttar skal senda dómsmálaráðuneyti og héraðsdómara málsins. Ef úrskurði er breytt í Hæstarétti skal héraðsdómari og aðrir þeir sem greindir eru í 3.–6. mgr. 14. gr. laga þessara gera þær ráðstafanir sem þar er mælt fyrir um.

Málskostnaður.


17. gr.


    1. Þóknun skipaðs verjanda, skipaðs talsmanns sóknaraðila og annan málskostnað, þar með talinn kostnað við öflun læknisvottorða og annarra sérfræðiskýrslna, skal greiða úr ríkissjóði.
    2. Ef málskot til Hæstaréttar hefur verið bersýnilega tilefnislaust má gera kæranda að end­urgreiða ríkissjóði kærumálskostnaðinn.

III. KAFLI


Nauðungarvistun.


Nauðungarvistun.


18. gr.


    Með nauðungarvistun í lögum þessum er bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni, sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja, er haldið þar nauðugum.

Skilyrði nauðungarvistunar o.fl.


19. gr.


    1. Sjálfráða maður verður ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi.
    2. Þó getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkra­húsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Sama gildir ef maður á við al­varlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Ákvæði 18. gr. stjórnsýslulaga gilda ekki við meðferð mála samkvæmt þessari málsgrein. Ef vakthafandi sjúkrahúslæknir ákveður nauðungarvistun manns samkvæmt þessari málsgrein skal bera ákvörðun hans undir yfirlækni svo fljótt sem verða má. Frelsisskerðing samkvæmt þessari málsgrein má ekki standa lengur en 48 klukkustundir nema til komi samþykki dómsmálaráðuneytisins skv. 3. mgr.
    3. Með samþykki dómsmálaráðuneytisins má vista sjálfráða mann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis ráðuneytisins ef fyr­ir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis.
    4. Lögreglu er skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að flytja mann nauðugan í sjúkrahús skv. 2. og 3. mgr. og skal læknir þá fylgja honum ef nauðsyn þykir bera til.
    5. Heilbrigðisráðherra ákveður með reglugerð hvaða sjúkrahús hafa heimild til að taka við mönnum sem vistaðir eru skv. 2. og 3. mgr.

Hverjir beiðst geta nauðungarvistunar.


20. gr.


    Beiðni um nauðungarvistun manns í sjúkrahúsi skv. 3. mgr. 19. gr. geta þeir aðilar lagt fram sem taldir eru í a-, b- og d-liðum 2. mgr. 7. gr.

Form, efni og fylgigögn með beiðni um nauðungarvistun.


21. gr.


    1. Beiðni um nauðungarvistun skv. 3. mgr. 19. gr. skal vera skrifleg og beint til dómsmála­ráðuneytisins. Beiðni skal að jafnaði rituð á eyðublað sem dómsmálaráðuneytið lætur í té.
    2. Í beiðni skulu eftirfarandi atriði koma fram:
     b.     Nafn beiðanda, kennitala og lögheimili.
     d.     Nafn þess sem beiðst er að vistaður verði, kennitala og lögheimili, svo og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
     f.     Tengsl beiðanda og þess sem beiðst er að vistaður verði.
     h.     Ástæður fyrir beiðni.
     j.     Upplýsingar um í hvaða sjúkrahúsi og eftir atvikum á hvaða deild vista á hlutaðeigandi.
    3. Með beiðni skal fylgja læknisvottorð sem eigi má vera eldra en þriggja daga þegar það berst ráðuneytinu, nema alveg sérstaklega standi á. Í vottorðinu, sem að jafnaði skal ritað á eyðublað sem ráðuneytið lætur í té, skulu eftirfarandi atriði koma fram:
     b.     Nafn þess sem beiðst er að vistaður verði, kennitala og lögheimili. Auk þess dvalarstaður hans ef annar er en lögheimili.
     d.     Hvar og hvenær skoðun fer fram.
     f.     Lýsing læknis á andlegu og líkamlegu ástandi hlutaðeigandi.
     h.     Sjúkdómsgreining læknis, ef unnt er.
     j.     Afstaða þess, sem beiðst er að vistaður verði, til beiðni um nauðungarvistun hans, eftir því sem við verður komið.
     l.     Yfirlýsing læknis um að nauðungarvistun sé að hans mati óhjákvæmileg.
     n.     Dagsetning vottorðs, undirskrift læknis og nafnstimpill.
    4. Kostnaður af læknisvottorði greiðist úr ríkissjóði.

Málsmeðferð í dómsmálaráðuneytinu.


22. gr.


    1. Dómsmálaráðuneytið skal þegar er því berst beiðni um nauðungarvistun taka málið til afgreiðslu. Skal ráðuneytið afla þeirra gagna er það telur nauðsyn bera til ef eigi er talið unnt að afgreiða mál á grundvelli beiðni og meðfylgjandi læknisvottorðs.
    2. Ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga gilda ekki við meðferð mála um nauðungar­vistun.
    3. Þegar nauðsynleg gögn og upplýsingar liggja fyrir skal dómsmálaráðuneytið án tafar ákveða hvort nauðungarvistun skuli heimiluð eða ekki.


Trúnaðarlæknir dómsmálaráðuneytisins.


23. gr.


    1. Á vegum dómsmálaráðuneytisins skal starfa trúnaðarlæknir sem ráðuneytið getur leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til nauðungarvistunar.
    2. Trúnaðarlæknir ráðuneytisins hefur jafnan heimild til að kanna ástand manns sem dvelst í sjúkrahúsi gegn vilja sínum og kynna sér sjúkraskrá hans.

Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins.


24. gr.


    Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um hvort nauðungarvistun skuli heimiluð eða ekki skal vera skrifleg og rökstudd og skal hún tilkynnt þeim er beiðni bar fram. Ef beiðni er samþykkt skal ákvörðun jafnframt send yfirlækni á hlutaðeigandi sjúkrahúsi þegar í stað með tryggileg­um hætti, ásamt ljósriti af læknisvottorði því er fylgdi beiðni.

Kynning á réttarstöðu nauðungarvistaðs manns.


25. gr.


    1. Vakthafandi sjúkrahúslæknir skal tilkynna nauðungarvistuðum manni án tafar eftirtalin atriði, nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans:
     b.     Um ástæður nauðungarvistunar.
     d.     Um rétt til að njóta aðstoðar og stuðnings ráðgjafa skv. 27. gr.
     f.     Um ákvörðun dómsmálaráðuneytisins skv. 3. mgr. 19. gr., ef því er að skipta.
     h.     Um rétt til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla skv. 30. gr.
    2. Yfirlæknir hefur eftirlit með og ber ábyrgð á að ákvæðum 1. mgr. sé framfylgt.
    3. Heilbrigðisráðherra getur sett nánari reglur um kynningu á réttarstöðu nauðungarvistaðs manns samkvæmt þessari grein.

Skráning í sjúkraskrá.


26. gr.


    1. Vakthafandi sjúkrahúslæknir skal, eftir því sem við á, skrá eftirfarandi atriði í sjúkraskrá nauðungarvistaðs manns svo fljótt sem verða má:
     b.     Hvenær nauðungarvistun hefst skv. 2. mgr. 19. gr.
     d.     Samþykki dómsmálaráðuneytis skv. 3. mgr. 19. gr.
     f.     Ákvarðanir um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð skv. 28. gr. og rökstuðning fyrir nauðsyn hennar.
     h.     Hvenær vakthafandi sjúkrahúslæknir tilkynnti yfirlækni um ákvarðanir sínar skv. 2. mgr. 19. gr. og 3. mgr. 28. gr.
     j.     Hvenær nauðungarvistuðum manni var kynntur réttur hans til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla skv. 30. gr., réttur til að ráðfæra sig við ráðgjafa skv. 27. gr. og ákvörðun ráðuneytis skv. 3. mgr. 19. gr. Ef slík kynning fer ekki fram þegar í stað skulu ástæður þess skráðar í sjúkraskrá.
     l.     Hvenær staðfesting hafi borist frá dómstóli um að fram sé komin krafa um að hlutaðeigandi skuli sviptur sjálfræði sínu, sbr. 2. mgr. 29. gr.
    2. Yfirlæknir hefur eftirlit með og ber ábyrgð á að ákvæði 1. mgr. sé framfylgt.
    3. Heilbrigðisráðherra getur sett nánari reglur um skráningar samkvæmt þessari grein.

Ráðgjafi nauðungarvistaðs manns.


27. gr.


    1. Nauðungarvistaður maður á rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðar þar.
    2. Vakthafandi læknir skal, ef nauðungarvistaður maður óskar þess, hafa samband við ráð­gjafann svo fljótt sem verða má og tilkynna honum um nauðungarvistunina. Nauðungarvistað­ur maður á rétt á að ræða við ráðgjafann einslega um hvaðeina sem nauðungarvistunina varðar og hafa samband við hann reglulega, nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að það hafi enga þýðingu. Ráðgjafinn hefur heimild til að kynna sér sjúkraskrá hins nauðungarvi­staða.
    3. Ráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    4. Þóknun ráðgjafa, sem sérstaklega skal ráðinn til þess að veita nauðungarvistuðum mönn­um aðstoð, skal greiðast úr ríkissjóði.
    5. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um ráðningu ráðgjafa samkvæmt þessari grein, réttindi hans og skyldur og þóknun honum til handa.

Meðferð nauðungarvistaðs manns í sjúkrahúsi.


28. gr.


    1. Maður, sem nauðungarvistaður er í sjúkrahúsi án þess að samþykki dómsmálaráðuneytis liggi fyrir, skal hvorki sæta þvingaðri lyfjagjöf né annarri þvingaðri meðferð nema skilyrðum 3. mgr. þessarar greinar sé fullnægt. Í slíkum tilvikum gildir ákvæði 3. mgr. einnig að öðru leyti.
    2. Maður, sem nauðungarvistaður er til meðferðar í sjúkrahúsi með samþykki dómsmála­ráðuneytis, skal einungis sæta þvingaðri lyfjagjöf samkvæmt ákvörðun yfirlæknis. Sama á við um aðra þvingaða meðferð.
    3. Vakthafandi læknir getur þó tekið ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð ef hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu er annars stefnt í voða. Ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf eða aðra þvingaða meðferð í þessum tilvikum skal tilkynnt yfirlækni svo fljótt sem verða má og skal hann taka ákvörðun um frekari meðferð.
    4. Heilbrigðisráðherra getur sett nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð samkvæmt þessari grein.

Lok nauðungarvistunar.


29. gr.


    1. Nauðungarvistun manns í sjúkrahúsi má aldrei haldast lengur en yfirlæknir telur hennar þörf og eigi lengur en 48 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr., nema samþykki dómsmálaráðuneytis komi til. Nauðungarvistun, sem samþykkt hefur verið af dómsmálaráðuneytinu, má aldrei haldast lengur en yfirlæknir telur hennar þörf og eigi lengur en 21 sólarhring frá dagsetningu ákvörð­unar ráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga þessara.
    2. Þó má framlengja nauðungarvistun manns ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði sínu. Þegar krafa hefur verið gerð um að maður, sem vistaður er nauðugur í sjúkrahúsi, verði sviptur sjálfræði skal dómari án tafar senda yfirlækni á sjúkrahúsi þar sem hinn vistaði dvelst staðfestingu á að slík krafa sé fram komin og hvenær hún hafi borist dóminum. Skal þetta gert með símskeyti eða öðrum tryggilegum hætti.

Réttur sjálfráða manns til að bera ákvörðun um nauðungarvistun


og þvingaða meðferð í sjúkrahúsi undir dómstóla.


30. gr.


    1. Heimilt er þeim sem vistaður hefur verið nauðugur í sjúkrahúsi skv. 2. eða 3. mgr. 19. gr. að bera ákvörðun um nauðungarvistunina undir dómstóla.
    2. Heimilt er þeim sem gert hefur verið að sæta þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð skv. 28. gr. að bera þá ákvörðun undir dómstóla.
    3. Krafa skv. 1. eða 2. mgr. skal vera skrifleg og beint til viðkomandi dómstóls. Í kröfunni skal koma fram hvort óskað er skipunar ákveðins talsmanns og ef svo er hver það eigi að vera. Ráðgjafi skal aðstoða við kröfugerð samkvæmt þessari grein ef þess er óskað og sjá um að dómstóli berist krafan þegar í stað.

Málsmeðferð fyrir dómi.


31. gr.


    1. Dómari skal taka kröfu skv. 30. gr. fyrir án tafar. Dómari skipar þeim er kröfu ber fram talsmann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um verjendur og skal gefa honum kost á að bera fram ósk um hver skipaður verði hafi sú ósk ekki þegar komið fram.
    2. Ef krafist er niðurfellingar nauðungarvistunar skv. 2. mgr. 19. gr. eða ákvörðunar um þvingaða lyfjagjöf eða meðferð skv. 28. gr. skal dómari tilkynna yfirlækni viðkomandi deildar um kröfuna. Skal yfirlæknirinn þegar í stað láta dómara í té athugasemdir sínar þar sem gerð er grein fyrir ástæðum vistunar, þvingaðrar lyfjagjafar eða meðferðar, eftir því sem við á.
    3. Ef krafist er niðurfellingar nauðungarvistunar, sem samþykkt hefur verið af dómsmála­ráðuneyti, skal dómarinn kynna ráðuneytinu kröfuna, sem skal láta dómaranum í té gögn þau sem vistunin er reist á, ásamt athugasemdum sínum ef því er að skipta.
    4. Að öðru leyti fer um mál þessi skv. II. kafla laganna, eftir því sem við á.
    5. Svo fljótt sem við verður komið kveður dómari upp úrskurð um hvort ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð skuli standa eða hún felld úr gildi.
    6. Þegar óskað er eftir samþykki dómsmálaráðuneytis til nauðungarvistunar manns, sem dvelur nauðugur í sjúkrahúsi samkvæmt ákvörðun læknis, og sú ákvörðun hefur verið borin undir dómstól, skal ráðuneytið án tafar tilkynna viðkomandi dómstóli um kröfuna og um lyktir málsins er það hefur hlotið afgreiðslu í ráðuneytinu. Meðferð máls fyrir dómi frestar ekki málsmeðferð í dómsmálaráðuneytinu.

Réttur nauðungarvistaðs manns til bóta.


32. gr.


    1. Dæma skal bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar sjálfráða manns ef lögmæt skil­yrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða að henni staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
    2. Bæta skal fjártjón og miska ef því er að skipta.
    3. Að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttar.


IV. KAFLI


Ráðsmenn.


Skilyrði skipunar ráðsmanns.


33. gr.


    Fjárráða maður, sem á óhægt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, getur óskað eftir því að honum verði skipaður ráðsmaður, enda geri hann sér grein fyrir þýðingu þeirrar ráðstöfunar.

Form og efni umsóknar um skipun ráðsmanns.


34. gr.


    1. Umsókn um skipun ráðsmanns skal að jafnaði rituð á eyðublað sem yfirlögráðandi lætur í té.
    2. Í umsókn skulu eftirfarandi atriði koma fram:
     b.     Nafn umsækjanda, kennitala, lögheimili, svo og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
     d.     Ef umsækjandi er í hjúskap eða sambúð skal nafns maka eða sambúðarmaka getið, svo og afstöðu hans til umsóknarinnar.
     f.     Ástæður þess að skipunar ráðsmanns er óskað.
     h.     Nákvæm upptalning þeirra eigna sem ráðsmanni er ætlað að sjá um.
     j.     Ef óskað er eftir því að tiltekinn maður verði skipaður ráðsmaður skal þess getið.
    3. Umsókn skal fylgja læknisvottorð þar sem grein er gerð fyrir heilsufari umsækjandans, svo og mati læknis á því hvort hann geri sér grein fyrir þýðingu ráðstöfunar skv. 33. gr.

Eignir sem afhentar verða ráðsmanni til umsjónar.


35. gr.


    Heimilt er að fela ráðsmanni umsjón eftirtalinna eigna samkvæmt ákvæðum þessa kafla:
     b.     Fasteigna, loftfara, skráningarskyldra skipa og skráningarskyldra ökutækja.
     d.     Viðskiptabréfa.
     f.     Fjármuna á innlánsreikningum hjá bönkum eða sparisjóðum, svo og inneigna í verðbréfasjóðum.

Stjórnsýsluumdæmi.


36. gr.


    Umsókn skal bera upp við yfirlögráðanda í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili eða þar sem hann dvelur.

Málsmeðferð.


37. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal taka umsókn til afgreiðslu án ástæðulausra tafa.
    2. Yfirlögráðandi skal veita umsækjanda nauðsynlega aðstoð og leiðbeina honum, þar á meðal um lagalega þýðingu skipunar ráðsmanns og um útfyllingu umsóknar.
    3. Yfirlögráðandi skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun verður tekin í því. Hann getur lagt fyrir aðila að afla nánar tilgreindra gagna eða aflað þeirra sjálfur. Hann skal m.a. kynna sér af eigin raun hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði 33. gr.
    4. Hafi umsækjandi ekki óskað eftir því að tiltekinn maður verði skipaður ráðsmaður skal ráðsmaður valinn í samráði við umsækjanda.
    5. Ef umsækjandi er í hjúskap skal maka hans veitt færi á að tjá sig um málið, þar á meðal um val á ráðsmanni. Það sama gildir um sambúðarmaka.
    6. Umsækjandi getur afturkallað umsókn sína á hvaða stigi málsmeðferðar sem er. Eftir að ráðsmaður hefur verið skipaður fer um lausn hans frá störfum skv. 47. og 48. gr.

Hæfi ráðsmanna.


38. gr.


    1. Um almennt og sérstakt hæfi ráðsmanna fer eftir 53. og 54. gr.
    2. Enginn verður skipaður ráðsmaður nema hann hafi veitt til þess samþykki sitt.

Ákvörðun um skipun ráðsmanns o.fl.


39. gr.


    1. Að uppfylltum skilyrðum 33. gr. skipar yfirlögráðandi umsækjanda ráðsmann. Heimilt er að skipa hjónum sama ráðsmann. Það sama gildir um sambúðarmaka.
    2. Ráðsmanni skal ekki falin umsjón annarra eigna en nauðsynlegt er miðað við þarfir um­sækjandans.
    3. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að skipa sama umsækjanda fleiri en einn ráðs­mann, enda fari þeir ekki með umsjón sömu eigna.
    4. Ákvörðun um skipun ráðsmanns skal vera skrifleg og skulu eftirtalin atriði m.a. koma fram:
     b.     Nafn þess sem fær sér skipaðan ráðsmann, kennitala hans og lögheimili, svo og dvalarstaður ef annar er en lögheimili.
     d.     Nafn, kennitala og lögheimili þess sem skipaður er ráðsmaður.
     f.     Ástæður skipunar ráðsmannsins.
     h.     Nákvæm tilgreining á þeim eignum sem faldar eru ráðsmanni til umsjónar.
     j.     Þóknun ráðsmanns og greiðslufyrirkomulag hennar.
    5. Yfirlögráðandi skal gefa út skipunarbréf til ráðsmanns þar sem getið skal m.a. þeirra at­riða sem fram koma í a-, b- og d-liðum 4. mgr.
    6. Skipun ráðsmanns er ótímabundin.

Tilkynning um skipun ráðsmanns og skráning ráðsmanna.


40. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal senda ráðsmanni skipunarbréf hans þegar í stað með ábyrgðarbréfi eða öðrum jafntryggum hætti. Enn fremur skal hann á sama hátt senda skjólstæðingi ráðs­manns og dómsmálaráðuneyti staðfest endurrit skipunarbréfsins.
    2. Eftir að ráðsmaður hefur verið skipaður skal yfirlögráðandi þegar í stað grípa til eftirfar­andi ráðstafana:
     b.     Hafi ráðsmanni verið falin umsjón fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis skal skipun hans þinglýst á viðkomandi eign. Ekki skal greiða þing­lýsingargjald vegna þessa.
     d.     Hafi ráðsmanni verið falin umsjón viðskiptabréfs skal skipunarinnar getið með sérstakri áritun á bréfið. Það sama gildir um viðskiptabréf sem ráðsmaður kann að kaupa síðar fyrir skjólstæðing sinn.

     f.     Hafi ráðsmanni verið falin umsjón fjármuna á innlánsreikningum hjá bönkum eða sparisjóðum skal hlutaðeigandi innlánsstofnun tilkynnt um það með ábyrgðarbréfi eða með öðrum jafntryggum hætti. Sama á við um inneignir í verðbréfasjóðum.
    3. Dómsmálaráðuneytið heldur skrá yfir ráðsmenn og skjólstæðinga þeirra.

Réttaráhrif skipunar ráðsmanns.


41. gr.


    1. Þegar tilkynning er komin til manns um að honum hafi verið skipaður ráðsmaður glatar hann rétti til að fara með, ráðstafa og takast á herðar skuldbindingar vegna þeirra eigna sem ráðsmanni hafa verið faldar til umsjónar. Þetta tekur þó ekki til heimildar hans til ráðstöfunar eigna með erfðaskrá.
    2. Réttaráhrif skipunar ráðsmanns gagnvart grandlausum aðilum eru háð því að ráðstafanir þær hafi farið fram sem greindar eru í 2. mgr. 40. gr.
    3. Löggerningar skjólstæðings ráðsmanns um eign, sem fara í bága við 1. mgr., binda hann ekki, nema löggerningur hafi annaðhvort verið staðfestur af ráðsmanni, og eftir atvikum yfir­lögráðanda, eða honum verið fullnægt svo skuldbindandi sé fyrir skjólstæðinginn.
    4. Um löggerninga skjólstæðings ráðsmanns og meðferð ráðsmanns á fjármunum hans gilda, auk ákvæða þessa kafla, reglur 1. og 3. mgr. 67. gr., 1. mgr. 68. gr., 1., 2. og 4. mgr. 77. gr. og 78. gr.

Heimildir ráðsmanns.


42. gr.


    1. Ráðsmaður fer með sömu heimildir fyrir þeim eignum sem honum hefur verið falin um­sjón með og skjólstæðingur hans hafði fyrir skipun hans, nema annað leiði af lögum. Lögmæt ráðstöfun ráðsmanns á þessum eignum bindur skjólstæðing hans.
    2. Ráðsmaður getur ekki bundið skjólstæðing sinn við ábyrgð eða tryggingu fyrir þriðja mann, nema með skriflegu samþykki yfirlögráðanda.
    3. Ráðsmaður getur hvorki selt né veðsett fasteign, loftfar, skráningarskylt skip eða skrán­ingarskylt ökutæki í eigu skjólstæðings síns, nema með skriflegu samþykki yfirlögráðanda. Það sama gildir um útleigu slíkra eigna til lengri tíma en þriggja ára, nema kveðið sé á um rétt til uppsagnar með hæfilegum fyrirvara.

Starfsskyldur ráðsmanns og skaðabótaskylda.


43. gr.


    1. Um starfsskyldur ráðsmanns og skaðabótaskyldu gilda ákvæði 1.–3. mgr. 60. gr. og 61. gr.
    2. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um störf og starfsskyldur ráðsmanna og eftir­lit yfirlögráðenda með þeim.

Þóknun ráðsmanns.


44. gr.


    1. Við skipun ráðsmanns ákveður yfirlögráðandi þóknun hans með tilliti til eðlis og um­fangs starfans.
    2. Þóknun ráðsmanns skal greidd af skjólstæðingi hans.
    3. Ráðsmaður og skjólstæðingur hans geta hvor um sig krafist endurskoðunar á fjárhæð þóknunar ráðsmannsins.

Skýrslugjöf ráðsmanns.


45. gr.


    1. Ráðsmaður skal fyrir 1. mars ár hvert gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrra ári um fjárhald og eignaumsýslu skjólstæðings síns.
    2. Ef fjárhald, sem falið hefur verið ráðsmanni, er umfangsmikið eða sérstakar ástæður gefa tilefni til getur yfirlögráðandi mælt svo fyrir að fjárhaldið skuli endurskoðað af löggiltum endurskoðanda. Kostnaður af endurskoðuninni greiðist af skjólstæðingi ráðsmanns.
    3. Ráðsmaður skal gera yfirlögráðanda grein fyrir ráðstöfunum sínum hvenær sem hann krefst þess.
    4. Þegar ráðsmaður fær lausn frá störfum skal hann gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðu­blaði sem hann leggur til, um fjárhald og eignaumsýslu skjólstæðings síns.

Breyting á störfum ráðsmanns.


46. gr.


    1. Skjólstæðingur ráðsmanns getur óskað þess við yfirlögráðanda að breyting verði gerð á því hvaða eignir eru faldar ráðsmanni til umsjónar.
    2. Meðferð slíkra mála fer eftir sömu reglum og gilda um skipun ráðsmanns eftir því sem við getur átt.

Lausn ráðsmanns frá störfum.


47. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal leysa ráðsmann frá störfum óski hann þess. Ráðsmaður skal þó jafn­an gegna áfram starfa sínum þar til skipaður hefur verið nýr ráðsmaður, sé þess þörf.
    2. Yfirlögráðandi skal að eigin frumkvæði veita ráðsmanni lausn frá störfum ef skilyrði 33. gr. eru ekki lengur fyrir hendi, sbr. þó 48. gr. Það sama á við hafi ráðsmaður vanrækt starfa sinn eða gerst brotlegur í starfi eða uppfylli ekki lengur skilyrði 1. mgr. 54. gr.
    3. Skjólstæðingur ráðsmanns getur hvenær sem er óskað þess að ráðsmanni verði veitt lausn frá störfum og honum fengin umsjón eigna sinna á ný. Yfirlögráðandi skal verða við þeirri ósk nema ákvæði 48. gr. eigi við.
    4. Við gjaldþrot ráðsmanns eða gjaldþrot eða andlát skjólstæðings hans fellur sjálfkrafa niður skipun ráðsmanns. Verði skjólstæðingur ráðsmanns sviptur fjárræði fellur skipun ráðs­manns niður við skipun lögráðamanns.

Frestun á meðferð máls o.fl.


48. gr.


    1. Þegar maður, sem fengið hefur sér skipaðan ráðsmann, óskar eftir breytingu eða niður­fellingu á þeirri skipan, og yfirlögráðandi hefur ástæðu til að ætla að högum hans sé svo farið sem segir í 4. gr. laganna, getur yfirlögráðandi frestað að taka málið til meðferðar í sjö daga. Að þeim tíma liðnum skal yfirlögráðandi taka málið til meðferðar, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hlutaðeigandi verði sviptur fjárræði. Skal málinu þá frestað þar til úr­skurður liggur fyrir.
    2. Breytist heilsufar skjólstæðings ráðsmanns svo að hann uppfyllir ekki lengur skilyrði 33. gr. skal ráðsmaður vekja athygli yfirlögráðanda á því. Skal þá yfirlögráðandi taka ákvörð­un um hvort ráðsmanni skuli þá þegar veitt lausn frá störfum eða hvort beðið skuli úrskurðar í fjárræðissviptingarmáli.

Tilkynning um lausn ráðsmanns frá störfum o.fl.


49. gr.


    1. Hafi verið tekin ákvörðun um breytingu á störfum ráðsmanns eða honum veitt lausn frá störfum skal ráðsmanni og skjólstæðingi hans tilkynnt um það með ábyrgðarbréfi eða með öðr­um sannanlegum hætti. Hafi ráðsmanni verið veitt lausn frá störfum skal dómsmálaráðuneyti tilkynnt um það með sama hætti.
    2. Hafi orðið breyting á stöðu eða störfum ráðsmanns skv. 46.–48. gr. laganna skal yfirlög­ráðandi sjá til þess svo fljótt sem við verður komið að það sé tilkynnt og skráð með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 40. gr.
    3. Réttaráhrif breytinga á stöðu eða störfum ráðsmanns gagnvart grandlausum aðilum eru háð því að ráðstafanir þær hafi farið fram sem greindar eru í 2. mgr.

Gjöld.


50. gr.


    1. Fyrir skipun ráðsmanns og breytingar á störfum hans skal greiða 5.000 kr. er renni í rík­issjóð. Sama gjald skal greiða þegar ráðsmanni er veitt lausn frá störfum að ósk skjólstæðings hans.
    2. Gjöld skv. 1. mgr. skulu greidd af skjólstæðingi ráðsmanns.

V. KAFLI


Lögráðamenn.


Lögráðamenn þeirra sem ólögráða eru fyrir æsku sakir.


51. gr.


    1. Foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem barni koma í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæð­um barnalaga og lögum um vernd barna og ungmenna.
    2. Foreldrar barns, sem fara með forsjá þess, eða aðrir þeir sem falin hefur verið forsjá barns samkvæmt barnalögum fara með fjárhald þess.
    3. Ef fjárhaldsmenn barns eru tveir fara þeir sameiginlega með fjárhald þess. Annar fjár­haldsmanna getur veitt hinum umboð til þess að fara einn með fjárhaldið. Umboð má veita til tiltekins tíma eða takmarka við sérstakt erindi. Umboð má afturkalla hvenær sem er.
    4. Nú eru fjárhaldsmenn barns tveir og getur annar þeirra þó tekið við fjármunum þeim sem fjárhaldsmaður hefur lögum samkvæmt heimild til að veita viðtöku þannig að fullt gildi hafi gagnvart þriðja manni, nema hinn fjárhaldsmaðurinn hafi tilkynnt þriðja manni að slíkt sé óheimilt. Ef annar fjárhaldsmanna barns er tímabundið hindraður í að gegna fjárhaldinu eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um fjárhaldið gildar. Ágreining fjárhaldsmanna barns um fjár­haldið má bera undir yfirlögráðanda.
    5. Yfirlögráðandi skal skipa þeim sem ófjárráða er fyrir æsku sakir fjárhaldsmann ef fjár­haldsmanns skv. 2. mgr. nýtur eigi við eða hann æskir lausnar frá starfi af ástæðum sem yfir­lögráðandi metur gildar, svo og ef fjármálum barns þykir ekki nægilega borgið í höndum hans.
    6. Yfirlögráðandi getur skipað þeim sem ófjárráða er fyrir æsku sakir sérstakan fjárhalds­mann til þess að reka tiltekið erindi fyrir hann, ef þess gerist þörf. Skal það jafnan gert er fast­ur fjárhaldsmaður hefur eigin hagsmuna að gæta við þann erindrekstur.
    7. Yfirlögráðandi skal gefa barni, sem náð hefur tólf ára aldri, kost á að tjá sig um mál áður en fjárhaldsmaður skv. 5. mgr. eða sérstakur fjárhaldsmaður skv. 6. mgr. er skipaður nema slíkt sé talið barni til tjóns eða þýðingarlaust fyrir niðurstöðu máls. Enn fremur er rétt að gefa yngra barni kost á að tjá sig um mál ef það þykir hafa aldur og þroska til þess.
    8. Nú hefur foreldri ákveðið hver vera skuli að því látnu fjárhaldsmaður barns er það hefur forsjá fyrir og skal þá skipa hann fjárhaldsmann, nema annað þyki hentara vegna hagsmuna barnsins eða mælt sé fyrir um fjárhaldið í lögum.

Lögráðamenn lögræðissviptra manna o.fl.


52. gr.


    1. Nú er maður með dómsúrskurði sviptur sjálfræði eða fjárræði, eða hvoru tveggja, og hverfa þá lögráðin til yfirlögráðanda í því umdæmi sem hinn lögræðissvipti á lögheimili í. Ef hinn lögræðissvipti hefur fastan dvalarstað í öðru umdæmi hverfa lögráðin þó til yfirlögráð­anda í því umdæmi. Ef hvorki er kunnugt um lögheimili né fastan dvalarstað hins lögræðis­svipta hverfa lögráðin til yfirlögráðandans í Reykjavík.
    2. Yfirlögráðandi skal skipa hinum lögræðissvipta lögráðamann svo fljótt sem verða má eftir að honum berst staðfest endurrit úrskurðar um lögræðissviptinguna.
    3. Ákvæði laga þessara um lögráðmenn eiga einnig við um lögráðmenn þeirra sem sætt hafa takmarkaðri lögræðissviptingu skv. 5. gr., nema annað sé tekið fram.

Sérstakir lögráðamenn.


53. gr.


    Skipa má ólögráða manni sérstakan lögráðamann til þess að reka tiltekið erindi fyrir hann er þess gerist þörf. Skal það jafnan gert er fastur lögráðamaður hefur eigin hagsmuna að gæta við þann erindrekstur.

Hæfi lögráðamanna.


54. gr.


    1. Skipaður lögráðamaður skal vera lögráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildar­samur og að öðru leyti vel til starfans fallinn.
    2. Enginn verður skipaður lögráðamaður nema hann hafi veitt til þess samþykki sitt.

Málsmeðferð.


55. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal gefa hinum lögræðissvipta kost á að bera fram ósk um hver skipaður verði lögráðamaður hans nema slíkt sé augsýnilega tilgangslaust.
    2. Óski hinn lögræðissvipti eftir því að tiltekinn maður verði skipaður lögráðamaður hans skal skipa hann lögráðamann, nema hagsmunir hins lögræðissvipta krefjist annars.
    3. Ef hinn lögræðissvipti er í hjúskap skal maka hans veitt færi á að tjá sig um val á lög­ráðamanni. Sama á við um sambúðarmaka.

Ákvörðun um skipun lögráðamanns.


56. gr.


    1. Ákvörðun um skipun lögráðamanns skal vera skrifleg og skulu eftirtalin atriði koma þar fram.
     b.     Nafn hins ólögráða, kennitala hans og lögheimili, svo og dvalarstaður ef annar er en lögheimili.
     d.     Nafn, kennitala og lögheimili þess sem skipaður er lögráðamaður.
     f.     Hvar og hvenær viðkomandi var sviptur lögræði, sjálfræði eða fjárræði og hvort um sé að ræða tímabundna sviptingu. Ef svipting er tímabundin skal koma fram hvenær hún fellur úr gildi. Ef um fjárræðissviptingu er að ræða, sem einungis nær til tiltekinna eigna, skulu þær nákvæmlega tilgreindar.
     h.     Þóknun lögráðamanns og fyrirkomulag á greiðslu hennar.
    2. Yfirlögráðandi skal, að tekinni ákvörðun skv. 1. mgr., gefa út skipunarbréf til lögráða­manns þar sem getið skal þeirra atriða sem fram koma í a-, b- og c-liðum 1. mgr.
    3. Skipun lögráðamanna er ótímabundin, nema um tímabundna sviptingu sé að ræða.

Tilkynning um skipun lögráðamanns og skráning lögráðamanna.


57. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal senda lögráðamanni skipunarbréf hans þegar í stað með ábyrgðar­bréfi eða öðrum jafntryggum hætti. Enn fremur skal hann á sama hátt senda skjólstæðingi lög­ráðamanns og dómsmálaráðuneyti staðfest endurrit skipunarbréfsins.
    2. Dómsmálaráðuneytið heldur skrá yfir skipaða lögráðamenn.

Heimildir lögráðamanns o.fl.


58. gr.


    1. Lögráðamaður sjálfræðissvipts manns hefur heimild til að taka nauðsynlegar ákvarðanir um þá persónuhagi hins sjálfræðissvipta sem hann er ófær um að taka sjálfur. Lögmæt ákvörð­un lögráðamanns bindur sjálfræðissviptan mann svo sem sjálfráða hefði hann gert.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögráðamaður sjálfræðissvipts manns ekki ákveðið að hann skuli vistaður á stofnun gegn vilja sínum nema lífi eða heilsu hins svipta sé hætta búin að mati læknis. Lögráðamaður getur þá ákveðið að hinn sjálfræðissvipti verði vistaður á stofn­un sem rekin er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða lögum um málefni fatlaðra. Lögráðamaður skal tilkynna yfirlögráðanda um ákvörðun sína. Um flutning manns á stofnun samkvæmt þessari málsgrein og meðferð hans þar gilda ákvæði 4. mgr. 19. gr., 25., 26., 27. og 28. gr., eftir því sem við á.
    3. Lögráðamaður ófjárráða manns ræður yfir fé hans, nema lög mæli um á annan veg. Hafi maður einungis verið sviptur fjárræði varðandi tilteknar eignir ræður lögráðamaður aðeins fyr­ir þeim eignum hans. Lögmæt ráðstöfun lögráðamanns bindur ófjárráða mann svo sem fjárráða hefði hann gert.

Réttur sjálfræðissvipts manns til að bera


ákvörðun um vistun á stofnun undir dómstóla.


59. gr.


    1. Heimilt er sjálfræðissviptum manni að bera ákvörðun lögráðamanns síns um vistun hans á stofnun, sbr. 2. mgr. 58. gr., undir dómstóla.
    2. Dómari skal kalla lögráðamann fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana.
    3. Um meðferð mála skv. 1. mgr. fyrir dómi gilda að öðru leyti ákvæði 31. gr. laganna, eft­ir því sem við á.

Starfsskyldur lögráðamanns.


60. gr.


    1. Lögráðamaður skal hafa samráð við hinn ólögráða um framkvæmd starfa síns, eftir því sem við verður komið, nema um minni háttar ákvarðanir sé að ræða.
    2. Lögráðamaður skal haga störfum sínum í þágu hins ólögráða eins og best hentar hag hans hverju sinni.
    3. Lögráðamanni er skylt að fara að fyrirmælum yfirlögráðanda og dómsmálaráðuneytis.
    4. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um störf og starfsskyldur lögráðamanna og eftirlit yfirlögráðenda með þeim.

Skaðabótaskylda lögráðamanns.


61. gr.


    Lögráðamaður skal bæta ólögráða manni tjón af lögráðamannsstörfum sínum ef hann veld­ur því af ásetningi eða gáleysi.

Þóknun og útlagður kostnaður skipaðs lögráðamanns.


62. gr.


    1. Skipaður lögráðamaður skal ávallt eiga rétt á endurgreiðslu á nauðsynlegum útlögðum kostnaði vegna starfans. Yfirlögráðandi getur ákveðið að lögráðamaður skuli fá sanngjarna þóknun fyrir störf sín. Útlagðan kostnað og þóknun skal að jafnaði greiða af eignum hins ólög­ráða. Yfirlögráðandi getur þó ákveðið að fé þetta skuli greitt úr ríkissjóði ef eignir hins ólög­ráða eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því.
    2. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um þóknun lögráðamanna.

Skýrslugjöf lögráðamanns.


63. gr.


    1. Lögráðamaður manns, sem ófjárráða er fyrir æsku sakir, skal fyrir 1. mars ár hvert gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrra ári um fjárhald hins ófjárráða ef verðmæti eigna hans er 500.000 kr. eða þar yfir. Ef þeim sem ófjárráða er fyrir æsku sakir hefur verið skipaður fjárhaldsmaður fer þó um skýrslugjöf skv. 3. mgr.
    2. Lögráðamaður fjárræðissvipts manns skal, þegar eftir að hann hefur verið skipaður, taka saman skýrslu um eignir og skuldir hins svipta og senda hana yfirlögráðanda. Þetta á þó ekki við ef maður hefur einungis verið sviptur fjárræði sínu varðandi tilteknar eignir.
    3. Lögráðamaður fjárræðissvipts manns skal fyrir 1. mars ár hvert gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrra ári um fjárhald og eignaumsýslu hins fjárræðissvipta.
    4. Nú áskotnast ófjárráða manni verðmæti í gjöf, vinning í happdrætti eða á annan hátt, sem nemur 500.000 kr. eða meira, og skal þá lögráðamaður þegar tilkynna yfirlögráðanda um það. Þetta á þó ekki við um fjárræðissviptan mann ef hann hefur aðeins verið sviptur fjárræði sínu varðandi tilteknar eignir.
    5. Ef fjárhald lögráðamanns er umfangsmikið eða sérstakar ástæður gefa tilefni til getur yfirlögráðandi mælt svo fyrir við lögráðamann að fjárhaldið skuli endurskoðað af löggiltum endurskoðanda. Ef sérstaklega stendur á getur yfirlögráðandi ákveðið að kostnaður af slíkri endurskoðun skuli greiddur úr ríkissjóði.
    6. Lögráðamaður skal gera yfirlögráðanda grein fyrir ráðstöfunum sínum varðandi fjárhald­ið hvenær sem hann krefst þess.
    7. Þegar skipaður lögráðamaður fær lausn frá störfum skal hann gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um fjárhald og eignaumsýslu skjólstæðings síns.
    8. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um skýrslugjöf samkvæmt þessari grein.

Lausn skipaðs lögráðamanns frá störfum.


64. gr.


    1. Yfirlögráðandi skal leysa skipaðan lögráðamann frá störfum óski hann þess. Lögráðamaður skal þó jafnan gegna áfram starfi sínu þar til skipaður hefur verið nýr lögráðamaður.
    2. Yfirlögráðandi skal að eigin frumkvæði veita skipuðum lögráðamanni lausn frá störfum hafi hann vanrækt starfa sinn eða gerst brotlegur í starfi eða uppfylli ekki lengur skilyrði laga um almennt hæfi sem lögráðamaður.
    3. Við andlát skjólstæðings skipaðs lögráðamanns fellur sjálfkrafa niður skipun lögráða­manns.

Tilkynning um lausn lögráðamanns frá störfum og skráning.


65. gr.


    Um tilkynningu um lausn lögráðamanns frá störfum og skráningu um lausn hans fer skv. 57. gr.

VI. KAFLI


Meðferð á fjármunum ófjárráða manna.


Gildissvið.


66. gr.


    Ákvæði þessa kafla eiga við um meðferð á fjármunum þeirra sem ófjárráða eru fyrir æsku sakir og þeirra sem sviptir hafa verið fjárræði, nema annað sé tekið fram í lögum þessum.

Varðveisla og ávöxtun eigna ófjárráða manns.


67. gr.


    1. Eignir ófjárráða manns skulu varðveittar tryggilega og þær ávaxtaðar eins og best er á hverjum tíma.
    2. Eignir ófjárráða manns, sem eru að verðmæti yfir 500.000 kr., skulu varðveittar og ávaxtaðar að höfðu samráði lögráðamanns við yfirlögráðanda.
    3. Lögráðamaður skal ávallt halda peningum og viðskiptabréfum ófjárráða manns að­greindum frá eigin fjármunum.
    4. Yfirlögráðandi getur, ef hann telur ástæðu til, tekið í sínar vörslur fjármuni í eigu hins ófjárráða. Lögráðamaður hefur ekki ráðstöfunarrétt á því fé hins ófjárráða sem yfirlögráðandi hefur tekið í sínar vörslur.
    5. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að gengið sé á eignir ófjárráða manns til greiðslu kostnaðar af framfærslu hans, námi eða öðru. Þegar um er að ræða fjárræðissviptingu varðandi tilteknar eignir á þetta þó aðeins við um þær eignir sem sviptingin tekur til.
    6. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um varðveislu og ávöxtun fjármuna ófjárráða manna.

Tekjur og arður af eignum o.fl.


68. gr.


    1. Lögráðamaður skal sjá til þess að tekjur og arður af eignum ófjárráða manns nýtist í þágu hins ófjárráða.

    2. Lögráðamaður getur, ef hann telur ástæðu til og slíka ráðstöfun í samræmi við hagsmuni hins ófjárráða, afhent honum hæfilegt fé til eigin nota af tekjum hans eða arði. Lögráðamaður getur á sama hátt með leyfi yfirlögráðanda, sbr. 5. mgr. 67. gr., afhent hinum ófjárráða fjár­muni af höfuðstól hans til eigin nota ef tekjur hans hrökkva ekki til.

Kaup og sala á eignum o.fl.


69. gr.


    1. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að binda ófjárráða mann við kaup eða sölu fast­eignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis, svo og atvinnufyrirtæk­is hans. Sama gildir ef ófjárráða manni eru afhentar slíkar eignir án þess að endurgjald komi fyrir. Eignir samkvæmt þessari málsgrein skulu eigi látnar af hendi, nema hinum ófjárráða sé auðsjáanlega hagur að því.
    2. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að leigusamningur um fasteign ófjárráða manns sé gildur ef leigusamningur er til lengri tíma en þriggja ára, nema kveðið sé á um rétt til upp­sagnar með hæfilegum fyrirvara.
    3. Samþykki yfirlögráðanda þarf einnig til allra ráðstafana varðandi fjárhald ófjárráða manns sem eru mikils háttar eða óvenjulegar, miðað við efni hins ófjárráða, svo sem kaup eða sölu á lausafé, ef um tiltölulega mikið verðmæti er að tefla, og til ráðningar forstjóra fyrir at­vinnufyrirtæki ófjárráða manns.
    4. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um form og efni beiðna lögráðamanna um samþykki yfirlögráðenda samkvæmt þessari grein og um þau gögn sem beiðni skulu fylgja.

Veðsetningar og önnur eignarhöft.


70. gr.


    1. Samþykki yfirlögráðanda þarf til lagningar veðbanda eða annarra eignarhafta á fasteign, loftfar, skráningarskylt skip, skráningarskylt ökutæki eða atvinnufyrirtæki í eigu ófjárráða manns. Sama gildir um lagningu veðbanda eða annarra eignarhafta á viðskiptabréf og bankainnstæður og lausafé, ef um tiltölulega mikið verðmæti er að ræða. Samþykki yfirlögráð­anda skal því aðeins veitt að hinum ófjárráða sé hagur að ráðstöfuninni.
    2. Yfirlögráðanda er einungis heimilt að veita samþykki til ráðstafana skv. 1. mgr. til tryggingar skuldum hins ófjárráða. Ef sérstaklega stendur á getur yfirlögráðandi þó samþykkt veðsetningu til tryggingar skuldum lögráðamanns.
    3. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um form og efni beiðna lögráðamanna um samþykki yfirlögráðenda samkvæmt þessari grein og um þau gögn sem beiðni skulu fylgja.

Ábyrgð fyrir þriðja mann.


71. gr.


    1. Óheimilt er að binda ófjárráða mann við ábyrgð eða tryggingu fyrir þriðja mann.
    2. Yfirlögráðandi getur þó veitt undanþágu frá 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á vegna hagsmuna hins ófjárráða.

Lán fjármuna.


72. gr.


    1. Óheimilt er að lána fé ófjárráða manna nema með samþykki yfirlögráðanda. Lán skal aðeins veita gegn tryggu veði í fasteign. Lánsfjárhæðin má ekki fara fram úr 2 / 3 hlutum af fasteignamati eignarinnar. Yfirlögráðandi veitir því aðeins samþykki sitt að hinum ófjárráða sé hagur að ráðstöfuninni.
    2. Í veðskuldabréfum fyrir láni af fé ófjárráða manna skal taka fram að lánið sé allt þegar afturkræft ef vanskil verða á greiðslu vaxta eða afborgana og má þá krefjast nauðungarsölu veðsins án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.
    3. Ef maður hefur einungis verið sviptur fjárræði sínu varðandi tilteknar eignir eiga ákvæði þessarar greinar aðeins við þær eignir.

Tilkynningarskylda til yfirlögráðanda.


73. gr.


    1. Skylt er öllum þeim sem inna af hendi fjárgreiðslu til lögráðamanns ófjárráða manns, sem er eign hins ófjárráða, að tilkynna yfirlögráðanda ef greiðslan er að fjárhæð 500.000 kr. eða þar yfir.
    2. Tilkynningu skv. 1. mgr. skal beina til yfirlögráðanda í því umdæmi sem hinn ófjárráða maður á lögheimili í.

VII. KAFLI


Löggerningar ólögráða manna.


Gildissvið.


74. gr.


    Ákvæði þessa kafla eiga við bæði þegar maður er ólögráða fyrir æsku sakir og þegar maður hefur verið sviptur lögræði, nema annað leiði af lögum þessum. Hafi maður verið sviptur fjár­ræði einungis að því er varðar tilteknar eignir eiga ákvæði þessa kafla aðeins við um þær eign­ir.

Ráðstöfunarréttur ófjárráða manns.


75. gr.


    1. Ófjárráða maður ræður ekki fé sínu nema lög mæli á annan veg.
    2. Ófjárráða maður ræður sjálfur sjálfsaflafé sínu sem hann hefur þegar unnið fyrir. Maður, sem sviptur hefur verið fjárræði, ræður þó aðeins því sjálfsaflafé sem hann hefur unnið sér inn eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
    3. Ófjárráða maður ræður sjálfur gjafafé sínu, þar með töldum dánargjöfum, nema gefandi hafi mælt fyrir á annan veg eða lög kveði sérstaklega öðruvísi á um. Ef maður hefur verið sviptur fjárræði ræður hann þó aðeins því gjafafé sem hann hefur fengið eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
    4. Ófjárráða maður ræður einnig með sama hætti því fé sem lögráðamaður hans hefur látið hann hafa til ráðstöfunar.
    5. Ef um tiltölulega mikið sjálfsaflafé eða gjafafé er að tefla eða fari hinn ófjárráða ráð­lauslega með féð getur yfirlögráðandi, án tillits til fyrirmæla gefanda, ef því er að skipta, tekið eða heimilað lögráðamanni að taka féð að nokkru eða öllu leyti til varðveislu og ræður hinn ófjárráða maður þá ekki því fé meðan sú ráðstöfun helst.
    6. Forráð ófjárráða manns yfir sjálfsaflafé og gjafafé taka einnig til arðs af því fé, svo og verðmætis er í stað þess kemur.
    7. Ákvæði þessarar greinar heimila hvorki ófjárráða manni að stofna til skulda né veðsetja þá fjármuni sem þau taka til.


Löggerningar ólögráða manns.


76. gr.


    1. Löggerningar ólögráða manns, sem hann hafði ekki heimild til að gera, binda hann ekki.
    2. Nú hefur maður verið sviptur fjárræði, án þess að fjárræðissvipting sé bundin við tiltekn­ar eignir, og binda hann þá ekki löggerningar sem fara í bága við fjárræðissviptinguna og hann gerir eftir birtingu úrskurðar í Lögbirtingablaði. Ef ráðstafanir skv. 4. mgr. 14. gr. eru gerðar áður en úrskurður er birtur miðast réttaráhrif sviptingarinnar, varðandi eignir sem þar eru greindar, við þær ráðstafanir.
    3. Réttaráhrif úrskurðar um fjárræðissviptingu, sem einungis tekur til tiltekinna eigna, gagnvart grandlausum aðilum, miðast við að þær ráðstafanir hafi verið gerðar sem mælt er fyr­ir um í 4. mgr. 14. gr.

Riftun samnings ólögráða manns.


77. gr.


    1. Nú hefur ólögráða maður sjálfur gert samning sem hann skorti heimild til að gera og get­ur þá hinn aðili samningsins rift honum, nema samningurinn hafi annaðhvort verið staðfestur af lögráðamanni eða honum hafi verið fullnægt svo skuldbindandi sé fyrir hinn ólögráða mann.
    2. Nú veit maður að hann semur við ólögráða mann og hefur ekki ástæðu til að ætla að samþykki lögráðamanns sé fyrir hendi og getur hann þá ekki rift samningnum fyrr en liðinn er tilskilinn frestur til að afla staðfestingar lögráðamanns ef um slíkan frest hefur verið samið, en ella hæfilegur tími til þeirrar málaleitunar. Sama gildir ef afla þarf samþykkis yfirlögráð­anda.
    3. Ef maður hefur gert vinnusamning við ósjálfráða mann og svo er ástatt sem segir í upp­hafi undanfarandi málsgreinar getur hann ekki rift samningnum meðan hinn ósjálfráða maður efnir hann af sinni hálfu.
    4. Ákvörðun um riftun samnings skal bæði tilkynna hinum ólögráða manni sjálfum og lög­ráðamanni hans.

Skilaskylda samningsaðila við ógildingu


samnings vegna lögræðisskorts o.fl.


78. gr.


    1. Nú veldur lögræðisskortur ógildingu samnings og skal þá hvor aðili skila aftur þeim verðmætum sem hann hefur veitt viðtöku. Ef ekki er unnt að skila hlut aftur skal aðili greiða verð hans eftir því sem hér segir:
     b.     Samningsaðili hins ólögráða manns skal greiða fullt verð hlutarins. Honum ber þó eigi að bæta hlut sem hann átti að skila aftur samkvæmt samningi aðila ef rýrnun eða eyði­legging hlutarins stafar af eiginleikum hans sem fyrir hendi voru þegar hann var afhentur. Hafi aðili fengið hlutinn eða verðmætið að gjöf eða til geymslu frá hinum ólögráða manni má færa niður bætur úr hendi hans eftir því sem sanngjarnt þykir.
     d.     Hinn ólögráða maður skal greiða fégjald að því leyti sem verðmætin hafa orðið honum að notum.
    2. Nú hefur hinn ólögráða maður haft svik í frammi eða á annan hátt brotið af sér við gerð samnings eða afhendingu umsaminna verðmæta eða hann hefur á saknæman hátt valdið því að hlutur hefur farið forgörðum er honum bar samkvæmt samningnum eða
vegna riftunar hans að skila aftur og skal hann þá bæta samningsaðila sínum tjón hans. Dóm­stólar geta þó fært bótafjárhæð niður með hæfilegu tilliti til þess hve mikil sökin var og tjónið, til efnahags hins ólögráða manns og annarra atvika.
    3. Nú sannast í opinberu máli að hinn ólögráða maður hefur gerst sekur um refsivert athæfi í sambandi við gerð samnings eða framkvæmd og skal hann þá bæta tjón eftir almennum regl­um.

Fullnusta í eignum sem fjárræðissvipting skv. 2. mgr. 5. gr. tekur til.


79. gr.


    Nú stofnar maður, sem sviptur hefur verið fjárræði að því er varðar tilteknar eignir skv. 2. mgr. 5. gr. laga þessara, til skulda eða tekur á sig ábyrgð fyrir þriðja mann, eftir að ráðstafanir skv. 4. mgr. 14. gr. hafa verið gerðar, og verður þá ekki leitað fullnustu í þeim eignum hans sem sviptingin tekur til.

VIII. KAFLI


Yfirlögráð.


Yfirlögráðendur.


80. gr.


    Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi.

Hlutverk yfirlögráðenda.


81. gr.


    1. Yfirlögráðendur skipa lögráðamenn og ráðsmenn.
    2. Yfirlögráðendur hafa eftirlit með störfum skipaðra lögráðamanna og ráðsmanna sam­kvæmt ákvæðum laga þessara. Sama gildir um eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna þeirra sem ófjárráða eru fyrir æsku sakir.
    3. Yfirlögráðendur sinna enn fremur þeim störfum er þeim eru falin í lögum þessum eða öðrum lögum.

Gerðabækur yfirlögráðenda.


82. gr.


    1. Yfirlögráðendur halda gerðabækur sem hafa að geyma ákvarðanir þeirra samkvæmt lög­um þessum
    2. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um færslur yfirlögráðenda í gerðabækur.

Málskot.


83. gr.


    Stjórnvaldsákvörðun yfirlögráðanda samkvæmt lögum þessum má skjóta til dómsmálaráð­herra innan 30 daga frá birtingu hennar.

IX. KAFLI


Ýmis ákvæði.


Verðbreytingar.


84. gr.


    Fjárhæðir þær sem getið er í 1. mgr. 50. gr., 1. og 4. mgr. 63. gr., 2. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 73. gr. eru grunnfjárhæðir og er heimilt að láta þær taka árlega sömu hlutfallslegu breytingum og vísitala neysluverðs, í fyrsta skipti 1. janúar 1999. Dómsmálaráðherra skal þá tilkynna um breytingarnar með auglýsingu í Lögbirtingablaði.

Gildistaka.


85. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Brottfallin lög.


86. gr.


    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lögræðislög, nr. 68/1984, með áorðnum breyting­um.

Lagaskil.


87. gr.


    1. Kröfu um nauðungarvistun, lögræðissviptingu eða niðurfellingu lögræðissviptingar, sem sett var fram í gildistíð laga nr. 68/1984 og ekki hefur verið leyst úr við gildistöku laga þess­ara, skal leysa úr samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/1984, nema sá er kröfu setti fram óski eftir því að úr máli skuli leyst samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    2. Skyldur lögráðamanna, sem skipaðir hafa verið samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/1984 eða eldri laga, eru þær sem greinir í lögum þessum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þeir sem öðlast hafa sjálfræði samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/1984 við gildistöku laga þessara halda sjálfræði sínu. Þeir sem ósjálfráða eru fyrir æsku sakir við gildistöku laganna öðlast sjálfræði samkvæmt ákvæði 1. gr.