Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 260 . mál.


1310. Breytingartillögur



við brtt. á þskj. 1191 [Réttindi sjúklinga].

Frá Ástu R. Jóhannesdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Margréti Frímannsdóttur.



    Við 10. lið. A-liður orðist svo:
    1. mgr. orðist svo:
                  Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma og jafnframt gefa sjúklingi kost á bókun aðgerðar. Miða skal við að biðtími eftir aðgerð verði ekki lengri en þrír til sex mánuðir eftir eðli sjúkdóms.
    Við 18. lið. Liðurinn orðist svo:
    Við 27. gr. Greinin orðist svo:
                  Skylt er að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir.
                  Hlífa ber börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum.
                  Sjúk börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnun, eiga rétt á að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér og skal sköpuð aðstaða fyrir þá eftir því sem kostur er. Foreldrar eða nánir vandamenn sjúkra barna skulu eiga sama rétt og sjúklingur til greiðslu ferðakostnaðar vegna heimsókna á sjúkrahús, enda sé heimsóknin liður í umönnun barns. Þá er heimilt að greiða dagpeninga til foreldra eða náinna vandamanna sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna veru sjúkra barna á sjúkrahúsi eða vegna læknismeðferðar á meðan á dvölinni stendur.
                  Systkini og vinir mega eftir því sem kostur er heimsækja sjúkt barn sem dvelst á heilbrigðisstofnun. Ferðakostnaður vegna heimsókna systkina skal greiddur a.m.k. einu sinni í mánuði.
                  Í kjölfar þess að alvarlegur sjúkdómur greinist hjá barni skal barnið, foreldrar þess eða nánir vandamenn eiga kost á félagslegum og andlegum stuðningi sérþjálfaðs áfallahóps á vegum barnadeilda sjúkrahúsa. Þá skulu foreldrar eða nánustu vandamenn sjúkra barna eiga aðgang að félagslegri aðstoð vegna þeirra útgjalda sem langvarandi sjúkdómur og meðferð hjá sjúku barni hefur í för með sér fyrir fjölskyldu þess.
                  Sjúk börn á skólaskyldaldri skulu fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi.
                  Umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnun skal hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.
    Við 20. lið. Efnismálsgrein orðist svo:
                  Ráðherra skal setja reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Þar skulu m.a. vera ákvæði um vísindasiðanefnd og siðanefndir skv. 4. mgr. 2. gr. Þá skal ráðherra setja sérstakar reglur um úrræði fyrir sjúklinga vegna meintra læknamistaka, óháð því hvort sönnuð verði sök eða ekki. Þá er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.