Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 530 . mál.


1331. Nefndarálit



um frv. til l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steingrím Ara Arason, Áslaugu Guðjónsdóttur og Margréti Gunnlaugsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Grétar Þorsteinsson, Ara Skúlason, Gylfa Arnbjörnsson og Benedikt Davíðsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarin V. Þórarinsson, Þórð Magnússon og Víglund Þorsteinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jón Rúnar Pálsson frá Vinnumálasambandinu, Hrafn Magnússon og Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Birgi Björn Sigurjónsson og Mörthu Á. Hjálmarsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ólaf Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Jónas Fr. Jónsson og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Rúnar Guðmundsson, Helga Þórsson og Jóhönnu Gústafsdóttur frá Vátryggingaeftirlitinu og Baldur Guðlaugsson, Sigurð R. Helgason, Guðmund Snorrason, Áslaugu Magnúsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur og Bolla Magnússon frá Samtökum áhugafólks um lífeyrissparnað. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Árna Reynissyni, löggiltum vátryggingamiðlara, Bandalagi háskólamanna, Félagi frjálslyndra hagfræðinema, Landssambandi lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði Tæknifræðingafélags Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum áhugafólks um lífeyrissparnað, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Vátryggingaeftirlitinu, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Verslunarráði Íslands og Vinnumálasambandinu og sameiginlegar umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands annars vegar og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands hins vegar.

Inngangur.
    Lífeyriskerfi Íslendinga sem byggist á þremur stoðum um skyldutryggingu, sjóðssöfnun og samtryggingu hefur reynst vel. Samkvæmt Alþjóðabankanum hafa kerfi sem byggjast á þessum grundvallaratriðum reynst best af þeim lífeyrissjóðakerfum sem nú þekkjast.
    Íslenska lífeyrissjóðakerfið átti í fjárhagslegum vandræðum lengi framan af en hin síðari ár hafa lífeyrissjóðir bætt fjárhagslega stöðu sína verulega. Það er vegna þess að ávöxtun hefur verið góð undanfarin ár en einnig hafa sjóðir sameinast og þannig hafa orðið til sterkari einingar.
    Það er dómur flestra, og kemur einnig fram í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar, að kerfi okkar hafi reynst mjög vel í alþjóðlegum samanburði og standi traustum fótum. Íslenska lífeyrissjóðakerfið er einna sterkast kerfa í Evrópu til að takast á við skuldbindingar framtíðarinnar.

    Hornsteinn lífeyrissjóðakerfisins hérlendis er að ríkt hefur samráð um meginþætti þess. Þannig hafa lífeyrissjóðirnir verið í sameiginlegri umsjón samtaka launþega og vinnuveitenda enda hafa þau gert þá kjarasamninga sem lífeyrissjóðirnir byggjast á.
    Þegar sett er heildarlöggjöf um lífeyrissjóði er mikilvægt að líta til skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart ellilífeyrisþegum en auknar greiðslur í framtíðinni úr lífeyrissjóðakerfinu munu lækka greiðslur almannatrygginga af hálfu ríkisvaldsins. Þau útgjöld nema nú um fimmtungi ríkisútgjalda. Skattahagræði samtryggingarsjóðanna (frestun skattgreiðslu þar til útborgun lífeyris hefst) er rökstutt með því að ellilífeyristrygging til æviloka, sem samtryggingarsjóðirnir veita, spari ríkissjóði veruleg útgjöld og létti byrði skattgreiðenda í framtíðinni. Þannig er það hagsmunamál fyrir ríkið að vel sé staðið að endurskipulagningu á lífeyrissjóðakerfinu í ljósi samtengingar lífeyrissparnaðar og almannatrygginga. Samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga er reyndar mál sem full þörf er á að endurskoða í heild sinni. Bætur almannatrygginga, þar með talinn grunnlífeyrir, skerðist nú þegar við tiltekin tekjumörk. Þetta getur í sumum tilvikum valdið því að einstaklingur, sem hefur samviskusamlega greitt umsaminn hlut launa sinna í lífeyrissjóð alla sína starfsævi, er að lokum litlu eða engu betur settur en sá sem hefur vanrækt lífeyrisgreiðslur. Þetta fær ekki staðist. Vegna þessa og annarra vandamála sem stafa af tekjutengingu bóta almannatrygginga ber að huga vandlega að samspili almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum í framtíðinni.
    Rétt er að hafa í huga að lífeyrissparnaður hefur verið helsta uppspretta sparnaðar hérlendis. Það hefur ekki tekist vel til hjá okkur að auka sparnað, hvað þá frjálsan sparnað, en stærsti hluti sparnaðar hérlendis er í lífeyrissjóðum. Sparnaður hérlendis hefur verið mun minni en æskilegt hefði verið. Því er mjög mikilvægt að ekki sé hróflað við meginþáttum þessa kerfis. Sparnaður sérhvers þjóðfélags stendur undir fjárfestingum sem móta lífskjör framtíðarinnar og Íslendingar hafa dregist aftur úr á því sviði.
    Mikil umræða hefur verið um hvort ekki væri sanngjarnt að launþegar fengju að velja milli lífeyrissjóða. Þetta er gjarnan klætt í orð valfrelsis og aðlögunar að nútímanum. Þetta byggist á misskilningi. Ef einstaklingar geta valið milli lífeyrissjóða með skyldutryggingu þýðir það vitaskuld að lífeyrissjóðir geta valið sér sjóðfélaga. Það mun leiða til þess að þeir sem eru dýrari í tryggingu, t.d. sjómenn og aðrir sem vinna áhættusöm störf eða konur sem verða eldri en karlar, munu þurfa að greiða meira í ellilífeyris- og örorkutryggingar en aðrir, eða sætta sig ella við lakari réttindi en aðrir. Hugsanlegt er að mismunun af þessu tagi kalli að lokum á styrki eða niðurgreiðslur úr ríkissjóði, þ.e. auki byrðar skattgreiðenda.

Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið fjallar um heildarlöggjöf um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta er umfangsmikið frumvarp en undirbúningur að löggjöf um lífeyrismál hefur staðið í áratugi.
    Meðal efnis frumvarpsins eru ákvæði um skyldutryggingu og viðbótarsparnað. Einnig er fjallað um réttindi í lífeyrissjóðum og almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar. Lágmarksskilyrði af hálfu ríkisins fyrir viðurkenningu á starfsemi lífeyrissjóða, sem og fyrir skattahagræði af ríkisins hálfu, hlýtur að vera að lífeyrissjóður veiti að lágmarki ellilífeyri til æviloka og örorkutryggingu, auk maka- og barnabóta eða ígildis þeirra. Kveðið er á um hvaða skilyrði verður að uppfylla fyrir starfsleyfi lífeyrissjóða og fjallað er um rekstur og innra eftirlit þeirra. Sérstakur kafli er um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og skilyrði sem henni eru sett. Auk þess er fjallað um ársreikning og endurskoðun, eftirlit, slit og samruna lífeyrissjóða. Einnig eru sérstök ákvæði gagnvart þeim lífeyrissjóðum sem eru starfandi við gildistöku þessara laga.
    Frumvarpið er 60 greinar og því fylgir ítarleg greinargerð. Það er skoðun minni hluta nefndarinnar að heildarlöggjöf um lífeyrissjóði sé löngu tímabær. Hins vegar hefur ríkisstjórnin valið þessu máli þann farveg við undirbúning að það hefur vakið tortryggni. Þannig var ekki haft samráð við aðstandendur lífeyrissjóðakerfisins við undirbúning þessa frumvarps nema að litlu leyti. Slík vinnubrögð eru ámælisverð og hafa dregið dilk á eftir sér.

Sameignar- og séreignarsjóðir.
    Samábyrgð er grundvallaratriði í sameignarsjóðunum. Sjóðfélagar öðlast réttindi til ellilífeyris til æviloka og til örorku- og fjölskyldulífeyris. Í sameignarsjóðum er áhættunni dreift og samábyrgðin er grundvölluð á skylduaðildinni, þ.e. að allir taki þátt í henni. Allir, hvort sem eru ungir eða aldnir, karlar eða konur, giftir eða ógiftir, barnlausir eða barnafólk, öðlast samsvarandi réttindi fyrir sömu iðgjöld. Sameignarsjóðirnir ábyrgjast ellilífeyri óháð ævilengd til æviloka. Þeir ábyrgjast jafnframt örorkulífeyri og greiða makalífeyri og barnalífeyri.
    Séreignarsjóðirnir byggjast á allt öðru fyrirkomulagi. Þar leggja einstaklingar fyrir lífeyrissparnað sem er á þeirra nafni og þegar þeir hafa náð tilteknum aldri mega þeir taka út inneign sína á ákveðnum árafjölda. Séreign sjóðfélaga getur gengið að erfðum til maka og afkomenda. Þetta form hentar mjög vel fyrir viðbótarsparnað enda hafa fjölmargir Íslendingar lagt viðbótarsparnað til elliáranna í séreignarsjóði. Brýnt er að hafa slíka möguleika eftir sem áður.
    Samtryggingarkerfið byggist á því að allir séu þátttakendur í því að greiða tiltekinn hluta af launum sínum í kerfi sem veitir sambærilegan elli- og örorku-, barna- og makalífeyri. Síðan er einstaklingum vitaskuld heimilt að spara af launum sínum umfram þetta hlutfall. Minni hlutinn vill að einstaklingar eigi kost á því að spara í séreignarkerfi að því tilskildu að þeir hafi tekið þátt í samtryggingu eins og aðrir þegnar. Samtryggingarkerfið, sem reynst hefur vel hérlendis, byggist á þeirri einföldu staðreynd að annaðhvort eru allir með í því kerfi eða það er ekki hægt að starfrækja slíkt fyrirkomulag.
    Það er algjörlega óviðunandi að heilsulitlir, konur og þeir sem sinna áhættusömum störfum þurfi að greiða meira til lífeyrissjóða fyrir sömu réttindi og aðrir.

    Minni hlutinn vill að tryggð séu réttindi þeirra sem sparað hafa með reglubundnum hætti í séreignarsjóði. Fjölmargir einstaklingar hafa byggt upp lífeyrissparnað sinn með þeim hætti. Einstök verkalýðsfélög hafa kosið þetta form lífeyrissparnaðar og gert um það kjarasamninga. Það er ekki ætlun minni hlutans að skerða möguleika þessara aðila, en það var hins vegar gert í frumvarpi ríkisstjórnarinnar í upphaflegri mynd.
    Hins vegar er eðlilegt að skapað sé svigrúm fyrir séreignarsjóði án þess að það komi niður á samtryggingarkerfinu. Þess vegna hefur verið rætt um að séreignarsjóðir fái tækifæri til að taka við sparnaði í samtryggingarformi af hálfu launþega, jafnframt því að vera með sparnað sem séreign. Sé þessi leið farin verður vitaskuld að heimila hefðbundnum lífeyrissjóðum innan samtryggingarkerfisins að byggja upp séreignardeildir, þ.e. að þeir mættu einnig taka við sparnaði launþega sem væri séreign þeirra. Hugmyndir í þessa átt voru ræddar ítarlega innan nefndarinnar.

    Sjóðfélagar í sameignarsjóðunum eru um 132.000 talsins miðað við tölur frá árinu 1995 frá Seðlabanka Íslands. Til séreignarsjóða greiddu þá 2.900 manns. Þannig er augljóst að þeir sem greiða nú með reglubundnum hætti til séreignarsjóða eru ekki fleiri en 4.000 talsins á sama tíma og yfir 130.000 einstaklingar greiða með reglubundnum hætti í sameignarsjóði. Því er brýnt að ekki sé gengið svo á kerfi stærri hópsins að hætta stafi af.

Ásókn í ávöxtun lífeyrissparnaðar.
    Eftir að frumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram kom í ljós að fjölmargir stjórnarliðar vildu sem minnst við málið kannast og töldu að hér væri allt of skammt gengið í að efla séreignarsjóði innan lífeyriskerfisins.
    Sú einkennilega staða kom upp í nefndinni að stjórnarandstæðingar vildu vinna í meginatriðum út frá stjórnarfrumvarpinu, þó þannig að vitaskuld yrði að breyta 2. gr. frumvarpsins, sem kveður á um greiðslufyrirkomulag í lífeyrissjóði, og tryggja yrði réttindi þeirra sem með reglubundnum hætti hafa greitt í séreignarsjóði. Þessi áhersluatriði minni hlutans fengu ekki hljómgrunn hjá meiri hlutanum sem hugðist knýja fram breytingar á stjórnarfrumvarpinu í þá átt að gefa fjármálafyrirtækjum rýmri rétt til að taka við lífeyrissparnaði.
    Það kom í ljós í umræðum innan þings og utan að fjármálafyrirtæki nátengd Sjálfstæðisflokknum voru fyrst og fremst að hugsa um það hvernig þau gætu komist í hinar háu fjárhæðir sem eru bundnar í núverandi lífeyrissparnaði og eru væntanlegar á næstu áratugum. Sparnaður í lífeyrissjóðakerfinu nemur nú um 300 milljörðum kr. og er talinn aukast um 150 milljarða kr. á tiltölulega fáum árum. Iðgjöld lífeyrissjóðanna eru nú nálægt 20 milljörðum kr. árlega. Hér er um að ræða geysimikið fé sem fjáraflafyrirtæki tengd stjórnarflokkunum vilja ná tangarhaldi á.
    Glöggt kom fram í umræðum utan þings, einkum fyrir forgöngu Morgunblaðsins, að séreignarsjóðir og fjármálafyrirtæki sóttu mjög hart að frumvarpi ríkisstjórnarinnar undir kjörorðinu valfrelsi. Eins og áður hefur verið bent á byggist það á misskilningi vegna þess að velji einstaklingur milli sjóða munu sjóðir velja milli einstaklinga og slíkt mundi rústa samtryggingarkerfi okkar sem reynst hefur vel til greiðslu lífeyris og hefur tryggt jöfnun gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.

Skipulag á vinnumarkaði.
    Minni hlutinn lagði mjög mikla áherslu á að málið yrði unnið í sem nánustu samráði við aðila vinnumarkaðarins, einfaldlega vegna þess að lífeyrissjóðakerfið var sett á laggirnar í kjarasamningum og lífeyrissjóðir eru eign launþega í sameiginlegri vörslu og umsjón launþegasamtaka og vinnuveitendasamtaka. Það er það skipulag sem launþegar og vinnuveitendur hafa komið sér saman um.
    Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að við setningu heildarlöggjafar um lífeyrissjóðsmál sé ekki blandað inn í það óskyldum hlutum eins og skipulagi og samningsformi á vinnumarkaði. Greinilegt var að ríkisstjórnin og meiri hluti nefndarinnar ætluðu að nota tækifærið við setningu heildarlöggjafar um lífeyrismál til að knýja fram breytingar á skipulagi vinnumarkaðarins þannig að einstaklingsbundnum ráðningarsamningum yrði gert hærra undir höfði en áður. Það þýðir að launþegar eru í reynd hvattir til að eiga ekki aðild að verkalýðsfélögum og jafnframt að fyrirtæki eru í reynd hvött til að eiga ekki aðild að vinnuveitendasamtökum.
    Þessi afstaða ríkisstjórnarmeirihlutans endurspeglar þá stjórnmálastefnu, sem reynd hefur verið víða um heim, að brjóta niður skipulagt starf launþegahreyfingar. Stjórnarandstaðan leggst gegn slíkum hugmyndum, enda hefur hvergi sýnt sig að það hafi leitt til hagsbóta fyrir launþega eða þjóðfélagið í heild. Þvert á móti er sú stefna sem ríkisstjórnin er að reyna knýja fram á undanhaldi víða um heim og má þar minnast afhroðs breska íhaldsflokksins sem hafði þessa stefnu.

Umsagnir um frumvarpið.
    Fjölmargar umsagnir bárust um frumvarpið og verður hér getið nokkurra þeirra. Þau tíðindi gerðust að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands skiluðu sameiginlegri umsögn. Minni hlutinn þekkir ekki dæmi þess en það sýnir alvöru málsins hjá aðilum vinnumarkaðarins og samstöðu þeirra um að standa vörð um kerfi sem talið er eitt hið besta á Vesturlöndum.
    Í umsögn Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins kemur fram að núverandi kerfi hafi reynst vel og mikilvægt sé að byggja á því. Einkum eru gerðar athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins, um sjóðsaðild, og samtökin telja að orðalag frumvarpsins og breytingartillögur meiri hlutans gangi þvert á núverandi skipan þessara mála og lýsa sig algerlega andsnúin því. Þau hafa gert eftirfarandi tillögu að orðalagi á 2. mgr. greinarinnar:
    „Tryggingarskyldu skal fullnægt með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps eins og nánar er kveðið á um í hlutaðeigandi kjarasamningi eða sérlögum. Um lífeyriskjör og aðild að lífeyrissjóði fer að öðru leyti eftir ákvæðum þeirra kjarasamninga sem starfsmaður starfar eftir. Taki kjarasamningar ekki til þess starfs sem launamaður gegnir fer um aðild eftir ráðningarsamningi eða ákvæðum 3. gr.“
    Þetta orðalag er bein tilvísun í núgildandi lög um lífeyrissjóði þar sem kveðið er á um að iðgjald skuli greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Jafnframt er vísað í kjarasamning eða sérlög. En þess má geta að opinberir starfsmenn greiða í lífeyrissjóð samkvæmt sérlögum. Að öðru leyti er það kjarasamningur sem kveður á um fyrirkomulag iðgjaldagreiðslna samkvæmt núverandi kerfi en í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er grafið undan því fyrirkomulagi.
    Mikilvægt er í þessu sambandi að vekja athygli á því að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og í tillögum meiri hluta nefndarinnar er ráðningarsamningum gert sérstaklega hátt undir höfði. Þannig er gefið í skyn að þeir séu settir á stall með kjarasamningum og sérlögum. Að vísu er dregið úr þeim skilningi í greinargerð með frumvarpinu en ákvæði greinarinnar, eins og þau birtast í frumvarpinu og tillögum meiri hlutans, sýna glöggt þá ætlun ríkisstjórnarinnar að auka vægi ráðningarsamninga varðandi sjóðsaðild.
    Þessu mótmæla Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið. Þau vilja að ráðningarsamningar taki einungis til sjóðsaðildar ef kjarasamningar ná ekki til þess starfs sem launamaður gegnir. Vitaskuld er mjög mikilvægt í sambandi við lífeyrissjóðafrumvarpið að almennu skipulagi á vinnumarkaði sé ekki breytt. Það verður að gerast á öðrum vettvangi en í tengslum við löggjöf um lífeyrissjóði.
    Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið benda á að finna verði leið fyrir þá sem um lengri tíma hafa greitt reglubundið í séreignarsjóði og stöðu þeirra verður að skoða sérstaklega. Er það álit samhljóða áliti minni hlutans. Jafnframt hvetja samtökin til þess að almennir lífeyrissjóðir fái möguleika á að taka við viðbótarsparnaði í formi séreigna. Í umsögn þeirra kemur einnig fram gagnrýni á að ekki hafi verið haft samráð við þau við undirbúning málsins og er sú framkoma fjármálaráðuneytis ámælisverð.
    Í umsögn Samtaka verðbréfafyrirtækja er lagt til að þak sé sett á samtryggingu og hvatt til samkeppni á lífeyrismarkaði.
    Verslunarmannafélag Reykjavíkur ítrekar að gætt verði að stöðu lífeyrissjóða sem byggjast á samtryggingu án þess að iðgjöld þeirra séu skert. Jafnframt hvetja þau til þess að lífeyrissjóðir megi taka við viðbótariðgjöldum.
    Vátryggingaeftirlitið bendir m.a. í umsögn sinni á ýmsar tæknilegar breytingar sem gera þarf á frumvarpinu til að það nái betur yfir verkefni lífeyrissjóðanna.
    Landssamband lífeyrissjóða varar við því að grundvallarbreytingar séu gerðar „í fljótfærni vegna þröngra sérhagsmuna banka, verðbréfafyrirtækja og tryggingafélaga á íslenska lífeyrissjóðakerfinu í núverandi mynd“. Orðalagi frumvarpsins og breytingartillagna við 2. gr. er mótmælt. Sömuleiðis er óskað eftir því að lífeyrissjóðirnir fái möguleika á að taka við viðbótarlífeyrissparnaði.
    Verslunarráð Íslands telur að frumvarpið samrýmist ekki meginmarkmiðum fjármálaráðherra um aukið valfrelsi í lífeyrissparnaði, að samkeppni sé innleidd milli lífeyrissjóða og að bein áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóða sé tryggð. Það er skoðun Verslunarráðsins að skylduaðild að tilteknum sjóðum brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu og að ákvæði stjórnarskrárinnar séu hugsanlega brotin með frumvarpinu.
    Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands vara við orðalagi 2. gr. frumvarpsins og vilja jafnframt að orðalag 5. gr. sé skýrara en það ákvæði snýr m.a. að opinberum starfsmönnum.
    Í umsögn Árna Reynissonar, löggilts vátryggingamiðlara, er þeirri skoðun lýst að skylduaðild að lífeyrissjóðum sé skattlagning á þá sem fara eigin leiðir í sparnaði.
    Samband almennra lífeyrissjóða gagnrýnir harðlega samráðsleysi við samningu frumvarpsins og telur að núverandi lífeyrissjóðakerfi hafi reynst framúrskarandi vel. Þeir taka að öðru leyti undir sjónarmið sem koma fram í umsögn Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins.
    Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands bendir á sérstöðu þess sjóðs en hann hefur byggt upp sparnað í séreignarsjóði og kynnir í umsögn sinni hugmyndir um Lífeyrissjóð arkitekta og tæknifræðinga þar sem kostir séreignar- og samtryggingarsjóða eru sameinaðir. Þeir telja mikilvægt að sjóðfélagar hafi áfram frelsi til að byggja upp lífeyrissparnað í séreignarsjóði.
    Seðlabanki Íslands tekur ekki í umsögn sinni „afstöðu til mismunandi útfærslna á fyrirkomulagi lífeyrismála en leggur áherslu á hve mikilvægt öflugt lífeyriskerfi byggt á sjóðsöfnun og skylduaðild að kerfinu er fyrir þjóðhagslegan sparnað og eflingu fjármagnsmarkaða“.
    Félag frjálslyndra hagfræðinema mótmælir frumvarpi ríkisstjórnarinnar og telur að það dragi úr samkeppni milli lífeyrissjóða og skapi óstöðugleika og óvissu á fjármagnsmarkaði.
    Samband íslenskra tryggingafélaga bendir m.a. í umsögn sinni á að eðlilegt væri að Vátryggingaeftirlitið hefði eftirlit með lífeyrissjóðum frekar en bankaeftirlitið. Jafnframt bendir sambandið á ýmis atriði sem marka sérstöðu tryggingafélaga á þessum markaði.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar kom fljótlega fram að meiri hlutinn eða hluti hans vildi setja þak á lífeyrisgreiðslur í samtryggingu þannig að þeir sem betur væru launaðir þyrftu einungis að greiða hluta af tekjum sínum í samtryggingarkerfið. Þessum hugmyndum höfðu fulltrúar launþega áður hafnað algerlega.
    Í starfi nefndarinnar lagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar síðan fram breytingartillögur sem hann kallaði tillögur til sátta. Það var langt í frá að þær tillögur væru á nokkurn hátt til sátta, enda var þeim hafnað af stjórnarandstöðu og aðilum vinnumarkaðarins.
    Þessar tillögur voru greinilega unnar í samráði við fjármálaráðuneytið og nutu stuðnings fjáraflamannanna í baklandi Sjálfstæðisflokksins. Hinn stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hafði lítil afskipti af vinnu þessa máls.
    Mikill ágreiningur ríkti um þessar tillögur og snerist hann einkum um tvær greinar frumvarpsins. Annars vegar um 2. gr. sem var gagnrýnd harðlega bæði af stjórnarandstöðu og aðilum vinnumarkaðarins. Breytingartillaga meiri hlutans lagfærði greinina ekki að neinu marki.
    Hins vegar var ágreiningur um ákvæði 8. gr. frumvarpsins, þ.e. að sett skyldi lágmark tryggingaverndar þannig að lífeyrissjóðir geti boðið upp á samninga um viðbótarsparnað, enda fullnægi þeir tilteknum lágmarkskröfum. Þetta tryggingarákvæði er ekki útfært í breytingartillögum meiri hlutans og er eitt af þeim atriðum sem á að skoða betur í sumar.
    Ljóst er að breytingartillögur meiri hlutans hleyptu málinu í mikið uppnám vegna þess að með þeim er gengið gegn núverandi skipulagi á vinnumarkaði og stefnt er í hættu því kerfi lífeyrissparnaðar sem reynst hefur vel.
    Það er sérkennilegt að af þeim sex í meiri hluta nefndarinnar sem standa að meirihlutaálitinu skrifa þrír undir með fyrirvara. Einn hyggst flytja sérstakar breytingartillögur við málið. Annar gagnrýnir 2. gr. frumvarpsins og sá þriðji er með almennan fyrirvara við málið. Á þessu sést best að það er ekki einungis fullkomin andstaða við breytingartillögur og afgreiðslu meiri hlutans af hálfu stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins heldur einnig er mikill ágreiningur um málið innan stjórnarflokkanna.
    Þegar málið stefndi í óefni og fjármálaráðuneytið knúði á um afgreiðslu þess á grundvelli breytingartillögu meiri hlutans rituðu Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, sameiginlegt bréf 9. maí sl. Þar komu fram „eindregin og sameiginleg tilmæli samtakanna að frumvarpið um starfsemi lífeyrissjóða verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi heldur verði það áfram unnið í samstarfi þingnefndar, ráðuneytis og hagsmunaaðila með það að markmiði að ná víðtækri sátt um afgreiðslu þess á haustþingi“.
    Enn fremur ítreka samtökin nauðsynlega breytingu „á efni 2. gr. frumvarpsins sem kynnt hefur verið ráðherrum“. Þar er átt við orðalag sem fyrr er getið í sameiginlegri umsögn samtakanna. Á grundvelli þessa bréfs tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að fresta afgreiðslu málsins.

Afgreiðsla meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.
    Svo gerðist það á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 12. maí sl. að formaður nefndarinnar lagði fram bréf frá fjármálaráðherra þar sem sagði m.a.: „Ríkisstjórnin telur eðlilegt að nefndin afgreiði málið þannig að tillögur liggi fyrir með formlegum hætti. Í framhaldi af því verði frumvarpinu breytt samkvæmt tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og lagt fyrir starfshóp sem fjármálaráðherra mun skipa með þátttöku hagsmunaaðila. Hópurinn mun í samráði við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fjalla um málið í sumar og skila niðurstöðum sínum fyrir miðjan september. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram í þingbyrjun og afgreitt fyrir næstu áramót.“

    Með þessu bréfi tók málið nýja stefnu. Talið hafði verið að afgreiðslu málsins yrði frestað og það yrði unnið í sumar á grundvelli allra tillagna sem borist höfðu um málið og lagt yrði fram frumvarp í haust. Minni hlutinn bauðst til þess að standa sameiginlega að áliti með meiri hlutanum þar sem fram kæmi það sjónarmið að vinna þyrfti úr öllum þeim tillögum sem fram hefðu komið, enda var það augljóst að ef t.d. ætti að setja í frumvarpið ákvæði um lágmarkstryggingavernd yrði að skilgreina þann þátt miklu betur, en tími hafði ekki unnist til þess. Jafnframt er ljóst að aldrei mun nást sátt um útfærslu meiri hlutans á 2. gr. frumvarpsins.
    Ríkisstjórnin og meiri hluti nefndarinnar ákváðu hins vegar að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið og að þannig breytt færi frumvarpið til frekari úrvinnslu í samráðshópi. Augljóst er, og kom það glöggt fram í fjölmiðlaumræðu í kjölfar þessarar afgreiðslu meiri hlutans, að síðan er ætlunin að breyta frumvarpinu sáralítið.
    Að mati minni hlutans er hér um að ræða mjög vonda og óskynsamlega aðferð sem getur valdið stríði á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin ætlar sér ekki að hafa neitt alvörusamráð við hagsmunaaðila, fulltrúa launafólks og vinnuveitenda, aðra séreignarsjóði eða stjórnarandstöðu um þetta mál. Það er augljóst af málsmeðferðinni að knýja á fram vilja meiri hluta nefndarinnar eins og hann birtist í tillögum hans.

Tillögum meiri hlutans hafnað.
    Andstaða minni hlutans við þessa málsmeðferð er studd af aðilum vinnumarkaðarins. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir 13. maí sl. í Morgunblaðinu í kjölfar þessara atburða: „Það er óneitanlega afskaplega sérkennilegt að þingnefndin skuli vera látin afgreiða málið formlega áður en til þessa samstarfs kemur.“ Síðar segir í viðtalinu: „Við ætlum ekki að fara í viðræður um þetta mál á forsendum meiri hluta þingnefndar. Svona vinnubrögð auka ekki með okkur bjartsýni um að það verði hægt að ná sátt í málum.“ Einnig segir Grétar: „Við höfnum tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.“
    Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, tekur, samkvæmt Morgunblaðinu sama dag, undir sjónarmið Grétars og telur ummæli Vilhjálms Egilssonar „um að til greina kæmi að gera smávægilegar breytingar á frumvarpinu“ sérkennileg. Þórarinn sagði þessi ummæli í ósamræmi við yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar. Þórarinn sagði enn fremur: „Ummæli Vilhjálms eru fullkomlega óskiljanleg og geta ekki verið til leiðbeiningar í einu eða neinu ef það fylgir því alvara að leita eftir sáttum um málið. Nefndin sem skipuð verður á næstu dögum hlýtur að koma óbundin að þessu starfi. Ef svo væri ekki væri ástæðulaust að skipa hana því þá væri það merki um að ríkisstjórnin vildi ekki neitt samstarf um málið og ég hef ekki skilið ummæli forsætisráðherra á þann veg. Hann lagði þvert á móti áherslu á að það næðist samstaða um málið.“
    Af þessu er ljóst að ríkisstjórnin hefur stefnt málinu í mikla hættu með þessari ákvörðun sinni því eins og kom fram í bréfi fjármálaráðherra, sem fyrr var vitnað til, stendur ríkisstjórnin öll að tillögu um þessa málsmeðferð sem er gagnrýnd harðlega af stjórnarandstöðu og aðilum vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin ætlar að efna til stríðs við aðila vinnumarkaðarins um lífeyrissjóðamálið og reyna að knýja fram breytingar á skipulagi vinnumarkaðarins í tengslum við endurskipulagningu lífeyrismála. Það er hættuleg stefna og minni hlutinn mun berjast gegn þessu ætlunarverki ríkisstjórnarflokkanna.


Lokaorð.
    Þar sem málið verður ekki tekið til frekari afgreiðslu á þessu þingi heldur gert ráð fyrir að frumvarpið með breytingartillögum meiri hlutans verði lagt til grundvallar í starfshópi í sumar í samráði við efnahags- og viðskiptanefnd ætlast minni hlutinn til þess að nefndarálit hans verði einnig lagt til grundvallar í vinnu starfshópsins. Þess vegna fylgja þessu nefndaráliti allar umsagnirnar sem bárust efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarpið. Með þeirri afgreiðslu telur minni hlutinn að málið sé afgreitt á skynsamlegan hátt til frekari úrvinnslu á sumri komanda. Það hefði verið mun skynsamlegri leið að sameinast um slíka aðferð en að fara í þann stríðsleik sem meiri hluti nefndarinnar og ríkisstjórnin stefna í.
    Minni hlutinn er reiðubúinn að vinna að þessu máli með hagsmunaaðilum og meiri hlutanum en telur þá að við slíka vinnu verði menn að vera óbundnir af tillögugerð, hvort sem er af hálfu meiri eða minni hluta nefndarinnar. Það er ekki hægt að ná árangri í þessu máli nema mætt sé til samráðs með opnum huga og skoðaðar allar tillögur sem fram hafa komið í málinu. Minni hlutinn telur mjög brýnt að sátt náist um heildarlöggjöf um lífeyrismál á Íslandi.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 14. maí 1997.



Ágúst Einarsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Jón Baldvin Hannibalsson.


frsm.



Fylgiskjal I.


Umsögn Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands.


(29. apríl 1997.)




(5 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,



f.h. Alþýðusambands Íslands,


Grétar Þorsteinsson,



f.h. Vinnuveitendasambands Íslands,


Þórarinn V. Þórarinsson.






Fylgiskjal II.


Umsögn Árna Reynissonar vátryggingamiðlara.


(29. apríl 1997.)



(4 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Með vinsemd og virðingu,



Árni Reynisson.







Fylgiskjal III.


Umsögn BSRB, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands.


(29. apríl 1997.)




(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



F.h. BSRB,


Ögmundur Jónasson.



F.h. Bandalags háskólamanna,


Martha Á. Hjálmarsdóttir.



F.h. Kennarasambands Íslands,


Eiríkur Jónsson.





Fylgiskjal IV.


Umsögn Félags frjálslyndra hagfræðinema.


(25. apríl 1997.)



    Félag frjálslyndra hagfræðinema óskar eftir því að nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis verði kynnt sú undirskriftasöfnun sem félagið stóð fyrir meðal hagfræðinema við Háskóla Íslands þar sem svokölluðu lífeyrissjóðafrumvarpi er andmælt. Andmælunum hefur verið komið á framfæri við fjármálaráðherra Friðrik Sophusson.

Virðingarfyllst f.h. FFH,



Magnús Þór Gylfason.





Fskj.

Ályktun Félags frjálslyndra hagfræðinga.


(23. apríl 1997.)



    Við undirritaðir, hagfræðinemar við Háskóla Íslands, andmælum áformum ríkisstjórnarinnar um frelsisskerðingu í lífeyrissparnaði Íslendinga. Með frumvarpi til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er ríkisstjórnin að ganga á bak orða sinna. Hætta er á að lögin dragi úr mögulegri samkeppni milli lífeyrissjóða og skapi óvissu og óstöðugleika á ungum fjármagnsmarkaði. Með frumvarpinu teljum við hagsmuni ungs fólks fyrir borð borna og hvetjum ráðherra til að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu til þess að stuðla að valfralsi og samkeppni á lífeyrismarkaðinum.



Fylgiskjal V.


Umsögn Landssambands lífeyrissjóða.


(29. apríl 1997.)



(5 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands lífeyrissjóða,



Þorgeir Eyjólfsson formaður.




Fylgiskjal VI.


Umsögn Lífeyrissjóðs Tæknifræðingafélags Íslands.


(29. apríl 1997.)



(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. stjórnar LTFÍ,



Bergsteinn Gunnarsson, formaður,


Páll Á. Pálsson, varaformaður.




Fskj 1.

Tillaga um sameiningu Lífeyrissjóðs arkitekta og


Lífeyrissjóðs Tæknifræðingafélags Íslands.


(Febrúar 1997.)



(10 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Fskj. 2.

Drög að reglugerð Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga.


(21. mars 1997.)



(16 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Fylgiskjal VII.

Umsögn Sambands almennra lífeyrissjóða.


(29. apríl 1997.)



    Samband almennra lífeyrissjóða hefur yfirfarið frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Tekið er undir nauðsyn þess að sett verið heildstæð löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða. Þá tekur SAL heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð frumvarpsins „að með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 1969 hafi tekist að byggja upp lífeyriskerfi á Íslandi sem jafnast á við það besta í heiminum“ og „að ýmsar þjóðir séru nú í óðaönn að breyta lífeyriskerfum í hátt við það sem Íslendingar búa við“.
    Það skýtur því nokkuð skökku við að frumvarp þetta skuli hafa verið samið án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins er byggt hafa upp framúrskarandi lífeyriskerfi sem tryggir öllum ævilangan lífeyri, auk örorku- og fjölskyldulífeyris. Samband almennra lífeyrissjóða telur þess vegna að ekki komi til greina að hróflað verði við þeirri skylduaðild sem nú er að lífeyrissjóðum, þ.e. að lífeyristryggingar séu tengdar starfi, þannig að skýrt sé hvaða lífeyrissjóður ber ábyrgð á lífeyristryggingum viðkomandi starfsgreinar. Þetta fyrirkomulag hefur reynst okkur Íslendingum vel og verið talið til fyrirmyndar meðal annarra þjóða.
    Jafnframt telur SAL að óhjákvæmilegt sé að lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði fái heimildir til að taka við viðbótariðgjaldi til séreignardeilda, ekki síst þar sem rekstrarkostnaður sameignarsjóða er mjög lágur og langtum lægri en rekstur banka, tryggingafélaga og verðbréfafyrirtækja sem ein eiga að fá slíkar heimildir ef frumvarpið nær fram að ganga í óbreyttri mynd.
    Tekið er undir þau sjónarmið að í lögum um starfsemi lífeyrissjóða séu ákvæði um lágmarkstryggingarvernd en sambandsstjórnin telur þó að þau ákvæði séu ekki nógu ítarleg í fyrirliggjandi frumvarpi. Nauðsynlegt er að saman fari skylda starfandi manna til að tryggja sér lífeyrisréttindi og skylda viðkomandi lífeyrissjóða til að greiða lágmarkslífeyri.
    Samband almennra lífeyrissjóða telur nauðsynlegt að almennur lagarammi verði settur á yfirstandandi þingi um íslenska lífeyrissjóðakerfið og er sambandið tilbúið að leggja sitt af mörkum í samráði við stjórnvöld og hagsmunasamtök aðila vinnumarkaðarins til þess að svo megi verða. Að leiðarljósi verður þá að viðurkenna þá staðreynd í verki að við Íslendingar búum við gott lífeyriskerfi sem byggir á skylduaðild, sjóðsöfnun og samtryggingu sjóðfélaganna og að ekki komi til greina að raska þessum grundvallarþáttum íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
    Samband almennra lífeyrissjóða er þjónustustofnun og málsvari þeirra lífeyrissjóða sem eru á samningssviði heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna tekur SAL undir öll þau meginsjónarmið sem fram koma í sameiginlegri umsögn Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um umrætt frumvarp.

Með bestu kveðjum,


Samband almennra lífeyrissjóða,



Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri SAL.



Fylgiskjal VIII.


Umsögn Sambands íslenskra tryggingafélaga.


(30. apríl 1997.)



(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Með vinsemd og virðingu,


Samband íslenskra tryggingafélaga,



Ólafur B. Thors, formaður,


Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri.





Fylgiskjal IX.


Umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka.


(29. apríl 1997.)




(4 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,



Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri.






Fylgiskjal X.


Umsögn Samtaka áhugafólks um lífeyrissparnað.


(28. apríl 1997.)



(7 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Virðingarfyllst,



Baldur Guðlaugsson, stj.form.


Guðmundur Snorrason.


Sigurður R. Helgason.


Vigdís Hauksdóttir.


Sigurgísli Ingimarsson.


Bjarni Þórður Bjarnason.


Áslaug Magnúsdóttir.





Fskj.

Ályktun stofnfundar Samtaka áhugafólks um lífeyrissparnað.


(17. apríl 1997.)



(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)





Fylgiskjal XI.


Umsögn Samtaka verðbréfafyrirtækja.


(29. apríl 1997.)



    Vísað er til bréfs yðar frá 21. apríl 1997 þar sem óskað er eftir umsögn Samtaka verðbréfafyrirtækja (SV) um frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (530. mál).
    Samtökin taka heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Samtaka áhugafólks um lífeyrissparnað um frumvarpið og mæla því eindregið gegn því að frumvarpið verði afgreitt í óbreyttri mynd.

Virðingarfyllst,



Gunnar Helgi Hálfdanarson, varaformaður.



Fylgiskjal XII.


Umsögn Samtaka verðbréfafyrirtækja.


(7. maí 1997.)



(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Virðingarfyllst,



Gunnar Helgi Hálfdanarson,


varaformaður stjórnar.





Fylgiskjal XIII.


Umsögn Seðlabanka Íslands.


(25. apríl 1997.)



(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


Seðlabanki Íslands,



Birgir Ísleifur Gunnarsson,


Eiríkur Guðnason.





Fylgiskjal XIV.


Umsögn Vátryggingaeftirlitsins.


(29. apríl 1997.)



    Vátryggingaeftirlitið telur rétt að sett verði löggjöf um þetta efni en hefur margt við fyrirliggjandi frumvarp að athuga og telur varasamt að samþykkja það óbreytt.
    Ekki virðist hafa verið gætt vátryggingalegra sjómarmiða í nægilegum mæli við samningu frumvarpsins. Á það m.a. við um bótarétt, réttindi sjóðfélaga og rétthafa við breytingar á smþykktum og sameiningu lífeyrissjóða, forsendur um áhættu varðandi örorku og andlát, ákvæði um samþykktir sjóðanna, eftirlitshætti og hvaða stjórnvöld hafa eftirlitið með höndum.
    Ekki var nægilegur tími til stefnu til þess að unnt væri að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins til hlítar, hvað þá að orða athugasemdir Vátryggingaeftirlitsins sem breytingartillögur. Fulltrúar eftrilitsins hafa verið boðaðir á fund nefndarinnar á morgun og munu fyrir þann tíma setja ofangreindar athugasemdir fram nánar eftir því sem aðstæður leyfa.

Virðingarfyllst,


Vátryggingaeftirlitið,



Helgi Þórsson.





Fylgiskjal XV.

Umsögn Vátryggingaeftirlitsins.


(2. maí 1997.)




(5 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


Vátryggingaeftirlitið,



Rúnar Guðmundsson skrifstofustjóri.






Fylgiskjal XVI.


Umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur.


(30. apríl 1997.)



    Eftirfarandi tillaga var einróma samþykkt á aðalfundi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur sem haldinn var 21. þ.m.:
    „Aðalfundur Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, haldinn á Grand Hótel, mánudaginn 21. apríl 1997, treystir því að Alþingi, í lagasetningum um lífeyrismál, tryggi áfram sem hingað til stöðu lífeyrissjóða sem byggðir eru upp á samtryggingu sjóðfélaga án skerðingar á greiðslu iðgjalda. Jafnframt verði lífeyrissjóðum heimilað að taka við viðbótariðgjöldum þar sem sjóðfélagar geta sjálfir ákveðið hvort viðbótariðgjald sé nýtt til aukinna lífeyrisréttinda á grundvelli samtryggingar eða lúti ákvæðum laga um séreign á sviði lífeyrissparnaðar.“

Virðingarfyllst,


f.h. Verzlunarmannafélags Reykjavíkur,



Magnús L. Sveinsson, formaður.






Fylgiskjal XVII.


Umsögn Verslunarráðs Íslands.


(28. apríl 1997.)



(15 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)



Virðingarfyllst,


f.h. Verslunarráðs Íslands,



Jónas Fr. Jónsson hdl.,


aðstoðarframkvæmdastjóri,



Birgir Ármannsson,


lögfræðingur Verslunarráðs.





Fylgiskjal XVIII.


Umsögn Vinnumálasambandsins.


(30. apríl 1997.)



(6 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




F.h. Vinnumálasambandsins,



Jóngeir H. Hlinason.





Fylgiskjal IX.


Bréf fjármálaráðherra til nefndarinnar.


(11. maí 1997.)




    Í bréfi til forsætisráðherra, dagsett 9. maí sl., beina ASÍ og VSÍ þeirri ósk til ríkisstjórnarinnar að frumvarp hennar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi en áfram verði unnið að málinu í sumar og frumvarpið afgreitt á haustþinginu.
    Ósk aðila vinnumarkaðarins byggist á því að samtökin telja sig þurfa nokkurn tíma til þess annars vegar að skoða tryggingafræðilegan grundvöll áformaðra breytinga og hins vegar „til að afla stuðnings meðal aðildarfélaga sinna og innan lífeyrissjóðanna um aukinn sveigjanleika, t.d. á borð við það sem rætt hefur verið undanfarna daga“.
    Efnahags- og viðskiptanefnd og fjármálaráðuneytið hafa að undanförnu unnið að breytingum á frumvarpinu til að brúa bil milli ólíkra sjónarmiða. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur í framhaldi af því lagt til breytingar á frumvarpinu.
    Ríkisstjórnin telur eðlilegt að nefndin afgreiði málið þannig að tillögur liggi fyrir með formlegum hætti. Í framhaldi af því verði frumvarpinu breytt samkvæmt tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og lagt þannig fyrir starfshóp sem fjármálaráðherra mun skipa með þátttöku hagsmunaaðila. Hópurinn mun í samráði við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fjalla um málið í sumar og skila niðurstöðum sínum fyrir miðjan september. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram í þingbyrjun og afgreitt fyrir næstu áramót.

Friðrik Sophusson.