Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 262 . mál.


1347. Frumvarp til laga



um Ríkisendurskoðun.

(Eftir 2. umr., 16. maí.)



1. gr.

    Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis. Hún skal endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins, sbr. 43. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 33/1944. Þá getur hún framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun skv. 9. gr. þessara laga. Enn fremur skal hún annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.

2. gr.

    Forsætisnefnd Alþingis ræður forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi. Ríkisendurskoðandi skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Launakjör hans skulu ákveðin af Kjaradómi. Hann ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar. Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsætisnefnd Alþingis getur, að fengnu samþykki Alþingis, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.

3. gr.

    Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.
    Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.

4. gr.

    Ríkisendurskoðun er heimilt að fela löggiltum endurskoðendum eða öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni eru falin í lögum þessum eða öðrum lögum.

5. gr.

    Reikningar Ríkisendurskoðunar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem tilnefndur er af forsætisnefnd Alþingis.
    Reikningsskil Ríkisendurskoðunar skulu birt í ríkisreikningi.

6. gr.

    Ríkisendurskoðun skal annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila þar sem kostnaður eða reikningslegt tap er greitt af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eða af öðrum tekjum samkvæmt sérstökum lögum.
    Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga stofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira. Eigi ríkissjóður helmings hlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði, þar sem endurskoðandi er kosinn á aðalfundi, skal gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess aðila. Jafnframt skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga vegna samninga um rekstrarverkefni sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila og fela í sér að þeir annist lögboðna þjónustu er ríkissjóði ber að greiða fyrir.
    Ríkisendurskoðun er heimilt að taka gjald fyrir fjárhagsendurskoðun á ársreikningum ríkisaðila sem um ræðir í 2. mgr. er nemi þeim kostnaði sem af endurskoðuninni hlýst.

7. gr.

    Ríkisendurskoðun getur krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu og ber þeim þá skylda til að afhenda Ríkisendurskoðun umbeðin gögn. Þá er Ríkisendurskoðun heimill aðgangur að og skoðun á frumgögnum eða skýrslum sem færðar eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu eða þjónustu, sem greiðsluskyld er að öllu leyti eða að verulegum hluta úr ríkissjóði á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög eða stofnanir, til að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs.
    Ríkisendurskoðun getur rannsakað reikningsskil sveitarfélaga að því leyti sem þau varða sameiginlega starfsemi ríkisins og sveitarfélaga. Enn fremur getur hún rannsakað reikningsskil þeirra stofnana og félaga sem ríkissjóður á hlut í.
    Nú verður ágreiningur um skoðunarheimild Ríkisendurskoðunar samkvæmt þessari grein og getur þá Ríkisendurskoðun leitað úrskurðar héraðsdóms um hann.

8. gr.

    Fjárhagsendurskoðun skal samkvæmt góðri endurskoðunarvenju á hverjum tíma einkum miða að eftirfarandi:
    Að reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góða reikningsskilavenju.
    Að kanna innra eftirlit og hvort það tryggir viðunandi árangur.
    Að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og samninga um rekstrarverkefni þar sem það á við.
    Að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfsemi stofnana birtist þær með ársreikningi.

9. gr.

    Ríkisendurskoðun getur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem um ræðir í 6. gr. Enn fremur getur Ríkisendurskoðun gert stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira, þó að öðrum sé að lögum falin fjárhagsendurskoðun þeirra. Þá getur Ríkisendurskoðun framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi eða þjónustu sem ríkinu ber að greiða fyrir en sveitarfélög eða einkaaðilar annast samkvæmt sérstökum samningum við ríkið. Stjórnsýsluendurskoðun felst í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi.
    Ríkisendurskoðun er heimilt að kalla eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé og meta hvort þau hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Þá getur hún kannað hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.
    Ríkisendurskoðun skal gera hlutaðeigandi stjórnvöldum grein fyrir niðurstöðum sínum í könnunum samkvæmt þessari grein, vekja athygli þeirra á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda þeim á þau atriði sem hún telur að athuga þurfi með tilliti til úrbóta.

10. gr.

    Í störfum sínum skv. 6. og 9. gr. hefur Ríkisendurskoðun aðgang að öllum gögnum sem máli skipta, þar á meðal fylgiskjölum, skýrslum, bókum og bréfum. Þá getur Ríkisendurskoðun krafist upplýsinga og gagna sem geta haft þýðingu við störf hennar skv. 7. gr.
    Ríkisendurskoðun ákveður hvar og hvenær endurskoðað er. Þegar ákveðið er að endurskoðun fari fram í skrifstofu stofnunar eða ríkisfyrirtækis er þeirri stofnun skylt að veita alla nauðsynlega aðstöðu til að unnt sé að endurskoða þar.
    Ríkisendurskoðun getur kveðið á um hæfilegan frest þeim til handa sem standa eiga skil á gögnum til endurskoðunar, svo og frest til þess að svara athugasemdum sem gerðar hafa verið við bókhald, fjárvörslu og rekstur.

11. gr.

    Nú ákveður Ríkisendurskoðun að beita skoðunarheimildum skv. 7. og 9. gr. og skal stofnunin þá gera fjárlaganefnd og þeim þingnefndum, sem viðkomandi málaflokkur fellur undir, grein fyrir niðurstöðum sínum. Þingnefndir geta samkvæmt nánari reglum sem forsætisnefnd setur og haft frumkvæði að athugunum samkvæmt þessum lagaákvæðum.

12. gr.

    Árlega skal samin heildarskýrsla um störf Ríkisendurskoðunar á liðnu almanaksári. Skal hún lögð fyrir Alþingi.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997 og um leið falla úr gildi lög nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun, með síðari breytingum.