Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:40:31 (3481)

1998-02-05 14:40:31# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:40]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri spurninguna hvort hæstv. félmrh. hafi kynnt þá breytingu í þingflokki framsóknarmanna, sem var flutt áðan eftir að hæstv. forsrh. talaði, þá svara ég því neitandi. Sú breyting var ekki kynnt í þingflokki okkar. Við vorum með fund í þingflokknum í gær en ég heyrði þessa breytingu fyrst áðan í þingsölum og hef ekki kynnt mér hana nákvæmlega. Hún er talsvert löng í texta þannig að það er eitthvað sem verður skoðað í félmn. þangað sem hæstv. félmrh. er að beina breytingunni.

Varðandi fyrirvara framsóknarmanna við sveitarfélagafrv., þá kom fram fyrirvari hjá nokkrum þingmönnum þegar það frv. var fyrst flutt inn í þingflokkinn, ég man ekki dagsetningarnar á því núna. Ég get kannski ekki nafngreint þá alveg alla en hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson bókuðu fyrirvara og hugsanlega einn þingmaður í viðbót. Ég skal ekki alveg segja. Ég hef ekki lesið fundargerðabækurnar svo vel. En ég kom því skýrt á framfæri að ég styð sjálf ekki þá grein þar sem segir að allt landið eigi að skiptast inn í innsta punkt á milli sveitarfélaganna. Ég get ekki stutt þá hugmyndafræði sem felst í þeirri grein. Ég tel miðhálendið vera þess eðlis að það eigi ekki að skiptast milli sveitarfélaganna heldur vera eitt stjórnsýslusvæði þar sem skipulags- og byggingarmál verða undir einum hatti.