Atvinnuleysi kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:26:25 (3663)

1998-02-11 14:26:25# 122. lþ. 64.2 fundur 411. mál: #A atvinnuleysi kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi reynt að gera sitt besta til að svara þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Engu að síður tel ég þessi svör alls ekki fullnægjandi. Ég get ekki tekið það sem fullnægjandi skýringu á atvinnuleysi kvenna sem er tvöfalt meira en hjá körlum og sums staðar þrisvar sinnum meira, að ástæðunnar sé eingöngu að leita í því að konur séu meira í hlutastörfum en karlar þó að vissulega geti það verið ein skýring á málinu. Ég get heldur ekki trúað því að atvinnuleysi í Norðurl. v. sé sérstaklega vegna hráefnisskorts. Af hverju bara í Norðurl. v.? Hlýtur það þá ekki að vera víðar ef rekja má þetta til hráefnisskorts?

Ég held, herra forseti, að skýringin á þessu sé kannski miklu víðtækari en hér er verið að tala um og miklu alvarlegri og það kallar raunverulega á að þessi mál verði skoðuð miklu betur en hér hefur verið gert og því þurfi reyndar að grípa til sérstakra aðgerða vegna þess að atvinnuleysi hjá konum hefur verið, eins og ráðherra nefndi, miklu meira en karla frá árinu 1993 og allt til dagsins í dag. Ég held að hagræðing og sameining í fyrirtækjunum sem er af hinu góða, hafi miklu meira bitnað á konum en körlum. Ég held að þenslan sem hefur verið á vinnumarkaðnum á undanförnum mánuðum og árum sé fyrst og fremst í mannvirkjagerð þar sem karlar fá frekar vinnu heldur en konur, í stóriðjuframkvæmdum o.s.frv. Ég held að skýringarinnar sé líka að leita í að tæknibreytingar og tæknibylting hafi meira bitnað á konum en körlum. Ég held því að að grípa þurfi til mjög víðtækra aðgerða. Einn liður í því væri t.d. starfsmenntunin. Þurfum við ekki að skoða hvort þetta hafi sérstaklega bitnað á ófaglærðu fólki o.s.frv.?

En það eru tvær aðrar fyrirspurnir hér á dagskrá þar sem ég get komið inn á þetta mál. En mér finnst svör ráðherrans ekki fullnægjandi þó að hann hafi af bestu getu reynt að svara þessum fyrirspurnum.