Bygging tónlistarhúss

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:32:20 (3685)

1998-02-11 15:32:20# 122. lþ. 64.8 fundur 431. mál: #A bygging tónlistarhúss# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég heyri að það er verið að leggja töluvert mikla vinnu í allan þann undirbúning sem auðvitað þarf að vera til staðar til þess að hægt sé að taka endanlega ákvörðun. Þetta mál hefur verið mjög lengi í umræðunni og dregist mjög á langinn að taka ákvörðun, en það er m.a. vegna þess að ljóst er að þetta hús mun kosta verulegt fjármagn.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að mikil þörf er á því að byggja tónlistarhús. Það er okkur til lítils sóma hvernig búið er að tónlistarfólki í landinu. Ég hygg að Reykjavík sé eina höfuðborgin í allri Evrópu ef ekki heiminum sem á ekki einu sinni lítinn sérhannaðan tónlistarsal. Það er því mjög brýnt að bæta úr og ég vil hvetja hæstv. menntmrh. til þess að beita sér fyrir skjótri ákvörðun um leið og niðurstöður þeirra kannana sem verið er að vinna liggja fyrir.