Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:16:25 (3834)

1998-02-13 14:16:25# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:16]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er fyrst til að taka að hér voru engar órökstuddar gróusögur. Þetta var upplýst á sínum tíma og jafnframt upplýsti Benedikt Gröndal að hann mundi skýra málið betur. Það vita það allir sem eitthvað vita um pólitíska sögu að CIA á sínum tíma --- þá er ég ekki að tala um að þeir peningar komi frá CIA, auðvitað koma peningarnir frá Bandaríkjaþingi í fjárlögum þeirra, CIA býr ekki til peninga --- dreifði peningum til jafnaðarmannaflokka Evrópu, Alþjóðasambands jafnaðarmanna, til þess að sporna gegn kommúnisma í heiminum. Hvers lags söguleg vanþekking er það ef menn þora ekki að viðurkenna þessa staðreynd? Hvað er að ef menn þora ekki að viðurkenna þetta? Það brast ekki kjarkinn hjá dönskum jafnaðarmönnum að viðurkenna að þeir hefðu vitað um kjarnorkuvopnin á Grænlandi, þótt þeir hefðu þagað yfir því lengi. Þetta eru staðreyndir, þetta eru staðreyndir kalda stríðsins, þetta vita allir.

Það vita líka allir að Sovétríkin dældu fé víða út um heimsbyggðina til að byggja upp pólitískt afl. Þeir studdu t.d. Castro á Kúbu. Þetta er vitað svo maður nefni dæmi.

Ég hygg að hv. þm. hafi mismælt sig þegar hann talaði um samvinnuflokkinn, ég hygg hann hafi átt við samvinnuhreyfinguna. Og það er ekkert vafaatriði að samvinnuhreyfingin studdi Framsfl. Hver efast um það að Jónas hafi notið stuðnings samvinnuhreyfingarinnar? Hver efast um það að Sjálfstfl. hafi notið stuðnings stórfyrirtækja á Íslandi, efast nokkur um það? Menn mega ekki koma hér upp og tala eins og þeir viti ekki nokkurn skapaðan hlut um þessi mál.