Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 12:00:02 (4914)

1998-03-19 12:00:02# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[12:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. skyldi ekki treysta sér til að svara spurningu minni en fara með sömu tugguna um skoðanakannanir í Eystrasaltsríkjunum. Ég held það liggi alveg ljóst fyrir eftir umræðuna að hv. þm. ruglar saman hugtökum þannig að það er ekki til þess fallið að skýra umræðuna. Það hvort þetta sé svo skynsamlegt er allt annað mál en það sem ég tók upp. Það hversu mikilvægt er að reyna að virða vilja fólks er einn hlutur á sínum stað en að leggja að jöfnu t.d. rétt íslensku þjóðarinnar í byrjun aldarinnar til að berjast fyrir sjálfstæði sínu og öðlast rétt til að taka ákvarðanir um innri mál, en það er það sem sjálfsákvörðunarréttur felur í sér, og hinu að skipa öryggismálum þjóða sem alltaf hlýtur að vera háð innra samhengi hlutanna, því öryggismál einnar þjóðar gagnvart nágrönnum sínum verða ekki slitin úr samhengi. Við erum að tala um heildarlausnir í öryggismálum Evrópu og þá hanga hlutirnir saman og þá er ekki hægt að nota hugtak eins og innri sjálfsákvörðunarrétt þjóða í því samhengi sem hv. þm. gerði hér.