Umferðarstjórn lögreglunnar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:34:42 (5417)

1998-04-06 16:34:42# 122. lþ. 102.5 fundur 637. mál: #A umferðarstjórn lögreglunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:34]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna athugasemda hv. 8. þm. Reykv. vil ég minna á það mat lögreglustjórans í Reykjavík að sú nýbreytni að fela almennu deild lögreglunnar að takast einnig á við þessi verkefni hefur skilað mjög umtalsverðum árangri í virkari umferðarstjórn og fleiri sektum en nokkru sinni áður. Út frá þeim markmiðum sem við erum að vinna að á grundvelli umferðaröryggisáætlunarinnar sýnist mér að augljóst sé að lögreglan hafi náð meiri árangri í þessu efni. Reyndar er stefnan sú í öðrum viðfangsefnum að lögreglan í heild takist á við þau en dregið verði úr hólfaskiptingu varðandi afmarkaða málaflokka. Þetta helst einnig í hendur við þá stefnumörkun að koma löggæslunni hér í Reykjavík meira út í hverfi borgarinnar. Menn verða að horfa á þróunina í ljósi þessarar nýbreytni og í ljósi þeirrar heildarstefnumörkunar sem unnið er eftir.