Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:45:30 (5475)

1998-04-14 17:45:30# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:45]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni áðan óskaði ég eftir því að ráðherrann gerði okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem eru um úthlutun 10 prósentanna. Ég vil fá skýrt hvort sá skilningur minn á c-liðnum reynist réttur, að skip sem fær úr 10%-pottinum í ár, verði þetta frv. að lögum, sé á næsta ári komið með rétt til framsals. Talað er um þrjár síðustu vertíðir og ljóst að þau skip sem fá úr 10%-pottinum í ár, þar hafa menn ekki sannað veiðihæfni skipa sinna eins og það var orðað í greinargerð, mega því ekki framselja. Það má ekki framselja nema veiðihæfni skipanna sé fyrir hendi, svo merkilegt sem það virðist.

Ef þeim tekst nú að sanna veiðihæfni skipa sinna, eftir úthlutun úr 10%-pottinum í ár, mega þeir þá framselja það sem þeir fá á næsta ári eða 50% þess?