Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 15:00:28 (5914)

1998-04-29 15:00:28# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist hv. 5. þm. Reykn. ganga bæði í sálgreiningar- og sálgæsluhlutverk með andsvari sínu. Ég tek það allt saman vel og líka mati hennar á málflutningi mínum. Vel má vera að það birtist mönnum með þeim hætti sem hún túlkaði. Ég vil ekki vera að lesa neitt frekar í það.

Ég hef reynt eftir bestu getu það sem ég kalla að halda þræði í sambandi við þessi mál og afskipti mín af þeim á liðnum árum og meta stöðu þeirra út frá sjónarhóli mínum. Mér finnst að þingflokkur jafnaðarmanna ætti miklu fremur, svo að ég leggi ráðin í það góða hús, að halda til haga þætti sínum að því að koma af stað og leggja grunn að þeirri skipulagsvinnu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem ráðherrar flokksins og þingmenn studdu þá og ruddu brautina fyrir frekar en að setja málið inn í allt annað samhengi og draga upp allt aðra mynd af ferli málsins en það hefur raunverulega verið.

Ekki var meining mín á neinn hátt að tala niðrandi til hv. 12. þm. Reykn. og ég taldi mig ekki vera að því. Ég túlkaði aðeins það sem ég las út úr svari þingmannsins og voru í rauninni endurtekin orð í aðalatriðum sem fram komu í andsvari, viðbrögðum í andsvari við umræðunni fyrir tveimur tímum eða svo. Ég tel mig ekki hafa verið að búa þar til neina túlkun.