Virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:43:30 (6167)

1998-05-04 13:43:30# 122. lþ. 116.16 fundur 677. mál: #A virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil gjarnan vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að handverksfólki finnst því vera mismunað gagnvart t.d. þeim sem búa til höggmyndir eða önnur myndverk sem undanþegin eru virðisaukaskatti og jafnframt bendir handverksfólk á að ákveðin mismunun sé í gangi innan hópsins. Þannig þurfi þeir sem eru launamenn eða hafa ekki atvinnutekjur ekki að greiða virðisaukaskatt af þeim fyrstu ríflega 200 þús. kr. sem þeir fá fyrir sitt handverk á meðan t.d. bændur þurfa að greiða virðisaukaskatt af allri sinni framleiðslu. Þar er ákveðin mismunun í gangi.

Ég skora því á hæstv. fjmrh. að skoða þessi atriði ögn betur með það að leiðarljósi að lögunum verði breytt svo að þessari mismunun gagnvart handverksfólkinu verði eytt.