Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:19:00 (6276)

1998-05-07 14:19:00# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir skilmerkilega ræðu og jafnframt nefna það sem liggur fyrir í þskj. að þingflokkur Alþb. og óháðra stendur að tillögu um að vísa frv. frá. Í því markast afstaða okkar eins og málið liggur nú fyrir.

Það voru viss atriði í ræðu hv. þm. sem ég vildi fá skýrar og þá fyrst af öllu viðhorfið til þeirrar tillögu að svæðisskipulagi sem liggur fyrir og verið er að vinna úr athugasemdum við. Mér fannst ekki skýrt í máli hv. þm. hvort þingmaðurinn styddi það að þetta svæðisskipulag yrði leitt til lykta eins og gert er ráð fyrir, þ.e. á komandi vetri. Ég hef látið það koma fram í máli mínu að ég tel afar mikilvægt að ekki verði brugðið fæti fyrir að það mál verði til lykta leitt.

Vissulega eru álitaefnin þar mörg ef menn fara ofan í saumana og þau verða það alltaf í sambandi við skipulag en ég teldi það mikla áhættu ef menn brygðu fæti fyrir að þetta svæðisskipulag fengi staðfestingu. Þess vegna tel ég þýðingarmikið að það komi fram hvort hv. þm. styður að svo verði eða ekki.

Ég hef ugg í brjósti vegna þeirrar gagnsóknar gegn þessu skipulagi sem kemur sérstaklega frá orkuiðnaðinum í landinu sem við köllum stundum svo, orkufyrirtækjum og þeim sem vilja ganga hvað hraðast fram í að binda orkulindir okkar í stóriðju.

Það eru fleiri þættir sem væri hægt að koma að og ég nefni kannski á eftir, virðulegur forseti.