Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 14:27:33 (6346)

1998-05-08 14:27:33# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta er tillaga um að miðhálendinu verði skipt upp í 42 ræmur á milli þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu. Um hverja þessara 42 ræma mun síðan gilda sérstakt aðalskipulag sem taka mun mið af hagsmunum hvers þeirra um sig. Ráðherrar hafa reynt að réttlæta þessa gjörð með því að benda á að svæðisskipulag muni líka gilda um hálendið. En svæðisskipulag hefur hins vegar enga stjórnsýsluhafa á bak við sig og er þannig mun veikara en aðalskipulag sveitarfélaga. Þess vegna lögðum við jafnaðarmenn til að miðhálendið verði sérstök stjórnsýslueining. Það hefur nú verið fellt.

Ótti mjög margra við að þetta fyrirkomulag verði til alvarlegra vandræða við skipulag og nýtingu hálendisins er því eðlilegur sem og ótti við það að almannaréttur verði ekki virtur. Ég er sammála þeim stóra hópi fólks sem telur að þessi mál þurfi að ígrunda mun betur og til þess þurfi að fresta málinu. Ég greiði því atkvæði gegn þessari grein.