Ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:48:28 (6477)

1998-05-12 10:48:28# 122. lþ. 125.92 fundur 376#B ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd# (aths. um störf þingsins), Forseti StB
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um störf þingsins og það vinnuálag sem hér er og hefur verið og er venjulegt í lok þingtímans þá vill forseti segja það að auðvitað þurfa störf þingsins að vera markviss og vel skipulögð, og það er mikið undir því komið að allir leggist á eitt um það. Það vill forseti undirstrika alveg sérstaklega.

Hvað varðar hvíldartíma þá leggur stjórn þingsins ríka áherslu á að skipuleggja störfin þannig að starfsfólk þingsins fái þann hvíldartíma sem kveðið er á um í lögum og reglum. Forseti hefur ekki heyrt eða orðið var við að nokkur kvörtun hafi komið frá starfsfólki þingsins öðru en þingmönnum. Það starf er því skipulagt þannig að engar athugasemdir eru gerðar um það.

Hins vegar á forseti ekki mjög auðvelt um vik hvað varðar vinnutíma þingmanna vegna þess að eins og allir þekkja og vita, og ekki síst þingmenn, þá eru störf þingmanna víðar en í þingsalnum og erfitt fyrir stjórn þingsins að átta sig á því nákvæmlega hvenær eru komin einhver mörk á vinnutíma þingmanna. Þar er ekki auðvelt verk að vinna. En forseti leggur á það áherslu að reyna að ná samkomulagi við hv. þingmenn um að vinnuálag hér sé hóflegt.

Um fund sem boðaður var í morgun í hv. félmn. þá var það ekki í samvinnu við forseta að sá fundur var settur á og hefði verið eðlilegt að þeir hv. þingmenn sem kvörtuðu undan hinum fyrirhugaða fundi kæmu þeim boðum ekki síður en aðrir til formanns nefndarinnar sem hefði þá væntanlega brugðist við þeim athugasemdum. Það er ekki hlutverk forseta þingsins að afboða nefndafundi.

Forseti leggur áherslu á að eiga gott samstarf við formenn nefndanna og það vill forseti undirstrika og árétta alveg sérstaklega.