Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 17:50:39 (6508)

1998-05-12 17:50:39# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[17:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er mjög erfitt að nýta tímann hér til skoðanaskipta þegar haldið er á málum með þeim hætti sem hér er gert af hv. talsmanni meiri hluta iðnn. Það verður ekki vart við viðleitni til þess að bregðast við spurningum sem fyrir eru lagðar um grundvallarefni. (StG: Er málið ekki á dagskrá þingsins? Erum við ekki að ræða málið?) Hins vegar kemur hv. þm. hér upp og nýtir sér andsvararéttinn sem er auðvitað gott og gilt og kærkomið en til einhverra allt annarra útlegginga en varða málið og nýtir andsvararétt sinn til þess, virðulegur forseti, að flytja þakkarávörp um aðrar ræður, sem er einnig vafalaust verðskuldað og ágætt, og beina orðum sínum til annarra en þess sem verður tilefni andsvara. Það er afar erfitt, virðulegur forseti, að átta sig á því hvers vegna talsmenn þessa þýðingarmikla máls bregðast við með þeim hætti --- ég vil ekki nota orðið útúrsnúningar --- en það er þó nærri því að það orð falli í þessum umræðum eftir að hafa hlýtt á þessi furðulegu andsvör af hálfu hv. framsögumanns meiri hluta iðnn.