Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:01:05 (6627)

1998-05-15 20:01:05# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:01]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið samdóma álit allra þeirra sem hafa komið að þessu að á þeim reglum sem við höfum búið við í félagslega húsnæðiskerfinu þyrfti að taka alveg sérstaklega. En það sem ég var að vekja athygli á með upptalningu á þessum íbúðum --- vegna þess að þetta er tæmandi upptalning á öllum íbúðum í einu sveitarfélagi og ég veit að vandamálin eru sambærileg hjá mjög mörgum sveitarfélögum vítt um landsbyggðina --- er að ég tel að í frv. sé ekki tekið á þessum vanda og í raun hafi félmn. kannski ekki skoðað málið nákvæmlega út frá þessu, þ.e. að fá frá sveitarfélögunum uppsetningu á kaupleiguíbúðunum, leiguíbúðum og félagslegum eignaríbúðum og þeirri kaupskyldu sem hvílir á sveitarfélögunum, að fá niðurstöðutölurnar og skoða þetta þannig að hægt væri að gera breytingar og taka á öllum þeim þáttum og vandamálum sem blasa þarna við. Ég spyr hæstv. ráðherra enn og aftur á hverjum lenda þessar 30 millj. kr. sem þarna virðist vera mismunur, og meira en 30, það eru líklega yfir 50 millj. sem er mismunurinn á fasteignamati og áhvílandi lánum á þessum íbúðum sem þarna ræðir um.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði um starfsmenn þeirra stofnana sem ég taldi upp að í flestum tilvikum var verið að einkavæða eða setja hf. eða háeffa eins og virðulegur forseti kallar það gjarnan, þær stofnanir og þau fyrirtæki sem ég taldi upp en er eitthvað minni ástæða til að tryggja réttindi starfsmanna hjá stofnun sem heyrir áfram undir ríkið? Ég tel það ekki vera. Það er alveg jafneðlilegt og sjálfsagt að tryggja réttindi starfsmanna ríkisstofnana og þeirra sem verða áfram starfsmenn ríkisins eins og þeirra sem fara inn í þessi einkafyrirtæki.