Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:35:53 (6660)

1998-05-16 15:35:53# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, verk forsrh. er að sitja hér og telja mínúturnar og klukkutímana sem þingmenn þurfa að ræða mikilvæg mál. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að átta sig á því um hvað við erum að fjalla. Hann hefur ekki þurft að segja eitt einasta orð við þessa umræðu um það hvað verður um það fólk sem er sett út á kaldan klakann. Þær hundruð fjölskyldna sem búa ekki við neitt öryggi eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. Hann hefur ekkert við það fólk að segja. Hæstv. forsrh. eyðir sínum fáu mínútum sem hann kemur í ræðustól til að býsnast yfir því að við þurfum mikið að tala um þetta mál.

En hvaða skilaboð hefur forsrh. íslensku þjóðarinnar til þess fólks sem hundruðum saman verður án öryggis í húsnæðismálum þegar frv. hefur verið samþykkt? Það er til skammar, herra forseti, að forsrh. hafi engin skilaboð til þjóðarinnar önnur en að býsnast yfir því að við sem viljum verja málstað þessa fólks höfum eitthvað um það að tala úr ræðustól.

Við höfum vissulega eitthvað um það að segja þegar þessi helmingaskiptastjórn er að fara í enn eina eignatilfærsluna sem hún gerði með gjafakvótanum og er nú að gera varðandi auðlindir í jörðu. Ég harma að svo sé komið fyrir þingræðinu að forsrh. landsins hafi ekkert annað um þau mál að segja en að sitja yfir og telja mínúturnar hjá stjórnarandstöðunni sem liggur mikið á hjarta í þessu máli fyrir hönd þjóðarinnar, fyrir hönd fátæks fólks á Íslandi sem hefur ekki húsaskjól eftir að frv. hefur verið samþykkt. Mér finnst málflutningur forsrh. til skammar, herra forseti.