Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:29:21 (105)

1997-10-07 17:29:21# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:29]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að hv. formaður heilbr.- og trn. fjalli um þetta mál. Fyrst vil ég ræða biðlistana sem hann nefndi. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér, sem út af fyrir sig er kannski svolítið sérstætt að taka til umræðu við 1. umr. fjárlaga, er að það hefur verið látið að því liggja að faglega væri ekki staðið eðlilega að málum á þessum tiltekna spítala og þar skorti verkefni. Ég vildi þess vegna undirstrika mjög rækilega hver afstaða mín til þess máls væri. Að hinu leytinu hef ég aldrei lýst því yfir að ég væri á móti hagræðingu og sparnaði á spítölum úti á landi. Ég hef sagt að ef hægt væri að ná þannig fram sparnaði eðlilega og með sanngirni og án þess að raska skipulagi heilbrigðisþjónustunnar úti á landi þá er ég tilbúinn til að standa að því.

Ég hef beðið eftir því að fá um það tillögur sem sannfæri mig. Ég hef ekki séð þær tillögur sem fylgja fjárlfrv. hvað þetta varðar og ég sagði í ræðu minni að ég vildi skoða þær tillögur. Ég hafna engu fyrir fram. Það er afstaða mín, hv. þm. Ég hafna engu fyrir fram. Ef hægt er að ná sparnaðinum þá er ég tilbúinn til þess.