Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 20:12:31 (138)

1997-10-07 20:12:31# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[20:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þannig er að þeir sem kynna sér framleiðslu á námsefni í raungreinum og stærðfræði á Íslandi átta sig fljótlega á því að það er ekki fjárskortur sem hefur staðið því fyrir þrifum að menn hafi endurskoðað námsefnið. Það eru ýmsir aðrir þættir sem koma þar til álita og er nauðsynlegt fyrir hv. þm. að kynna sér málið betur og kynna sér þær umræður sem farið hafa fram meðal höfunda námsefnisins og sérfræðinga sem að því hafa komið og hvers vegna ekki hefur verið hrundið í framkvæmd útgáfu eða staðið að útgáfu þessa námsefnis. Það eru ýmsir aðrir þættir en skortur á fjármunum sem þar ráða þótt menn kjósi oft að skjóta sér á bak við fjárskort þegar þeir ræða þetta. En ef menn skoða það niður í kjölinn þá munu þeir komast að því að það er ekki einvörðungu fjárskortur sem þar ræður. Við setjum í þetta 5 milljónir núna. Ég vona að það beri árangur og unnt verði að koma út námsefni sem samstaða næst um. En á vegum ráðuneytisins er unnið að námskrárgerð, m.a. í stærðfræði og raungreinum, og þar næst vonandi nauðsynleg samstaða um hvers eðlis þetta efni á að vera. En það hefur verið ágreiningur meðal margra skólamanna um þessa námsefnisgerð og ég held að sá ágreiningur hafi tafið fyrir útgáfunni frekar en fjárskortur. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar þeir ræða þessi mál og láti ekki alltaf eins og það séu aðeins peningarnir sem þarna ráði mestu um. Það eru ýmsir aðrir þættir sem geta komi til álita.

Varðandi fjármögnun á námi á framhaldsskólastigi þá er það svo að menn greiða innritunargjald til að stunda nám í framhaldsskólum, menn greiða hluta af kennslukostnaði í öldungadeildum en fullorðinsfræðslan, lögum samkvæmt, á að standa undir sér sjálf.