Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:01:04 (198)

1997-10-08 19:01:04# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Þetta kallar maður nú, herra forseti, að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Alla vega viðurkennir hv. formaður fjárln. að full ástæða sé til þess að skoða þetta þannig að einhver er sú ástæða. En ég las ekki upp nema þrjár greinar og það er nú ekki erfitt verk fyrir jafnglöggan og þingreyndan mann og formaður fjárln. er að svara þessari einföldu spurningu: Telur hann að þessar þrjár tilvitnuðu greinar sem ég las upp samræmist lögum um fjárreiður ríkisins sem við samþykktum í fyrra? Ég trúi því ekki, herra forseti, að formaður fjárln. hafi ekki getu eða yfirsýn til að svara þeirri spurningu. Nú vill svo til að hæstv. forseti er sami einstaklingur og hv. varaformaður fjárln. og situr nú í forsetastól, ég get því ekki beint spurningum til hans öðruvísi en sem forseta, en ef hann sæti í sæti sínu hér á þinginu, þá mundi ég að fengnum undanfærslum hv. formanns fjárln. spyrja hv. varaformann sömu spurningar. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að varaformaður fjárln. gæti svarað þeirri einföldu spurningu bæði skýrt, stutt og skilmerkilega. Ég held að hann mundi einfaldlega segja já.