Landafundir Íslendinga

Mánudaginn 13. október 1997, kl. 18:00:41 (417)

1997-10-13 18:00:41# 122. lþ. 7.6 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:00]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög merkilegu máli og athyglisverðu og ég vil nota tækifærið og þakka hv. flm. fyrir það. Jafnframt vil ég lýsa stuðningi mínum við þetta mál því ég tel það mjög merkilegt eins og ég segi og varða mjög okkar sögu. Ekki síst í tilefni af komandi aldamótum er tilvalið að ráðast í að halda betur á lofti en verið hefur sögu Leifs Eiríkssonar og að sjálfsögðu tengist því saga okkar sæfara fyrr á öldum sem hv. þingmenn hafa farið yfir hér.

Ég vil einnig nota tækifærið og fagna því frumkvæði sem heimamenn í Dölum hafa sýnt í þessum málum. Það hefur verið rakið af þeim sem hér hafa talað og er þar bæði um að ræða fornleifarannsóknirnar og áformin um að setja á stofn safn til þess að halda þessari sögu á lofti og gefa fólki kost á að kynna sér hana enn betur. Þannig að þáttur Dalamanna í þessu máli er athyglisverður og ber að fagna honum. En að öðru leyti varðandi það svæði í Dölum sem um er að ræða þá er það auðvitað mjög mikilvægt mál fyrir heimamenn að halda á lofti menningarsögu svæðisins og þeim minjum sem henni tengjast og þetta mun að sjálfsögðu styrkja ferðaþjónustu og annað sem Dalamenn eru að byggja upp og mikilvægt í því sambandi.

Herra forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að halda langa ræðu. Ég vil einungis fagna þessari tillögu sem hér er komin fram og tel hana mjög athyglisverða og ég tek undir það sem kemur fram í greinargerð og í tillögunni sjálfri að ég tel eðlilegt að allt verkefnið sem tilgreint er sé á hendi eins aðila. Mér finnst eðlilegt að það sé á hendi forsrn. þannig að ég tek undir það í tillögunni.

En það er er ekki síður fróðlegt að hlusta á þessa umræðu. Hér kom hv. þm. Össur Skarphéðinsson með lærða ræðu um þessi mál og það er mjög athyglisvert að hlýða á slíkan fyrirlestur og við sem erum ekki eins vel inni í sögunni fáum þá tækifæri til að fræðast um sögu sæfaranna. Ég vil að endingu ítreka að ég vona að þessi tillaga fái góðan framgang og ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar að ég tel að það sé eðlilegt að málið fari til meðferðar hjá hv. menntmn.