Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 17:10:31 (659)

1997-10-20 17:10:31# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[17:10]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil þetta nú ekki alveg. Það hefur komið fram að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er einn af áhugamönnum um að tekið sé gjald fyrir norsk-íslensku síldina og hefur meira að segja fengið þriðjungsleiðara í Morgunblaðinu fyrir áhuga sinn á því þar sem þess er sérstaklega getið. En það er eins og hann sé áhugamaður um að síldin verði keypt en ekki að hún verði seld. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þm. og vildi ég biðja hann að skýra það svolítið betur út fyrir mér. Ber að skilja hans málflutning þannig að hann sé fylgjandi því að veiðiheimildir á norsk-íslenska síldarstofninum verði seldar í eitt skipti fyrir öll eða um hvað nákvæmlega er hann að tala? Hver er hans skoðun á því hvernig eigi að framfylgja þeirri stefnu sem hann og Morgunblaðið eru sammála um hvað varðar sölu veiðiheimilda í norsk-íslenska síldarstofninum? Ég vildi gjarnan fá að vita það. Ég gat ekki skilið hans orð öðruvísi áðan en hann væri þeirrar skoðunar að selja bæri þetta í eitt skipti fyrir öll. Er það rétt túlkun á hans skoðun?