Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:56:53 (813)

1997-10-23 16:56:53# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:56]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að biðja hv. þm. Pétur Blöndal að reyna að bregðast við einni athugasemd minni.

Það vill svo til að miðin kringum Ísland eru ein gjöfulustu mið í heimi en þau eru jafnframt eitt hættulegasta hafsvæði heimsins. Þeir menn sem nýta þessa auðlind fyrir þjóðina og gera úr henni verðmæti sem hafa skapað okkur tækifæri til þess að byggja upp okkar samfélag á 20. öld sækja í þessa auðlind á hættulegasta hafsvæði heimsins. Slíkt er ekki gert án fórna. Í mínum huga hafa aðstæðurnar sem þessir menn vinna við alltaf verið eitt af undirstöðuatriðunum á bak við þennan sjómannaafslátt og það skapar stéttinni algera sérstöðu.

Ég hefði viljað spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvað hafi breytt þessari sérstöðu þó að mér sé fullkunnugt um að skipin séu til allrar guðs lukku betur útbúin nú og ekki sé jafnmikið um slys á sjómönnum nú og áður var. Engu að síður er staðeynd að þessir menn sækja í auðlind sem er jafnframt eitt hættulegasta hafsvæði í heimi.