Staða aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:58:02 (855)

1997-11-03 15:58:02# 122. lþ. 17.1 fundur 64#B staða aldraðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:58]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta hæstv. ráðherra aðeins. Það er þannig að 62% af eftirlaunagreiðslum koma úr almannatryggingakerfinu, þ.e. frá Tryggingastofnun ríkisins. Í Evrópu er þetta hlutfall hærra, 88%, þar sem meira kemur hér úr lífeyrissjóðunum. Það skýrir nokkurn mun. Það er vitaskuld rétt. En samt sem áður er sá munur sem ég rakti hér yfir framlög til heilbrigðismála. Aðrar tölur frá OECD staðfesta þennan samanburð. Það er augljóst, herra forseti, að við verjum mun minna af verðmætasköpuninni hérlendis til aldraðra og öryrkja og það sem ég var að spyrja um var hvort ráðherra ætlar að halda áfram á sinni stefnu sem hefur birst í því að þrengja frekar að öldruðum, bæði í gegnum almannatryggingakerfið og heilbrigðisþjónustuna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við getum ekki farið í djúpa umræðu um þau mál hér en þessar tölur eru kynntar af Tryggingastofnun ríkisins og aðrar upplýsingar sem liggja fyrir benda til þess að staða þessa hóps sé mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum.