Starfsmat

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:27:10 (983)

1997-11-05 14:27:10# 122. lþ. 19.4 fundur 190. mál: #A starfsmat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef bundið miklar vonir við þetta starfsmat og geri enn því kynbundinn launamunur er að mínu mati ósæmilegur. En eins og ég hef skilið starfsmatskerfi sveitarfélaganna þá er það ekki sérstaklega með megináherslu á kynhlutleysinu sem var að mínu mati meginverkefni þessa starfsmatskerfis. En þó að ekki sé stuðst beinlínis við starfsmatskerfi sem sveitarfélögin hafa notað í sínu starfsmati þá mun reynsla sveitarfélaganna að sjálfsögðu nýtast við þetta verkefni á vegum ráðuneytisins. Ég vænti þess líka að tilraunaverkefni ráðuneytisins um kynhlutlaust starfsmat ætti að gagnast sveitarfélögunum ef allt fer fram sem horfir.

Þetta er eins og ég sagði áðan afskaplega vandasamt verkefni. Það er reyndar eitt sem ekki hefur komið hér sérstaklega fram í umræðunni enn og það er hve gildur á menntunarþátturinn, skólagönguþátturinn, að vera í starfsmatinu. Um það hafa líka verið nokkuð skiptar skoðanir, ef ég veit rétt, innan hópsins, að háskólamenn leggja að sjálfsögu mjög ríka áherslu á að menntunarþátturinn vegi þungt, sem er ekki nákvæmlega sama viðhorf og hjá sumum öðrum stéttum.

Ég endurtek að ég bind miklar vonir við þetta mál. Mér þykir leiðinlegt að því skuli ekki hafa undið hraðar fram en á því eru skýringar. Ég held að meginatriðið sé að við fáum út úr þessu vitræna niðurstöðu sem við getum byggt á í framtíðinni.