Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:32:53 (1016)

1997-11-05 15:32:53# 122. lþ. 19.9 fundur 214. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki) fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir upplýsingarnar. Ég vona að umræðan sé ekki til þess gerð að spilla góðu skapi hans né heldur ágætri lund hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar enda er málið ekki til þess gert. Það er til þess að leiða hér fram upplýsingar um þörf á því að þrengja umsvif og rekstur fyrirtækja í ákveðinni atvinnugrein.

Það hefur komið í ljós að stærsta fyrirtækið í sjávarútvegi í veltu er fyrirtækið Samherji sem hefur 3,86%. Það er allt og sumt. Það er öll þessi geigvænlega stærð fyrirtækisins og ég bendi mönnum á að það hefur beinlínis verið stefna hjá Íslendingum í mörg ár að reyna að leiða til þess að fyrirtæki styrktu sig í sjávarútvegi og styrktu stöðu sína til þess að sérhæfa sig og stunda þróunarstarf sem er mjög mikilvægt, ekki síst í fiskvinnslunni og til þess þarf verulega burði. Það er einnig segin saga að það vantar verulega framlag sterkra og stórra fyrirtækja í rannsóknarmál og þau gera það ekki öðruvísi en þau hafi til þess fjárhagslega burði.

Ég tek einnig fram að það er ekki rétt að samanburður við sjávarútveginn sé í grundvallaratriðum ólíkur, það er alls ekki rétt. Það getur hver sem er, ef hann hefur fjármagn til þess, keypt skip og hafið útgerð ef hann kaupir kvóta. Engum er bannað að gera það.

Ég tek einnig fram í lokin að ef við lítum svo á að það sé eingöngu umræðan um takmarkaðar auðlindir þá má segja sem svo að nú séu þeir aðilar sem stunda fyrirtækjarekstur á grundvelli þess að kaupa orku til orkufreks iðnaðar, að fylla ákveðinn kvóta útblástursefna þannig að orkufrekur iðnaður lokast því fyrir öðrum mönnum. Aðrir atvinnurekendur geta ekki komist að, það er búið að fylla kvótann. Hvað eru mörg fyrirtæki á þessu sviði? Þau eru tvö.