Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:07:18 (1038)

1997-11-06 12:07:18# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:07]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé hárrétt stefna sem hæstv. utanrrh. var hér að lýsa. Ég held að við getum náð mjög miklum árangri í samvinnu við aðrar þjóðir og fámenni okkar og fámenn utanríkisþjónusta gefi einmitt bestan kost á því, best sé að verja kröftunum þannig að reyna að stuðla að og eiga hlut í sem mestri samvinnu. En málið snýst um það að þá sé ljóst að við leitumst við að marka þá stefnu að beina utanríkisþjónustu okkar sem mest að samvinnu og reynum jafnframt að átta okkur á því hvar eigum við að vera og hvar eigum við ekki að vera.

Ég er í sjálfu sér alveg sátt við það í hverju við tökum þátt og ég get nefnt það, ég hef margvitnað í að ég er nýkomin af þessum EFTA-fundi, en þar voru einmitt fleiri en einn og fleiri en tveir sem viku að því að það væri alveg ótrúlegt hvað Íslendingar væru virkir í öllum þessum stofnunum sem við tökum þátt í. Menn spyrja: Hvernig getur svona lítil þjóð gert þetta? Ég held að þetta sé gott. Við getum beitt okkur. Við erum sem betur fer ein af örfáum þjóðum heims sem með sæmilegri samvisku getur talað máli mannréttinda og friðar og við eigum að beita okkur þar sem allra mest. Ég ítreka og tek undir það að samvinna við aðrar þjóðir er auðvitað besta leiðin til þess.