Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:36:31 (1173)

1997-11-13 11:36:31# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:36]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé aftur ástæðu til að draga fram ákveðna fyrirvara í skýrslunni í sambandi við samgöngumál. Þar segir að færa megi rök fyrir því að það sé lítið áhugavert að skoða hvernig framlög ríkisvaldsins skiptist milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar þar sem framlög til samgöngumála hljóti að gagnast landsmönnum öllum. Þetta kemur fram þegar menn lesa skýrsluna betur. Ég fullyrði að það eru ekki hugmyndir þeirra sem standa að henni á nokkurn handa máta að reyna að kynda undir deilum heldur miklu frekar að draga saman talnaefni sem menn geta síðan skipst á skoðunum út frá. Vitaskuld verðum við að hafa það í huga þegar hv. þm. segir að búsetuþróunin sé óæskileg. Ég veit það ekki. Við erum með frjálsa búsetu hér á landi. Það er áhyggjuefni hve þessir hlutir gerast hratt. Ég hef verulegar áhyggjur af því en bendi á að menntaþátturinn og hin félagslega umgjörð skiptir kannski meira máli en við höfum hingað til talið en atvinnan. Ég held að allir í þessum þingsal, herra forseti, þurfi að endurmeta ýmsa þætti í þessum málum. Þó ég sé ekki sammála öllu um byggðamál vil ég síður en svo stofna til deilna um það efni hvort tilefni sé til þess út frá ræðum manna eða út frá skýrslum eða talnaefni sem liggur fyrir. Það getur ekki verið tilgangur okkar í umræðunni. Ég held að við þurfum sameiginlega að reyna að skiptast málefnalega á skoðunum um þessi mál. Ég veit að hv. þm. er mjög vel fær um það að taka þessa skýrslu eins og þeir sem gerðu hana úr garði ætluðust til þrátt fyrir að vitaskuld megi segja að á sumum stöðum sé ef til vill óvarlega að orði komist, þ.e. ef til vill dregnar ályktanir sem hefði mátt rökstyðja nánar. En ég bið menn samt sem áður að nota það ekki sem tilefni til að setja umræðuna í deilufarveg.