Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:59:16 (1177)

1997-11-13 11:59:16# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. að segja mér og upplýsa þingheim um í hvaða sveitarfélögum menn hafa snúið þróuninni við með því að sameina þau. Er það í sveitarfélögunum á Vestfjörðum? Má ég nefna Vesturbyggð sem sameinuð var í kosningum 1993? Það voru 1.602 á kjörskrá þegar kosningin fór fram. Íbúar eru núna komnir niður fyrir 1.300 á kjörskrá.

[12:00]

Ég gæti nefnt fleiri sveitarfélög sem hafa orðið til vegna sameiningar. Í þeim öllum hefur þróunin ekki breyst. Ég spyr hv. þm. hvaðan trú hans kemur á því að þessi aðgerð hafi þær breytingar að þróunin snúist til betri vegar þegar engin gögn styðja það?

Varðandi þriðja stjórnsýslustigið má vel vera að hv. þm. meti það svo að enginn pólitískur stuðningur sé við það. Það kann að vera rétt. En þetta er eina leiðin og við verðum að búa til pólitískan stuðning um það og við verðum að gera það heima í héraði því að við fáum ekki stuðning við það hér í höfuðborginni. Stjórnmálamenn í Reykjavík eru á móti valddreifingu. Þess vegna eru þeir á móti aðgerðum sem færa vald út í héruðin. Við fáum ekki stuðning héðan. Við verðum að búa hann til heima í héraði.

Hvað varðar laun og tekjur þá vil ég nefna það, af því að þingmaðurinn nefndi Vestfirði, að í Dölum og Reykhólum, Austur-Barðastrandarsýslu, eru tekjur 29% undir landsmeðaltali. Í Vestur-Barðastrandarsýsla eru tekjur 2% yfir landsmeðaltali en sem dæmi eru tekjur af fiskveiðum 20% undir landsmeðaltali. Í Strandasýslu eru tekjur 16% undir landsmeðaltali. Það er aðeins á norðanverðum Vestfjörðum þar sem tekjur hanga í landsmeðaltalinu, eru 12% yfir. Þetta segir það sem ég var að nefna áðan.