Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 18:13:21 (1300)

1997-11-17 18:13:21# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Málflutningur hæstv. forsrh. hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum og einnig það sem hér kom fram þar sem verið er að fjalla um þann grunn sem menn byggja á, þ.e. vísindalega grunn eða niðurstöðu sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefur reynt að leggja mat á þetta. Mér finnst í raun ekki við hæfi að gera það að deiluefni í þessu samhengi. Annaðhvort erum við á þessum grunni eða ekki, þ.e. tökum það fyrir gott og gilt en séum ekki að gera það út af fyrir sig tortryggilegt. Og hæstv. forsrh. hefur hér og áður dregið inn í þetta ýmislegt sem kallað hefur verið heimsendaspá og þess háttar og segir: Það hefur ekkert gengið fram í þessum efnum. Ég vildi mjög gjarnan taka þátt í umræðu við hæstv. forsrh. um þá sýn til mála sem menn hafa dregið upp á síðustu áratugum, m.a. varðandi fólksfjölgun í heiminum og auðlindir o.s.frv. Ég held að það hafi enginn, ekki Rómarklúbburinn 1972 þegar hann gaf út sitt merka rit, verið að spá því að menn yrðu komnir í þrot núna og það væri komið eins og Þórbergur óttaðist, það var 1993 ef ég man rétt sem sprengjan mikla átti að verða eða endalokin eins og hann túlkaði það í bréfi til Láru, sérfræðinga sína á þeim tíma. Það held ég að sé ekki rétt hjá hæstv. forsrh.

Og að blanda saman þeirri stefnu sem Evrópusambandið hefur tekið upp gagnvart aðildarríkjum sínum að beita mismunun þar, þá má út af fyrir sig segja að það sé viss ósamkvæmni í því að hafna sveigjanleika en hafa sveigjanleika innbyrðis. En þeir eru þó í þessu bandalagi og þeir hafa kosið það um leið og þeir hafa þrátt fyrir allt lagt róttækustu tillöguna á borðið (Forseti hringir.) um heildarsamdrátt eftir árið 2000, 2005, 2010. Það er gert, en mismunað vissulega. Það eru engin vísindi, það kemur ekki þessu máli við í vísindalegu samhengi (Forseti hringir.) eins og skilja mátti hæstv. forsrh.

Ég spyr að lokum hæstv. forsrh.: Hvað er það í samningsgrundvellinum og í framlagi íslenskra sendimanna í viðræðum að undanförnu sem segir að það eigi að undanskilja endurnýjanlegar orkulindir Íslendinga? Ég hef ekki lesið það út með skýrum hætti.