Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:17:14 (1346)

1997-11-18 15:17:14# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:17]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir skýr svör. Það er alveg ljóst af þessu að frv. nýtur stuðnings hv. þm. nema hvað varðar 2. gr. Það hefur verið gefið í skyn fyrr í umræðunni og kemur e.t.v. betur fram síðar að hugsanlega eru aðrir þingmenn Sjálfstfl. með sömu áhyggjur varðandi 2. gr.

Ég vil einungis nefna að það var 2. gr. sem var mesta deiluefnið í vor. Hugsanlega er að byrja sambærilegur ágreiningur aftur innan þingsins varðandi þetta frv. Hins vegar er alveg ljóst að frv. var sett í vinnufarveg í sumar að tillögu fjmrh. og náðist samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og fjmrn. varðandi þetta frv. Stjórnarandstaðan hefur lýst því yfir og ég lýsti því sérstaklega yfir í ræðu minni að þarna hefði verið tekið tillit til sjónarmiða verkalýðshreyfingarinnar og okkar og ég heyri alveg að það staðfestir afstaða þingmannsins sem er ósammála mér í grundvallaratriðum gagnvart 2. gr. að það er rétt metið að sjónarmið okkar hafi náð fram að ganga. Það eina sem ég vil segja á þessu stigi málsins er að vekja athygli á að hugsanlega stefnir í sams konar feril og var hér í vor varðandi þetta frv. ef gerð verður atlaga að breytingum. Hins vegar vil ég undirstrika að hv. þm. lýsti því skilmerkilega yfir að hann styddi aðrar greinar frv. og að hann mundi í sjálfu sér ekki hafa frumkvæði að breytingum þó svo að hann mundi ekki styðja þessa tilteknu grein. Ég skildi hann alls ekki svo að hann ætlaði að hafa sig sérstaklega í frammi varðandi breytingar á þessu en ég vek athygli á því að þetta er svolítið svipuð staða og kom upp við 1. umr. um málið í vor.