Kostnaður við löggæslu

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:50:08 (1520)

1997-12-02 13:50:08# 122. lþ. 32.2 fundur 104#B kostnaður við löggæslu# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:50]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir því í gildandi lögum að lögreglustjórar geti innheimt aukakostnað sem verður vegna löggæslu í tengslum við skemmtanir ef löggæsla er meiri en venjulegt er. Vissulega getur falist mismunun í þessu á milli lögregluumdæma þar sem eru margir löggæslumenn og auðvelt að takast á við sérstök viðfangsefni sem koma upp og hinna þar sem eru fáir löggæslumenn og útilokað að takast á við stór verkefni eins og stórar útihátíðir nema með viðbótarlöggæslu. Í þeim tilvikum gera lögin ráð fyrir því að viðkomandi lögreglustjóri geti innheimt greiðslu fyrir löggæslukostnaði hjá þeim sem fyrir skemmtun standa.

Það er ekki vandalaust að gera breytingar hér á. Það hefur verið skoðað með ýmsu móti og mjög mikilvægt að reyna að tryggja samræmda framkvæmd þessara lagaákvæða en útilokað að gera breytingar hér á nema með lögum. En jafnvel þó menn litu til þess þá stöndum við frammi fyrir því að í litlum löggæsluumdæmum verður aldrei hægt að áætla fyrir svo miklum kostnaði sem einstakar útihátíðir geta haft í för með sér.