Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 16:09:49 (1559)

1997-12-02 16:09:49# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:09]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór hér nokkrum orðum um Byggðastofnunarpottinn svokallaða og minnti á að í fyrsta lagi væri úthlutun úr honum sennilega á skjön við laganna hljóðan og í öðru lagi að þessi pottur hefði ekki nýst, þessi kvóti ekki verið nýttur nema að litlum hluta. Hv. þm. Einar Guðfinnsson var þessu ekki sammála í ræðu sinni og taldi að Byggðastofnunarpotturinn hefði gefist vel eins og hann orðaði það. En ég get ekki séð hvernig hann fær þá niðurstöðu meðan fyrir liggur að um það bil 70% af þessari úthlutun, þessum kvóta, voru óveidd í lok fiskveiðiársins. Stærstur hluti þessarar úthlutunar lenti á Vestfjörðum og það kom fram í máli hv. þm. að þorskafli sem landað var úr smábátum hefði aukist um 5.000 tonn á Vestfjörðum á fiskveiðiárinu. Það finnst mér enn ýta undir tilgangsleysi Byggðastofnunarúthlutunarinnar.