Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:14:28 (1674)

1997-12-04 16:14:28# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi rök eru alltaf á sínum stað ef á þarf að halda, þ.e. að vísa til þess að ríkissjóður eigi fáa vini eða það þurfi að passa upp á hag hans og allt í lagi með það. En ég er ekki viss um að allir átti sig á því varðandi það stóra og mikla réttlætismál að stuðningur opinberra aðila við húsnæðisöflun eða húsnæðiskostnað fólks sé á jafnræðisgrunni þannig að leigjendur njóti þar sambærilegs stuðnings og aðrir, hvað það hefur í raun og veru kostað lítið, hvað þessi mikla deila og þræta og þetta skak allt saman hefur snúist um tiltölulega litla fjármuni, a.m.k. úr ríkissjóði. Ég man ekki betur en þetta væri þannig upp sett og hafi verið að þessi tvö ár eða hvað það nú er sem húsaleigubætur hafa verið við lýði, tvö ár eða þrjú, að þak hafi verið á framlagi ríkissjóðs miðað við 200 millj. kr. og sú heimild jafnvel ekki einu sinni fullnýtt þannig að hér hafa ekki verið stórir fjármunir á ferð. Ég held að það sé góð regla fyrir fjmrh. sem vilja ná árangri, eða það kenndi mér hv. þm. Ragnar Arnalds, einn af forsetum þessa þings, að það væri mjög góð regla hjá fjmrh. að passa sérstaklega upp á stóru upphæðirnar ef hann ætlaði að ná árangri í rekstri ríkissjóðs, vera kannski frekar svona örlátari á ýmsa smálega hluti sem kostuðu ekki eins mikið, en vera sérstaklega vel á varðbergi þegar um væri að ræða mjög stórar fjárhæðir og mjög útgjaldafreka málaflokka. Þetta eru auðvitað bara einföld hyggindi. Hér eru ekki á ferðinni þannig fjármunir að þeir eigi mikið erindi inn í þetta stóra heildarsamhengi, afkomu ríkissjóðs, þar sem er þetta mikla réttlætismál að leigjendur fái þennan stuðning. Og ef við t.d. tökum þessi 20% sem ekki hafa fengið hann vegna þess að sveitarfélögin sem þeir búa í hafa ekki greitt húsaleigubætur, þá eru það orðnir svo hverfandi litlir fjármunir að það er hneyksli að menn skuli fara út í þá stjórnskipulegu ófæru sem menn hafa gert í þessu máli vegna svo lítilla fjármuna. Það er ekkert annað en hneyksli.