Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:11:02 (1686)

1997-12-04 18:11:02# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það að hv. síðasti ræðumaður tekur undir það sem fram kom í mínu máli hér áðan að skoða þurfi sérstaklega hvort stór hópur fólks í leiguíbúðum verði verr settur eftir að frv. þetta verður lögfest. Þetta fer, og ég ítreka það, auðvitað allt eftir framkvæmd sveitarfélaganna, hvort sveitarfélögin bæta þessu fólki upp mismun á húsaleigubótum og það sem skilur á milli varðandi raunkostnaðinn. Og mér finnst ekkert óeðlilegt, eins og hv. þm. nefndi hér áðan, að verkalýðshreyfingin skoði hvernig framkvæmdin á þessum þáttum verður vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur auðvitað látið sig kjör lágtekjufólks og fólks í leiguíbúðum miklu varða.

Ég nefndi áðan að um væri að ræða fjórðung þeirra sem nú búa í félagslegum leiguíbúðum sem hugsanlega detti út af því að þeir skríði yfir þessi tekjumörk og nefndi þar að um væri að ræða 1.100 manns. Ég vil nota þetta tækifæri og leiðrétta það. Hér er um að ræða 550 manns en ekki 1.100 manns og tók ég þar með bæði þá sem eru í félagslegum leiguíbúðum sveitarfélaga og eins þá sem fá húsaleigubætur en það eru ríflega 5.600 manns þannig að rétt skal vera rétt í þessu efni. Ef fjórðungur dettur út, það eru tæplega 2.400 leiguíbúðir, þá er um að ræða 550 manns eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi sem missti algerlega alla niðurgreiðslu, bæði að því er varðar niðurgreiðslu á íbúðunum sjálfum og fá ekki húsaleigubætur. En ég ítreka þakklæti minn til síðasta ræðumanns.