Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:00:03 (1702)

1997-12-04 19:00:03# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef húsaleigubætur eru dæmigert nærverkefni, verkefni fyrir sveitarfélög eins og hæstv. félmrh. sagði, hvað þá um vaxtabætur? Og hvers vegna að gera þann greinarmun sem í raun er gerður á milli þeirrar aðstoðar við þá sem eru að afla sér húsnæðis? Ríkið ver yfir 3 milljörðum kr., 3.300 milljónum í vaxtabætur en þegar skattar hafa verið dregnir frá, aðeins rúmlega 200 milljónum í húsaleigubætur. Munurinn á fjárhæðum er mikill en í ofanálag kemur skattaleg mismunun, vaxtabæturnar eru undanþegnar skatti en húsaleigubæturnar ekki. Þetta er nokkuð sem hér hefur verið gagnrýnt en spurning mín er þessi: Hvers vegna á þetta þá ekki allt heima sem nærverkefni? Ég tel að þetta eigi allt að vera á hendi ríkisins.

Meginástæðan fyrir því að ég kom hingað upp er þessi: Hæstv. félmrh. lýsti því yfir áðan að fyrir dyrum stæðu viðræður við sveitarfélögin um þessi mál. Nú hefur komið fram að samspil þessara lagabreytinga og breytinga á húsaleigu hjá ýmsum sveitarfélögum gæti valdið því, þótt ekki sé við þessa lagasmíð sérstaklega að sakast þá ber engu að síður að skýra þessar breytingar í ljósi hennar, að tekjulágt fólk verði fyrir tekjuskerðingu upp á 10--15 þús. kr. á mánuði, þegar allur pakkinn er skoðaður. Þessu hefur verið haldið fram hér. Ef þetta reynist rétt, ætlar þá hæstv. félmrh. að endurskoða þessa lagasmíð í ljósi niðurstöðu þeirra viðræðna sem í hönd fara við Samband íslenskra sveitarfélaga eða þau sveitarfélög sem hann ætlar að ræða við á næstu dögum?