Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:02:34 (1703)

1997-12-04 19:02:34# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst töluverður munur á vaxtabótum og húsaleigubótum. Vaxtabæturnar eru t.d. greiddar eftir á og samkvæmt löngu gerðu skattframtali. Húsaleigubætur eru greiddar jafnóðum. Mér finnst að það sé alls ekki líku saman að jafna --- vaxtabótum og húsaleigubótum. Ég tel reyndar að útgreiðsla vaxtabótanna sé mjög óeðlileg og óheppileg og það ætti að greiða þær með öðrum hætti, a.m.k. að oftar á árinu en einu sinni.

Viðræður við sveitarfélögin standa yfir. Og eins og ég er búinn að margtaka fram þá vænti ég þess að þeim verði lokið innan skamms.

Ég tel að það séu bara ágiskanir, væntanlega og vonandi úr lausu lofti gripnar sem hér hafa komið fram um einhverja verulega tekjuskerðingu. Tekjuskerðing verður a.m.k. ekki hjá tekjulægsta fólkinu og við getum þó huggað okkur við það. Ég ræð að vísu ekki við sveitarfélögin og get ekki gefið þeim fyrirmæli um það að þau skuli leigja á ákveðnu verði. Hér kom fram aldeilis furðuleg kenning um það að leigan væru 20 þús. kr. lægri í Kópavogi en í Reykjavík. Ég hef bæði búið í Kópavogi og Reykjavík og ég varð ekki var við að þessi mikli munur væri á leigufjárhæðum. Ég trúi því bara hreinlega ekki að íbúðir sem kosta 50 þús. kr. á mánuði hér í Reykjavík séu leigðar á 30 þús. kr. hinum megin við Fossvoginn.