Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:45:22 (1771)

1997-12-05 15:45:22# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:45]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er búin að vera sveitarstjórnarmaður í sjö ár eins og fram hefur komið og innihald minnar ræðu var ekki það að ég treysti ekki sveitarfélögunum, alls ekki. Hér er spurt: Hvenær verður sveitarfélag burðugt til þess að sinna skipulags- og byggingarmálum uppi á miðhálendinu? Það er spurningin? Það er ekkert einhlítt svar við því. Ég get ekki nefnt neina íbúatölu. Ég get ekki nefnt neina fjárhagstölu, þ.e. hvað hvert sveitarfélag á að hafa mikla veltu. Ég get ekki svarað því. Það er hins vegar alveg ljóst að það er ekki skynsemi í því að skipta miðhálendinu varðandi skipulags- og byggingarmál upp á milli 40 sveitarfélaga. Það er engin skynsemi að mínu mati á bak við það og þess vegna get ég ekki stutt þá hugmynd óháð því hvað sveitarfélögin eru mörg sem liggja þar að og óháð því hve margir búa þar.