Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:49:01 (1808)

1997-12-05 18:49:01# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mig hafi ekki misminnt. Einn þingmaður, þ.e. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, gerði formlegan fyrirvara og lét færa til bókar. Þrír þingmenn sem hér hafa verið nefndir, hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson (Gripið fram í: Heimskautafari.) sem nú er að nálgast suðurheimskautið --- guð veri með honum á þeirri ferð --- voru með vangaveltur um hvernig réttast væri að skipa þessum málum. En ef ég veit rétt, þá gerðu þeir ekki formlegan fyrirvara eða lögðust gegn framlagningu málsins eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði.