Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:37:58 (1905)

1997-12-09 17:37:58# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki þennan skilning á ákvæðinu, en það þarf auðvitað að vera skýrt. Hv. þm. hefur færi á því í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar að fara yfir það. Viljinn liggur fyrir, hver hann á að vera. Ég tel að ákvæðið sé algerlega skýrt, en sjálfsagt er að fara yfir það og þá gerist það í nefndinni. Það hefur ekkert upp á sig að þrátta um þann skilning hér. Ég býst við að meining okkar sé hins vegar hin sama. Og það er kannski meginatriðið að út úr þessu þingskjali komi það að meining okkar varðandi atriðið sé hin sama og þá verður bara að finna orðalag sem menn geta skilið sæmilega sáttir.

Ég verð að vekja athygli á því varðandi vegáætlunina að fyrir fáeinum mínútum eða svo var verið að finna að því sérstaklega að við værum að ræða vegáætlun á þessu stigi málsins í einhverjum þaula, af formanni Alþfl. hér í þingsalnum. Þetta rekur sig aðeins hvað á annars horn eins og gengur og gerist og vill gerast sérstaklega þegar við erum að ræða bandorm af þessu tagi, þótt hann sé ekki í eins mörgum liðum og bandormar fyrri daga. Ég vil halda því fram að sú vegáætlun, án þess ég ætli að ræða hana sérstaklega, sem hér verður rædd verði það sem menn kalla metnaðarfull vegáætlun. Ég vona að menn geti sannfærst um það þegar hún kemur fram.