Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:45:32 (2594)

1997-12-18 10:45:32# 122. lþ. 47.4 fundur 243. mál: #A landafundir Íslendinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að mikið er óunnið. Ég vil samt geta hluta, því það er tæpt á þeim, sem menn eru komnir af stað með. Það er til að mynda gert ráð fyrir íslenskri kvikmyndaviku í American Film Institute í Kennedy Center. Sigurjón Sighvatsson, vararæðismaður í Los Angeles, sem er í stjórn American Film Institute tekur þetta mál að sér. Það hefur þegar verið rætt við Library of Congress um málþing um Íslendingasögurnar og norræn fræði og í bréfum og skýrslum sendiherrans kemur fram að Library of Congress hefur mikinn áhuga á því að standa að þessu málþingi, svo ég aðeins nefni nokkra þætti sem menn eru þegar farnir að vinna að. Ég taldi ekki rétt að gefa ítarlegar greinargerðir um það núna vegna þess að ekki eru þessir þættir allir frágengnir. Jafnframt er unnið að því að koma upp sérstakri heimasíðu, Iceland's Millennium Homepage og þar er sérstaklega hugað að og unnið að barnafræðslu í tengslum við landafundina og slíka þætti. Þessar og aðrar hugmyndir eru þegar komnar áleiðis.

Menn hafa talað um þátttöku okkar í sýningu um heimsskautið, menn hafa talað um íslenskar málverkasýningar. Það er verið að undirbúa tónlistarviðburði af hálfu Íslands í höfuðborg Bandaríkjanna o.s.frv. þannig að málið er komið á rekspöl.