Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 15 – 15. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Steingrímur J. Sigfússon,


Jón Baldvin Hannibalsson, Kristín Ástgeirsdóttir.

1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða 6 í lögunum, sbr. 34. gr. laga nr. 144/1995, fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.

    Með samþykkt þessa frumvarps taka greiðslur úr almannatryggingakerfinu, þ.e. ellilífeyrir, örorkulífeyrir, tekjutrygging, barnalífeyrir, bætur í fæðingarorlofi, slysatryggingar og sjúkra tryggingar, mið af breytingum sem verða á launum. Ríkisstjórnin afnam þessa viðmiðun við launabreytingar með bráðabirgðaákvæði árið 1995 og ákvað að hækkanir þessara greiðslna kæmu fram á fjárlögum hverju sinni. Fullyrt var að ekki stæði til að nota þessa kerfisbreytingu til að skerða bætur en annað hefur komið á daginn.
    Stjórnarandstæðingar börðust harkalega gegn þessari stefnu ríkisstjórnarinnar, en þing menn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks felldu tillögu stjórnarandstæðinga um að greiðslur úr almannatryggingakerfinu tækju breytingum eins og launahækkanir. Þessi stefna ríkis stjórnarinnar hefur gert það að verkum að eldri borgarar eru varnarlausir fyrir geðþótta ákvörðunum ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Skemmst er að minnast kjarasamninganna frá í vor, þá hækkuðu lægstu laun nokkuð en ríkisstjórnin ákvað að greiðslur almannatrygginga hækkuðu minna en eðlilegt var við þær aðstæður. Eftir mikla gagnrýni eldri borgara og stjórn arandstæðinga og í kjölfar ákvörðunar Kjaradóms um enn meiri hækkun á launum æðstu embættismanna ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga um 2,5%. Það er óþolandi fyrir eldri borgara að þurfa að sæta því að bíða mánuðum saman eftir réttmætum breytingum á ellilífeyri.
    Eldri borgarar hafa barist mjög fyrir hagsmunum sínum og starfa m.a. innan Félags eldri borgara, Landssambands aldraðra og Aðgerðahóps aldraða. Þeir hafa vakið athygli á stöðu sinni en þeim er ekki veitt sú eftirtekt sem þeim ber. Eldri borgarar hérlendis eru um 27.000, þ.e. yfir 67 ára aldri, og staða þeirra er misjöfn. Þeir eiga þó sammerkt að hafa verið niður lægðir af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Eldri borgurum mun fjölga verulega á næstu árum og staða þeirra versnar ef ekki er breytt um stefnu. Þessi ríkisstjórnin mun ekki bæta stöðu eldri borgara.
    Um 65.000 manns eru yfir 50 ára aldri hérlendis, eða um fjórðungur þjóðarinnar. Þetta fólk hefur lifað tímana tvenna og byggt upp þau lífskjör sem landsmenn njóta nú. Það er skammarlegt að það skuli vera ástæða fyrir aldraða til að fyllast réttmætri gremju gagnvart stjórnvöldum. Þessi hópur á ekki marga kosta völ til að þrýsta á stjórnvöld til að leiðrétta kjör sín. Aldraðir fara ekki í verkfall ef á þá er hallað. Þessi hópur hefur skilað því margföldu til þjóðfélagsins sem rennur til þeirra á síðari hluta ævi þeirra.
    Það er mikilvægt réttlætismál að mati flutningsmanna að greiðslur úr almannatrygginga kerfinu breytist í samræmi við breytingar á launum. Hér er farin sú leið að færa lögin í fyrra horf, enda ríkti sátt um þá útfærslu. Vitaskuld er mögulegt að haga tengingu greiðslna úr almannatryggingum við laun með öðrum hætti, en meginatriðið er að brjóta hina ósvífnu stefnu ríkisstjórnarinnar á bak aftur.
    Íslendingar verja mun minna fé til ellilífeyris en gert er annars staðar á Norðurlöndunum. Tekjutenging í skatta- og almannatryggingakerfinu er of mikil og jaðaráhrif vega þungt. Þessu verður að breyta við heildarendurskoðun á málefnum aldraða. Brýnt er að eldri borgarar fái að taka þátt í tillögugerð á því sviði. Það er einkenni ríkisstjórnarinnar að taka ekkert tillit til óska eldri borgara og kalla þá aldrei til samráðs um fyrirhugaðar breytingar á lögum eða reglugerðum.
    Flutningsmenn telja að velferð sé grundvallaratriði. Það er samfélagsleg skylda að veita öldruðum öryggi og gott viðurværi, ásamt því að stuðla að aukinni sjálfsvirðingu þeirra.
    Í frumvarpinu er lagt til að afnumið verði bráðabirgðaákvæði í almannatryggingalögum sem kveður á um að ekki gildi lengur tenging bóta almannatrygginga við launabreytingar. Með afnámi þessa bráðabirgðaákvæðis gilda áfram fyrri lagaákvæði um að greiðslur úr almanna tryggingakerfinu taki sömu breytingum og vikukaup í almennri verkamannavinnu.