Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 17 – 17. mál.


Tillaga til þingsályktunar



um endurreisn Þingvallaurriðans.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Guðni Ágústsson, Árni M. Mathiesen.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns.

Greinargerð.


Hugtakið stórurriði.
    Stórurriði er hugtak sem hefur á síðustu árum öðlast þegnrétt innan vatnalíffræðinnar. Athygli vísindamanna hefur í auknum mæli beinst að stórvöxnum urriðastofnum í Norður-Evrópu. Ástæðan er einkum sú að þeir eiga langflestir í vök að verjast fyrir ásælni mannsins. Eftir að skipulegar rannsóknir hófust á þeim kom fljótlega í ljós að ákveðin sérkenni voru sameiginleg lífsferli þeirra allra:
1.      Þeir eiga uppruna sinn í ám sem annaðhvort renna úr eða í stór stöðuvötn.
2.      Sérhver kynslóð flytur sig kringum þriggja ára aldur úr klakánni yfir í stöðuvatnið.
3.      Fiskarnir hætta að nærast á hryggleysingjum af botni skömmu eftir að kemur yfir í stöðuvatnið og verða fiskætur.
4.      Hin smágerða fiskibráð er langoftast smágerð bleikja.
    Á fyrstu ráðstefnunni sem efnt var til eingöngu um stórurriða (Lillehammer, 1991) urðu þessi samkenni forsendur skilgreiningar fræðimanna á hugtakinu stórurriði: „Með stórurriða er átt við stofn þar sem einstaklingarnir eru að jafnaði fiskætur og nýta stöðuvatn sem vaxtar svæði og þar sem skipti yfir í fiskibráð leiða til marktækrar vaxtaraukningar.“
    Urriðinn í Þingvallavatni uppfyllir öll þessi skilyrði. Samkvæmt skilgreiningu hins alþjóð lega vísindasamfélags fellur hann því án tvímæla undir hugtakið „stórurriði“.

Sérkenni Þingvallaurriðans.
    Urriðarnir í Þingvallavatni skera sig einkum um þrennt frá öðrum stofnum vatnaurriða:
     1. Mikil stærð. Urriðar Þingvallavatns verða afar stórir. Þær heimildir sem safnað hefur verið benda meira að segja til að hvergi í veröldinni séu vísbendingar um stofna sem urðu stórvaxnari en Þingvallaurriðinn. Frá þessari öld eru heimildir frá næstum öllum bæjum við vatnið, sums staðar margar, um urriða sem vógu vel yfir 20 pund. Sumir verða raunar miklu þyngri. Þannig eru heimildir um 25, 26, 27, 28, 29, 32 og 36 punda urriða sem veiddust áður en útfalli vatnsins um Efra-Sog var lokað árið 1959, þegar Steingrímsstöð var reist.
    Tvö fræknustu urriðalönd veraldar eru jafnan talin Svíþjóð og Noregur. Stórurriðastofnum hefur mjög fækkað í þessum löndum, en þó er enn að finna þar mörg vötn sem fóstra stórurriða. Ágætar heimildir liggja fyrir um þyngd stærstu urriðanna í þessum löndum. Samkvæmt þeim virðast þau ekki standa Þingvallavatni á sporði í því efni. Í Svíþjóð hafa þannig veiðst á öldinni 34, 33 og 30 punda urriðar auk nokkurra milli 21 og 25 punda en í Noregi 32, 31, 30, 28 og 26 punda urriðar. Um bæði gildir að hinir stóru fiskar dreifðust á fleiri en eitt vatn. Það leikur því tæpast nokkur vafi á því að ekkert vatn í veröldinni státar af stórvaxnari urriðum en Þingvallavatn.
    Þess má geta að þau lönd sem utan Norðurlandanna eru stundum nefnd í tengslum við urriðasæld eru einkum Írland og Skotland. Hvorugt kemst þó í hálfkvisti við Norðurlöndin þrjú sem þegar hafa verið nefnd.
    Sérstöðu Þingvallvatns í þessu efni má einnig mæla á öðrum kvarða. Ágæt aðferð til að meta meðalstærð fullþroska fisks í tilteknum stofni er að skoða meðalstærð hrygningarfisks. Einu mælinguna sem nokkru sinni var gerð á hrygningarurriða í Þingvallavatni gerði Jón Kristjánsson fiskifræðingur árið 1973 á urriða úr Öxará. Reikningar hans bentu til að meðal þyngdin í Öxará væri ríflega 11 pund. Í stærsta stöðuvatni Noregs, Mjösa, sem til forna hét Mjörs, er að finna Hunderurriðann sem dregur nafn sitt af Hunderfossinum í Guðbrandsdals leginum. Nú er hann talinn stórvaxnasti urriðastofn veraldar. Meðalþyngd hans í hrygningu er þó talsvert minni en Öxæringsins, eða 8 pund.
    2. Sérstæður kynþroski. Urriðinn í Þingvallavatni er einnig sérstæður fyrir merkilegan kynþroska. Hann verður kynþroska óvanalega seint og jafnframt tekur hann sér hvíld frá hrygningu annað hvert ár.
    Í Þingvallavatni er urriði að jafnaði orðinn 8–9 ára gamall þegar hann verður kynþroska. Urriðar annarra vatna eru hins vegar yfirleitt 5–6 ára við fyrstu hrygningu. Hinn mikla vöxt Þingvallaurriðans má að hluta rekja til þessa. Ástæðan er sú að hrygningin er gífurlega orkufrek hjá fiskum og því dregur mjög úr vexti þegar þeir nálgast kynþroska. En vegna þess hversu seint á ævinni urriðinn í Þingvallavatni verður kynþroska er hann orðinn mun stærri en ættingjar hans þegar kemur að fyrstu hrygningu. Þetta skapar honum ríka sérstöðu gagnvart öðrum stofnum.
    Það er sömuleiðis mjög sérstakt að upplýsingar sem má lesa úr annálum hreistursýna Veiðimálastofnunar benda eindregið til að urriðar í Þingvallavatni verði að jafnaði ekki kynþroska nema annað hvert ár. Hvíldin frá hrygningunni annað hvert ár býr þeim stóraukið svigrúm til að vaxa og efalítið á það sinn þátt í mikilli stærð urriðans í vatninu.
     3. Hár aldur. Eitt af aðalsmerkjum Þingvallaurriðans er hár aldur. Elsti fiskurinn sem finna má í hreistursafni Veiðimálastofnunar varð 16 ára. Hann vó þó ekki nema liðlega 20 pund. Með hliðsjón af því að í vatninu veiddust miklu stærri urriðar, sumir raunar langt yfir 30 pund eins og áður er rakið, má ætla að stærstu urriðarnir hafi komist vel á þrítugsaldur. Langt æviskeið á einnig sinn þátt í miklum vexti Þingvallaurriðans því að hann, eins og aðrir fiskar, heldur áfram að vaxa fram í andlátið.

Ísaldargen og ættfræði.
    Allt sem vitað er um urriðann í Þingvallavatni bendir til að hann sé einstakur á heimsvísu. Eiginleika hans má rekja til arfgerðar sem var ráðandi í urriðastofnum við lok ísaldarinnar. Þetta var staðfest með erfðarannsóknum írskra og íslenskra vísindamanna. Ísaldargenin stýrðu þeim sérkennum Þingvallaurriðans sem lýst er að ofan, mikilli stærð, síðbúnum kynþroska og langri ævi.
    Áar urriðans í Þingvallavatni voru án vafa stórvaxnir sjóbirtingar, eins og sjógengir urriðar nefnast. Fyrir tíu þúsund árum þegar ísöld tók að slota lá jökull yfir norðurhluta Evrópu og meðal annars stærstum hluta Íslands. Þegar jökullinn hopaði til norðurs fylgdu þeir jökul jaðrinum og námu land í auravötnunum sem flæddu frá honum til sjávar. Þegar jökullinn bráðnaði létti hins vegar gríðarlegu fargi af landinu og það tók að rísa úr sæ. Rannsóknir við Háskóla Íslands sýna þannig að á aðeins þúsund árum reis Ísland um tæpa hundrað metra. Ein af afleiðingum þess var að ókleifir fossar birtust í Soginu. Sjóbirtingurinn ofan fossa varð því innlyksa í jökullóni sem síðar varð að Þingvallavatni.
    Ættfærsla er þjóðaríþrótt Íslendinga og svo vill til að hægt er að leiða rök að því hvaðan Þingvallaurriðinn er upprunalega ættaður. Eins og áður segir hafa erfðarannsóknir staðfest að arfgerð hans má rekja til loka ísaldarinnar. Forfeðra hans er því að leita meðal sjóbirtinga sem hafa hátt hlutfall hinna upprunalegu ísaldargena. Þeir eru hins vegar afar sjaldgæfir nú. Á suðvesturodda Írlands, í Cummaragh-vatnakerfinu, er þó enn að finna sjóbirtinga sem ekki aðeins búa að háu hlutfalli ísaldargenanna heldur einnig að þeim líffræðilegu eiginleikum sem einkenna urriðann í Þingvallavatni. Frá suðvesturodda Írlands er nánast bein gönguleið í hánorður að jökulfljótum Suðurlands. Með hliðsjón af þessu er nærtækt að álykta að Þingvallaurriðann megi rekja til Cummaragh á Írlandi og þar með að hann sé upphaflega keltneskur nýbúi.
    Aldursgreiningar á sjávarskeljum sem fundust við Sogsfossa benda til að gönguleiðin til hafs hafi einungis staðið opin í þúsund ár. Allt bendir því til að í níu þúsund ár hafi urriðinn lifað einangraður frá ættingjum sínum neðan fossa og ekki blandað blóði við aðra urriða á þeim tíma. Erfðaeiginleikar hans hafa því tæpast breyst mikið frá því að hann einangraðist. Þetta er mikilvæg staðreynd því eins og þegar er rakið voru gen ísaldarstofnanna einstök og eru núna afar fágæt.
    Til fróðleiks má geta þess að löngu síðar syntu fram á sjónarsviðið smávaxnari urriða stofnar sem smám saman hafa blandast hinum stórvöxnu stofnum sem nyrst í Evrópu ein kenndu tegundina undir lok ísaldarinnar. Í þeim örfáu ísaldarstofnum sem enn lifa er að finna hin merkilegu og eftirsóknarverðu gen sem stýra langlífi, miklum vexti og síðbúnum kyn þroska. Hraðfleygar framfarir í erfðatækni á allra síðustu árum hafa opnað ótrúlega mögu leika á því að nýta svo fágætar erfðir. Það eitt ætti að nægja til að vekja menn til vitundar um nauðsyn þess að bjarga frá glötun þeim verðmætum sem liggja í erfðavísum ísaldarurriðans í Þingvallavatni.

Veiðiheimildir fyrr á öldum.
    Saga urriðans í vatninu er þekkt langt aftur í aldir. Traustar heimildir eru um urriðaveiði úr Þingvallavatni áður en landnámsmenn tóku upp fasta búsetu við vatnið. „En þeir gerðu sér skála þar er þeir höfðu náttból, og kölluðu þar að Skálabrekku,“ segir Sturlunga um Ketilbjörn Ketilsson sem helgaði sér land við Þingvallavatn og víðar. „En er þeir voru þaðan skammt farnir þá komu þeir á árís og hjuggu á vök og felldu í öxi sína og kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá og fellur nú eftir Þingvelli.“ Landnáma greinir líka frá áningu þeirra Ketilbjarnar undir Reyðarmúla og segir að þeir hafi skilið þar eftir urriða sem þeir veiddu í ánni. Samkvæmt því hefur veiði á urriða hafist við Þingvallavatn áður en Ketilbjörn festi sér land við vatnið.
    Fyrir krókaveiði á tímum landnámsins eru þó enn sterkari sannanir. Í kumli sem opnaðist árið 1946 í Torfnesi, í norðurenda Úlfljótsvatns, fundust leifar af heillegum öngli, hinum elsta sem hér á landi hefur komið í leitirnar. Einnig voru í kumlinu leifar af heillegum færistaumi og sökkur, auk bátsleifa. Stór krókur, sem kann að hafa verið ífæra, var einnig í kumlinu. Ekki leikur því vafi á að á vatnasvæði Þingvallavatns var veitt með krókum allar götur frá land námi.
    Árið 1570 er að finna heimildir um veiði á urriða í máldaga Gísla biskups Jónssonar fyrir Þingvallakirkju. Í registri yfir eignir kirkjunnar er meðal annars talin „urriðaveiði í allri Öxará“. Árið 1638 lýsti svo sterkasti biskup Íslandssögunnar, Gísli Oddsson (Einarssonar biskups), hinum stórvaxna „berglaxi“ er biskup kvað renna úr botnleysum dýpstu stöðuvatna. Lýsingin ber með sér að biskup á við stórurriða, enda átti Skálholtsstóll bestu veiðijarðir við Þingvallavatn á tímum Gísla og vitað að menn hans stunduðu netaveiði við þekkt urriðamið.
    Skömmu eftir 1700 skrifuðu þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín í Jarðabók sína um urriðaveiði í Öxará og geta þess einnig að í Ölfusvatnsá, sem rennur um Grafning í Þingvallavatn, hafi hún sömuleiðis „að gagni verið og ei örvænt um að enn megi vera“. Alþingismenn sem sóttu hið forna Öxarárþing vissu vel af urriðanum. Dæmi þess má finna í texta frá því um 1730 þar sem Þorlákur Magnússon lögréttumaður reifar veiðina í vatninu og kveður þar fást mikið af urriða.
    Á átjándu öldinni fóru bændur um vatnið á ís og veiddu urriða á hoppung, sérstakt veiðarfæri sem þróaðist einungis við Þingvallavatn og notað var til að krækja upp fiski. Þórður fróði Sigurðsson á Tannastöðum segir þannig að skömmu fyrir 1800 hafi Jón Snorrason, bóndi á Ölfusvatni, dregið urriða þann „er meira var en tuttugu pund að þyngd“ út við Sandey. Um miðja 19. öld tíðkaði Grímur Þorleifsson, langalangafi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að fara á skautum frá Nesjavöllum þvert yfir vatnið út á hin frægu urriðamið í Skútavík nyrst í landi Kaldárhöfða. Í víkinni veiddi Grímur mikinn urriða á hoppung og varð frægt á Suðurlandi hversu góður reyktur urriði frá Nesjavöllum þótti.
    Upp úr 1850 hófst svo netaveiði á urriða. Í fyrstu var það einungis ádráttur en síðar var lagnetum beitt. Í Öxará drógu bændur fyrir urriðann og söltuðu hann í tunnur til vetrarins, hertu, reyktu eða suðu niður. Í bókinni På Islands Grund segir danski fiskifræðingurinn Arthur Feddersen frá heimsókn sinni til Þingvalla sumarið 1885 og á ekki nógu sterk orð til að lýsa bragðgæðum niðursoðins urriða hjá séra Jens Pálssyni.
    Stangaveiði fyrir urriða hófst líklega árið 1858 með komu skoska kaupmannssonarins Williams Hogarths sem hingað sigldi á slúffu sinni það ár. Haustið 1860 keypti hann svo veiðiréttinn fyrir landi Kaldárhöfða. Í honum fólst meðal annars urriðaveiðin í Efra-Sogi. Í kjölfarið tóku erlendir veiðimenn að sækja til Íslands til að veiða stórurriða á stöng í Efra-Sogi og Þingvallavatni. Afar fróðlegar upplýsingar um veiðina lifa frá þeim tímum í dagbókum hinna útlendu veiðigarpa.
    Íslendingar hófu stangaveiði á urriða í kjölfar heimsókna útlendinganna, en segja má að landsmenn hafi ekki byrjað stangaveiði í Þingvallavatni fyrir alvöru fyrr en kringum 1930. Fjölmargar frásagnir frá fyrri hluta aldarinnar bera því vitni að hvergi í veröldinni var að finna urriðaveiði sem jafnaðist á við haustveiðina í útfalli Þingvallavatns. Dagbækur Jóns heitins Ögmundssonar í Kaldárhöfða, eins mesta veiðimanns Íslandssögunnar, eru einstakar og óviðjafnanlegar heimildir um það. Fjölmargar bækur eru til um veiði í bestu urriðavötnum veraldar. Engin lýsir þó veiðisvæðum sem státa af þeim fjölda fiska eða stærð sem dagbækur Jóns Ögmundssonar lýsa.

Hrun og viðreisn.
    Alger kaflaskipti urðu í sögu Þingvallaurriðans þegar útfall vatnsins, Efra-Sog, var þvergirt og straumvatnið leitt um jarðgöng í Steingrímsstöð. Virkjunin gjöreyddi mikilvægasta stofninum, sem hrygndi fyrir mynni og í efri hluta Efra-Sogs. Í kjölfar virkjunarinnar hækkaði vatnsborðið og það, ásamt landsigi í norðurhluta Þingvallavatns, linaði straum á hinum mikilvægu hrygningarstöðvum í Öxará. Í kjölfarið virðist viðgangur stofnsins í ánni ekki vera svipur hjá fyrri sjón. Þingvallavatn var jafnframt notað sem miðlunarlón fyrir raforkuver í Soginu með þeim afleiðingum að stofnar sem hrygndu á örgrunnu vatni, meðal annars á nokkrum stöðum fyrir Nesjahrauni, hafa ekki borið barr sitt síðan. Í kjölfar umdeildra sleppinga á urriða fyrir nokkrum árum hefur borið meira á urriða í afla en áður og líklegt er að svo verði um nokkurt skeið, meðan sleppiárgangurinn rennur skeið sitt á enda.     
    Í hnotskurn er þó staða urriðans í Þingvallavatni þannig að verði ekkert gert eru yfirgnæfandi líkur á að hann muni smám saman hverfa úr vistkerfi vatnsins. Það leikur hins vegar enginn vafi á því að enn er ekki of seint að bjarga Þingvallaurriðanum frá eilífri glötun. Ýmsar leiðir koma til greina, misjafnlega líklegar til árangurs, og sumar líklegar til að valda deilum.
    Í Svíþjóð og Noregi hafa menn reynt með ágætum árangri ýmsar leiðir til að styrkja undir stöður stórurriða, sem voru á góðri leið með að hverfa endanlega. Í Noregi er til dæmis nýlega búið að skrá alla stofna stórurriða og búið að gera verndaráætlun fyrir þá sem verst eru staddir. Hér á landi er jafnframt að finna mikla þekkingu á vistfræði stöðuvatna og drjúga reynslu í viðhaldi stofna, fyrst og fremst innan vébanda Veiðimálastofnunar. Flutningsmenn telja því farsælast fyrir framvindu málsins að Alþingi feli ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd sérfróðra aðila sem dragi saman þá vitneskju, heima og erlendis, sem kynni að nýtast í þessum tilgangi. Á grundvelli þeirra leiða, sem vænta má að spretti af starfi nefndarinnar sem hér er gerð tillaga um, ætti réttum stjórnvöldum ekkert að vera að vanbúnaði til að taka ákvarðanir sem líklegar eru til að tryggja viðreisn urriðans í Þingvallavatni.
    Flutningsmenn benda sérstaklega á að nauðsynlegt er að sérfræðingar frá Veiðimálastofnun taki þátt í störfum nefndarinnar, auk þess sem Hólaskóli og Háskóli Íslands búa yfir sérfræðiþekkingu sem gæti efalítið nýst henni. Sömuleiðis væri æskilegt sökum stjórn sýsluhlutverks Þingvallanefndar og formlegra tengsla hennar við Alþingi að hún ætti einnig kost á að tilnefna mann í nefndina. Ekki er hins vegar gerð nein tillaga um hve margir skuli eiga sæti í nefndinni.
    Svipuð tillaga var áður flutt af Össuri Skarphéðinssyni, Guðna Ágústssyni og Gunnlaugi Stefánssyni á 116. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu sökum þess hve seint hún var fram komin.

Helstu heimildir.
Norsk seminar om forvaltning af storörret. DN-rapport 1992–94. Trondheim.
Laxfond for Vänern. Ett utvecklings- og framtidsprojekt. 1987. Vänersborg.
Urriðadans eftir Össur Skarphéðinsson. 1995. Mál og menning, Reykjavík.