Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 43 – 43. mál.Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Kristján Pálsson, Einar K. Guðfinnsson,


Guðjón Guðmundsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Vilhjálmur Egilsson.1. gr.


    1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru:
     a.      Launþegar sem starfa hér á landi, að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í ís lensku skipi, skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.
     b.      Nemendur við iðnnám samkvæmt iðnfræðslulögum.
     c.      Útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar.
     d.      Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.
     e.      Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.
     f.      Sjúklingar sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan er vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem starfar á þessum stofnunum.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á seinni árum hefur mjög færst í vöxt að íslenskar skipaútgerðir noti í sínum rekstri skip sem skráð eru annars staðar en á Íslandi en manni þau eigi að síður með íslenskri áhöfn, alfarið eða að hluta til. Fá þessir sjómenn laun sín greidd frá hinu íslenska skipafélagi, greiða skatta og skyldur hérlendis og njóta sjómannaafsláttar, sbr. b-lið 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, til jafns á við sjómenn á skipum skráðum á Íslandi.
    Í a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna er kveðið á um að launþegar sem starfa hér á landi séu slysatryggðir. Starf um borð í íslensku skipi, þ.e. skipi skráðu hérlendis, eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessu ákvæði. Í kjölfar hins hörmulega slyss þegar Dísarfell fórst í mars sl. kom í ljós að íslenskir sjómenn sem starfa um borð í skip um sem sigla undir erlendum fána en eru eigi að síður í þjónustu íslenskra skipafélaga hafa engan lagalegan rétt til slysatrygginga, þrátt fyrir að þeir greiði skatta af launum sínum til ís lenska ríkisins. Hér er á ferðinni augljós mismunun sem byggist eingöngu á því hvort starfs manni íslensks skipafélags er gert að sigla á íslenskum skipum félagsins eða þeim sem skráð eru annars staðar í heiminum.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatrygginga laganna að sjómenn sem starfa á skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi séu slysatryggðir á sama hátt og þeir starfsbræður þeirra sem starfa á skipum skráðum á Íslandi. Það leiðir af ákvæðum a-liðar 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna að til þess að vera slysatryggður samkvæmt þessum lið þarf sjómaður að fá laun sín greidd af íslenskri útgerð. Í þeim tilvikum sem íslenskt skipafélag leigir erlent skip með áhöfn sem fær laun sín greidd erlendis frá er ekki uppfyllt ákvæði laganna um að störf sjómanns um borð í íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi jafngildi störfum launþega sem starfa á Íslandi, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr. almannatryggingalaganna. Hugtakið íslenskt skipafélag getur eftir því sem við á tekið bæði til kaupskipa- og fiskiskipaútgerða, hvort sem félög eða einstaklingar standa að slíkum rekstri.